14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5895 í B-deild Alþingistíðinda. (5251)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það þarf kannske ekki að hafa svo mörg orð um þetta mál. Það gilda um þetta svipaðar röksemdir og það fyrra. Ráðherrar eru búnir að kvarta og berja sér á brjóst yfir blankheitum í allan vetur, búnir að standa að niðurskurði á alls konar félagslegri þjónustu, í heilbrigðiskerfi, skólakerfi og víðar. Það endar líklega með því að börnin þurfa að ganga í skólann sem þau hafa hingað til verið keyrð í, t. d. úti á landi, það eru stórkostlegar deilur uppi um hvernig eigi að greiða einstaka þjónustuþætti þar. Þá er ekki hægt að bjóða okkur upp á svona eyðslu. Það er verið að fara fram á að Alþingi samþykki að greiða svo og svo mikla peninga fyrir tæknilega brellu í framtölum bankakerfisins. Þetta er ósköp einfaldlega það sem er til umr. Einhverjum finnst að það þurfi að breyta þessari skattlagningu, það þurfi að færa hana til samræmis við það sem er hjá einhverjum öðrum og það kostar 100 millj. Það er ekki nokkur einasta ástæða til þess að borga alla þessa peninga til þess að einhverjum tæknikrötum líði betur og þeir hafi samræmi í kerfinu hjá sér. Hv. þm. Friðrik Sophusson er í stjórnarnefnd einhverrar stærstu heilbrigðisstofnunar hér. Þar skilst mér að farið sé að spara sykurinn út í kaffið hjá starfsfólkinu. Það eru alls konar áætlanir þar um hvernig eigi að spara svo og svo mikið, láta sjúklingana liggja lengur á lökunum og alls konar áform um sparnað. Svo er hann að tala um að borga á annað hundrað milljóna bara til þess að einhverjum tæknikrötum liði betur, þannig að þeir finni samhengi og samfellu í aðferðinni sem þeir nota við að skattleggja fyrirtæki og banka. Þetta er eyðsla sem við höfum alls ekki efni á.

Ég er því hlynntur að endurskoða ýmislegt. Ég hef stutt ýmsar kerfisbreytingar sem þessi ríkisstj. hefur staðið fyrir í vetur. Þær sem ég tel að horfi til bóta. Þá nefni ég t. d. niðurfellingu á 10% gjaldi á ferðamannagjaldeyri. Ég tel að sú gjaldtaka hafi ekki verið okkur sæmandi og ekki í samræmi við þann tíma sem við lifum á. Ég tel að sú gjaldtaka hafi staðið í vegi fyrir eðlilegum ferðalögum og eðlilegum upplýsingaskiptum okkar og annarra menningarsvæða í heiminum. Af þeim ástæðum og ýmsum öðrum studdi ég þá breytingu. Ég studdi ýmsar breytingar í sambandi við skattamál fyrirtækja vegna þess að ég tel að sé litið til lengri tíma geti það hugsanlega leitt til nokkurra hagsbóta fyrir land og þjóð. En hérna erum við að tala um að láta af hendi stórkostlega mikla peninga til að koma einhverju „patentsystemi“ á skattlagningu á bönkum. Ég get alls ekki staðið að því. Ég mun ekki greiða því atkv. vegna þess að á sama tíma er tekið fyrir byggingu barnaheimila, það vantar skólabækur í skólastofum landsins, það vantar algengustu kennslutæki í skólastofur landsins og t. d. í Háskólanum eru skólastofur að springa utan af bæði nemendum og kennurum og það vantar kennara. Það kom fram í blöðum um daginn að það vantar líklega ein 30–40 stöðugildi kennara í verkfræði- og raunvísindadeild sem á þó að vera undirstöðudeildin að þeirri framtíð sem Framsfl. er nýbúin að uppgötva. Þá getum við ekki gert svona lagað.

Ég skora á hæstv. fjmrh., vin lítilla manna og stórra, að draga þessi tvö frv. til baka þó ekki væri nema vegna tímasetningarinnar. Á sama tíma og það er verið að draga úr félagslegri þjónustu í landinu, það er verið að gera undir yfirskyni sparnaðar ýmiss konar stórkostlegar breytingar á uppbyggingu velferðarkerfis sem hefur verið samkomulag milli allra flokka um að byggja upp hérna á s. l. 20–30 árum, þá er ekki hægt að læðast með limskæri eins og þjófur á nóttu og skera hér og þar undir því yfirskyni að það þurfi að spara og koma svo með svona tillögur og ættast til þess að menn samþykki þær hljóðalaust.

Ég endurtek þá áskorun mína á hæstv. ráðh. að sjá nú sóma sinn í því að draga þetta til baka. Þetta eru vafalaust ágætis hugmyndir, þetta er ágætis tiltekt í stjórnkerfinu og við skulum styðja slíkt þegar við höfum efni á því, við skulum vona að það verði einhvern tíma, en eins og nú eru horfur tel ég að alls ekki sé ástæða til þess.