15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5899 í B-deild Alþingistíðinda. (5255)

Almennar stjórnmálaumræður

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við þinglok hafa margir haft þann sið að mæla árangurinn af störfum Alþingis með fjölda samþykktra þingmála. Ýmsir hafa verið því ánægðari með störf þingsins sem það hefur samþykkt viðameiri lagabálka um aukin umsvif ríkisins. Á þennan mælikvarða geri ég ráð fyrir að sósíalistar geti með réttu haldið því fram að þetta þing hafi skilað litlum árangri.

Þannig hefur í ríkari mæli en mörg undangengin ár verið fjallað um mál sem miða að því að draga úr opinberum umsvifum og auka frelsi borgaranna og atvinnulífsins. Þessi staðreynd markar þáttaskil í störfum löggjafarsamkomunnar og það var sannarlega kominn tími til að meta störf hennar á nýja mælikvarða. Það mun vafalaust á sannast í þessum umr. hér í kvöld að fulltrúar vinstri flokkanna munu staðfesta þau umskipti sem orðið hafa að þessu leyti.

Af merkum nýmælum, sem hníga í frjálsræðisátt, má nefna þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattalöggjöfinni fyrir forgöngu fjmrh. og miða að því að auðvelda almenningi að spara í atvinnurekstrinum sjálfum. Um leið hefur skattareglum verið breytt til þess að auðvelda atvinnufyrirtækjum að fjárfesta og leggja þannig grundvöll að aukinni verðmætasköpun.

Í samræmi við stefnu Sjálfstfl. í húsnæðismálum um eign fyrir alla hefur hugmyndum um meiri rétt leigjenda en byggjenda verið hafnað.

Fyrir forgöngu iðnrh. hefur þetta þing fjallað um sölu ríkisfyrirtækja og hlutabréfa í eigu ríkisins. Menntmrh. hefur barist fyrir því að fá samþykkta nýja löggjöf um frelsi í útvarpsrekstri.

Allt eru þetta mikilvæg grundvallaratriði. Nú veltur á miklu að þær pólitísku aðstæður, sem sköpuðust eftir síðustu kosningar, haldist svo unnt verði að halda áfram á þeirri braut sem hér hefur verið mörkuð.

Enginn getur á móti því mælt að stefna ríkisstj. hefur leitt til algjörra umskipta í íslenskum efnahagsmálum. Megintakmarkið með myndun ríkisstj. var að koma verðbólgunni niður á svipað stig og í okkar helstu nágranna- og viðskiptalöndum.

Með því að jafna áhrifum af minnkandi þjóðartekjum og miklum viðskiptahalla niður á landsmenn var komið í veg fyrir almennt atvinnuleysi. Þannig hefur verið lagður grundvöllur að viðvarandi jafnvægi í íslenskum efnahagsmálum. Jafnframt hafa verið gerðar margháttaðar ráðstafanir í skatta- og tryggingamálum í þágu þeirra sem verst eru settir. Ekkert af þessu hefði gerst nema fyrir þá sök að þjóðin var reiðubúin að ganga með stjórnvöldum til þessa leiks. Það var ekki lengur dregið að ráðast til atlögu við meinsemdir íslensks efnahagslífs.

Fólkinu í landinu var ljóst að það þurfti samstöðu, festu og áræði ef það ætti að takast. Launafólkið í landinu var tilbúið að taka á sig byrðar ef sá draumur mætti rætast að koma hér á efnahagslegu jafnvægi.

Þó að efnahagsaðgerðirnar frá því í maí í fyrra hafi skilað meiri árangri en flestir bjuggust við fer því fjarri að öllum markmiðum hafi verið náð. Mestum áhyggjum veldur að ekki hefur tekist að ná viðunandi jafnvægi í fjármagnsmarkaðnum og í ríkisfjármálum þó að glundroði undangenginna ára í þeim efnum hafi í veigamiklum atriðum verið færður til betri vegar.

