15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5903 í B-deild Alþingistíðinda. (5256)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar sáttmáli núverandi ríkisstjórnar leit dagsins ljós fyrir tæpu ári skrifaði ég grein í eitt dagblaðanna undir fyrirsögninni „Fæddist lítil mús.“ Sú litla mús átti við félagslegu þættina sem stjórnarflokkarnir afgreiddu með einni setningu í niðurlagi stefnuyfirlýsingar sinnar eftir að hafa eytt löngu máli í flestar hliðar efnahagsmálanna. Þessi setning hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á velferð, jafnræði, öryggi, menntun, félagslegar umbætur og góða heilbrigðisþjónustu.“

Sem sagt: allir þessir málaflokkar afgreiddir í einni setningu. Það var rétt eins og þeir hefðu gleymst, en svo hefði einhver komist í handritið rétt fyrir prentun og bjargað í horn. Þessi afgreiðsla var forsmekkurinn af því sem á eftir hefur komið.

Hvaða áhersla hefur svo sem verið lögð á velferð almennings, jafnræði og öryggi? sú áhersla felst í minnkandi kaupmætti, auknu bili milli fátækra og velmegandi og vaxandi atvinnuleysi. Áherslan á félagslegar umbætur felst t. d. í því að skera stórlega niður framlög til byggingar dagvistarheimila og skóla, minnka lögboðin framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra um nærri helming og leggja síauknar byrðar á þá sem þurfa á læknisþjónustu að halda. Áherslan á góða heitbrigðisþjónustu birtist í því að þjarma svo að heilbrigðiskerfinu að loka verður fjölda sjúkradeilda til að spara í launum starfsfólks og daglegum rekstri.

Og hvar er áhersla núverandi ríkisstj. á menntun í þessu landi. Hún felst í aðför að Lánasjóði ísl. námsmanna og óbærilegu fjársvelti allra menntastofnana í landinu. Líklega er þessi staðreynd atvarlegust og hryggilegust allra í stefnu núverandi ríkisstj. því hún varðar framar öllu framtíð þessarar þjóðar. Kjör íslenskra námsmanna hafa farið batnandi hin síðustu ár. Lögum samkvæmt — ég endurtek: lögum samkvæmt eiga þeir nú kost á lánum sem eiga að fullnægja til framfærslu og námskostnaðar að uppfylltum skilyrðum um ástundun og aðstæður allar. Nú er höggvið að þessu lánakerfi sem byggt hefur verið upp af framsýni og stórhug. Tónninn var gefinn strax við valdatöku núverandi ríkisstjórnar.

Ég hef ekki lengur tölu á því hve oft ég er búin að jagast hér í vetur út af bersýnilegri fjárvöntun Lánasjóðs ísl. námsmanna. Staða hans hefur raunar sífellt farið versnandi undanfarin ár. Framlög ríkissjóðs hafa verið of lítil. sjóðurinn hefur orðið að taka lán til fjármögnunar útlána og fjármagnskostnaður farið sífellt vaxandi. Þannig hefur verið dregið úr möguleikum sjóðsins til að standa undir sér sjálfur. Strax við afgreiðslu fjárlaga þessa árs var augljóst að lánasjóðnum var ætlað of lítið fé til ráðstöfunar samkvæmt vel grunduðum áætlunum. Við kvennalistakonur reyndum ítrekað að fá því breytt og fluttum tvær tillögur um aukin framlög til sjóðsins sem stjórnarsinnar felldu jafnharðan.

Þegar hæstv. fjmrh. viðurkenndi gatið margumrædda í ríkissjóði tveimur mánuðum eftir að fjárlög voru samþykkt var 100 millj. kr. vöntun í Lánasjóð íslenskra námsmanna einn liðurinn í þeim mikla halla, nákvæmlega sama upphæð og við lögðum til sem aukið framlag ríkissjóðs til lánasjóðsins við afgreiðslu fjárlaga í des. Vandinn hefur nú verið viðurkenndur, en lausnin er því miður engin. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir um það hvernig mæta eigi fyrirsjáanlegum erfiðleikum sjóðsins á haustmisseri hafa engin úrræði fengist upp. Hæstv. menntmrh. þrástagast á því að ekkert sé vitað um fjölda umsækjenda og virðist helst vonast til þess að svo margir láti hræða sig frá því að hefja nám að fjármagn sjóðsins nægi handa þeim sem þrjóskast við. Kannske verður líka sú raunin. En þá er um leið búinn til nýr vandi sýnu verri. Þeir sem þannig hrökklast frá námi hverfa nefnilega ekki af yfirborði jarðar, þeir þurfa atvinnu eða a. m. k. framfærslueyri. Vandinn kann því að flytjast af fullum þunga yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð sem stendur illa um þessar mundir.

Þannig er allt á sömu bókina lært. Þannig er í framkvæmd sú áhersla sem stjórnarflokkarnir hétu að leggja á velferð, öryggi, menntun og félagslegar umbætur og góða heilbrigðisþjónustu. Það heit hefur augljóslega komist inn í sáttmálann í óþökk margra.

Og litla músin í niðurlagi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar þurfti ekki að verða einmana. Hún hefur eignast systur margar á þessu tæpa ári, nú síðast í frv. því sem stjórnarflokkarnir gátu loks komið sér saman um sem ráðstafanir til uppfyllingar í gatið á ríkissjóði. Í umr. um þetta ljóta gat hér á Alþingi 8. mars s. l. talaði hæstv. fjmrh. um nauðsyn þess að þingmenn og þjóðin öll gerðu sér grein fyrir þeim mikla vanda sem við blasti, sá vandi yrði ekki leystur nema með samstilltu átaki þm. og þjóðarinnar allrar. Af þeim tillögum að dæma sem nú hafa loksins séð dagsins ljós hefur ákall hæstv. fjmrh. hins vegar ekki fengið hljómgrunn meðal þm. stjórnarflokkanna. Eftir allan þennan tíma, eftir alla þessa leit að fyllingu í gatið eru helstu niðurskurðartillögurnar í skötulíki. Með öðrum tillögum er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og síðan er meginhluti vandans leystur með því að búa til nýjan vanda, erlendar skuldir sem nema rúmum 2 milljöðrum kr. Þessi niðurstaða er ávísun á verðbólguaukningu og hrein svik við almenning, sem hefur lagt á sig miklar þrengingar til að ná niður verðbólgunni.

Hæstv. fjmrh. hefur marglýst því yfir að ekki komi til greina að leggja á nýja skatta. Hann mátti ekki einu sinni heyra minnst á skyldusparnað hálaunamanna sem hefði þó getað gefið a. m. k. 200 millj. kr. í soltinn ríkissjóð. Þegar þeirri hugmynd var hreyft sagði hann varhugavert