Upp á síðkastið hefur ýmsum fundist sem ríkisstj. væri ekki jafnsamstæð og einörð og í upphafi. Ugglaust ræður þar mestu um sá langi tími sem það tók að koma fram tillögum til lausnar á hallarekstri ríkissjóðs. Inn í þessa mynd kemur vafalaust einnig ágreiningur milli stjórnarflokkanna um fáein mál önnur og jafnvel grundvallaratriði, eins og til að mynda um húsnæðismálin.

Það gefur auga leið að þetta hefur ekki bætt stöðu stjórnarinnar út á við, en ef vilji er fyrir hendi þarf það ekki að koma í veg fyrir að haldið verði áfram á sömu braut og af sama styrkleika og áður. Þó að sitt hvað hafi gengið úrskeiðis hefur svo mikið áunnist að það væri ábyrgðarleysi að reyna ekki til þrautar. Sjálfstæðismenn munu því leita eftir málefnalegri samstöðu til þess að styrkja stjórnina.

Í fáeinum málum hafa komið fram mismunandi sjónarmið um afmörkuð atriði hjá einstökum stuðningsmönnum stjórnarinnar, en auðvitað breytir það ekki því að í heild hefur stjórnarsamstarfið verið gott það sem af er.

Reynslan sýnir að myndun ríkisstjórnarinnar var rétt ákvörðun af hálfu sjálfstæðismanna. Eins og nú standa sakir eru því engin áform uppi um stjórnarslit eða samvinnu við aðra flokka, enda er stjórnarandstaðan bæði veik og sundurlaus.

Sjálfstæðismenn hafa eðlilega áhyggjur af of mikilli erlendri skuldasöfnun í kjölfar ráðstafana í ríkisfjármálum, en það breytir ekki mikilvægi þess að stjórnin taki sig á í þeim efnum og reynt verði að ná samstöðu við samstarfsflokkinn um ýmis önnur þýðingarmikil mál. Það verður að fullreyna áður en menn fara að leiða hugann að öðrum kostum. Meginmáli skiptir að menn sýni festu og samstöðu í stjórnarháttum öllum, þannig að fólkið í landinu geti treyst á áframhaldandi markvissa baráttu fyrir jafnvægi og blómlegu atvinnulífi og bættum lífskjörum.

Segja má að með kjarasamningunum fyrr á þessu ári hafi fyrsta þætti í starfi ríkisstj. verið lokið. Áhrif efnahagsaðgerðanna voru komin fram og fyrstu kjarasamningarnir gerðir á grundvelli nýrrar efnahagsstefnu. Í sumar þarf því að semja um nýja verkefnaáætlun. Að því leyti stendur ríkisstj. nú á krossgötum. Hún þarf með ótvíræðum hætti að sýna þjóðinni að hún sé reiðubúin að takast á við verkefnin sem fram undan eru og hún þarf að segja frá því með hvaða hætti það verður gert til þess að það traust megi ríkja milli stjórnvalda og fólksins í landinu sem er forsenda þess að áframhaldandi árangri verði náð.

Mikilvægasta atriðið í þessu sambandi er að halda áfram þeirri gengisstefnu sem mörkuð hefur verið. Launþegar og vinnuveitendur verða að beygja sig fyrir þessu markmiði og ríkisvaldið sjálft verður með takmörkun erlendra lána og minni umsvifum að leggja sitt af mörkum svo að þetta markmið megi haldast. Við eigum vitaskuld að geta haldið kostnaðaraukningu hjá okkur sjálfum í samræmi við það sem gerist í viðskiptalöndum okkar.

Ég ætla að nefna hér nokkur atriði sem öðru fremur verða að móta verkefnaáætlun næstu missera.

Brýnasta verkefnið er að grynna á þeim skuldum sem safnast hafa upp meðan tekjur hafa ekki mætt gjöldum, en orsök þeirra er stöðug útgjaldaaukning á undanförnum árum og þó umfram allt tekjutap við samdrátt þjóðarframleiðslu. Þessum halla verður fyrst og fremst að mæta með lækkun útgjalda, en þá fyrst þegar þjóðarframleiðsla vex á ný skapast svigrúm til að lækka skatta ef útgjöldum verður haldið í skefjum. Að því verður markvisst unnið. Stefnumörkun í ríkisfjármálum fyrir næstu ár þarf m. a. að leggja þessi atriði til grundvallar.

Útgjöld ríkisins þurfa að lækka. Núllvöxtur útgjalda í hlutfalli við þjóðarframleiðslu er lágmarksmarkmiðið. Auka þarf greiðslur neytenda fyrir veitta opinbera þjónustu.

Koma þarf við sérstökum hagræðingaraðgerðum til aðhalds í rekstri og framkvæmdum, eins og þegar hefur verið gert hjá Rafmagnsveitum ríkisins.

Draga þarf úr tilfærslum og beinum styrkjum til atvinnufyrirtækja og atvinnugreina.

Athuga þarf hvort hyggilegt geti verið að taka upp nýtt sjúkratryggingakerfi með sérstöku iðgjaldi í samræmi við tekjur þar sem mönnum gæfist kostur á að taka eigin áhættu að hluta sem síðan yrði gerð upp með sköttum.

Við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum er ekki svigrúm til lækkunar á heildarsköttum. Hins vegar er nauðsynlegt að hefja nú þegar undirbúning og gjörbreytingu á tekjuöflunarkerfi hins opinbera.

Markmiðið á að vera þetta: Að samræma tolla og aðflutningsgjöld. Að koma á virðisaukaskatti í stað söluskatts og í tengslum við þá kerfisbreytingu að afnema launaskatt og aðstöðugjald og lækka beina skatta. Loks kemur til álita að færa skattalagningu á tekjur einstaklinga alfarið til sveitarfélaga. Á móti fengju sveitarfélögin aukin verkefni, einkum á sviði heilbrigðis- og menntamála.

Að því er varðar stjórn fjármagnskerfisins er óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að gera róttækar breytingar til þess að draga úr miðstjórnarvaldi og pólitískri íhlutun um mál sem eiga að ráðast í bankakerfinu og atvinnulífinu sjálfu.

Skjótvirkasta leiðin til að ná jafnvægi á peningamarkaðnum er að gefa vexti frjálsa með fyrir fram ákveðnum áföngum á næstu mánuðum. Jafnframt þarf að endurskipuleggja afurðalánakerfi atvinnuveganna m. a. til þess að koma á staðgreiðslu til bænda og auðvelda kerfisbreytingar í verðmyndun búvöru. Þá þarf einnig að draga úr vísitölubindingu á fjármagnsmarkaðnum rétt eins og á vinnumarkaðnum.

Að því er bankakerfið varðar þarf að stuðla að samruna banka. Með hagsmuni atvinnulífsins í huga væri vænlegast að hefjast handa um sameiningu annars af minni ríkisbönkunum við einkabanka einn eða fleiri. Bankarnir eru of margir, of háðir ríkisvaldinu og flestir of veikir til að sinna þörfum atvinnufyrirtækjanna. Veðdeildir bankanna þurfa aukið svigrúm til útgáfu vaxtabréfa til þess að geta tekið við verkefnum af hinum smærri fjárfestingarsjóðum og einnig við ýmsum verkefnum frá stærri sjóðum. Þetta er ein af forsendum þess að unnt sé að endurskipuleggja sjóðakerfið.

Mikilvægt er að skipulag fjárfestingarsjóða hindri ekki eðlilega uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu. Til álita kæmi að brjóta niður múrana umhverfis einn af sjóðunum um leið og hann yrði efldur verulega og stjórnendum hans gefið aukið svigrúm til þess að meta upp á eigin spýtur án lagaákvæða til hvaða verkefna hann mætti lána. Þá þarf að auðvelda fyrirtækjum að taka lán erlendis án ríkisábyrgðar. Arðsemisaðhald erlendra lánardrottna kemur þá sjálfkrafa í veg fyrir óarðbærar lántökur.

Brýnt er að haldið verði áfram sölu ríkisfyrirtækja svo og sölu hlutabréfa ríkisins í atvinnufyrirtækjum.

Með tilliti til þess hversu stöðugt gengi og afnám vísitölubóta á laun hefur skilað miklum og skjótum árangri í baráttunni við verðbólguna þarf að leggja grundvöll að því að kaupmáttur launa byggist til frambúðar á stöðugleika í gengismálum, en ekki vélrænu og verðbólguhvetjandi vísitölukerfi.

Launaþróunin á næstu árum þarf að taka mið af samkeppnisstöðu iðnaðar. Til þess að þetta geti staðist þarf að auka sveiflujöfnun í sjávarútvegi í því skyni að hann sprengi ekki upp öll laun í landinu þegar betur gengur og síðan þurfi að fella gengið til að bjarga honum þegar verr árar.

Í atvinnumálum blasa við bæði gömul og ný vandamál. Í sjávarútvegi stöndum við frammi fyrir þeim bitra veruleika að gullkistan er takmörkuð auðlind. Við þurfum því að hafa taumhald á fjárfestingu í þessari atvinnugrein með hliðsjón af þessari staðreynd. Það verður best gert með því að auka kröfur um eigið fé og leyfa þeim að njóta sín sem best hafa staðið sig.

Í landbúnaði er óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða sem smám saman færa framleiðsluna til samræmis við þarfir innlenda markaðarins. Í þeim efnum er nú unnið að tillögugerð sem miðar að því að treysta stöðu bænda og fullnægja kröfum neytenda, en auðvitað er það svo að hagsmunir þessara aðila fara saman þegar allt kemur til alls.

Skapa þarf svigrúm til nýrra átaka í almennri iðnaðarstarfsemi og halda þarf áfram því mikilvæga starfi sem hafist var handa um við stjórnarskiptin að því er varðar uppbyggingu stóriðju og hagnýtingu orkulinda landsins.

Ef árangur á að nást þurfa stjórnvöld að tryggja atvinnuvegunum góð rekstrarskilyrði, en um leið þarf að auka ábyrgð þeirra sem stjórna atvinnufyrirtækjunum. Fái þeir tækifæri og aðstöðu hvílir á þeim sú skylda að hagnýta hana til þess að auka framleiðni og verðmætasköpun.

Reynslan sýnir okkur að opinberar áætlanir í þeim efnum duga skammt. Framleiðni í íslensku atvinnulífi er helmingi minni en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þessi alvarlega staðreynd gerir það óumflýjanlegt að arðsemiskröfur ráði í ríkari mæli fjárfestingu í atvinnulífinu en verið hefur.

Víðtæk samstaða á að geta tekist um aðgerðir í atvinnumálum á grundvelli þeirrar stefnu er fram kom í ályktun Alþýðusambands Íslands um þau efni fyrir réttu ári. Of mikil ríkisafskipti eru orsök þess að það hefur ekki verið sá gróandi í íslensku atvinnulífi að það hafi getað búið fólkinu í landinu þau lífskjör sem við viljum að það hafi. Fyrir þá sök þarf að auka sjálfstæði og ábyrgð atvinnulífsins í landinu. Það er leið að því marki sem við höfum sett okkur.

Góðir áheyrendur. Þau verkefni, sem þannig blasa við, eru á margan hátt erfiðari og margslungnari en þau sem eru að baki. Ef við ætlum okkur að gera efnahagslegt jafnvægi að veruleika og hefja alhliða sókn í atvinnumálum mun reyna meira á þrautseigju og samstöðu þjóðarinnar en nokkru sinni fyrr. Hún hefur fram til þessa gengið heils hugar að verki með stjórnvöldum, en hitt er jafnvíst að til þess að halda verkinu áfram þarf samstillta forustu. Það hefur of mikið áunnist til þess að við getum leyft okkur að glutra því niður. Þjóðin hefur ekki efni á veikleika í stjórnarháttum, eins og nú standa sakir. Sjálfstfl. lítur á það sem ábyrgð sína og skyldu að sjá svo um að það gerist ekki. Hann mun í samningum um nýja verkefnaáætlun fyrir ríkisstjórnina setja þessa hagsmuni þjóðarinnar ofar öllu öðru.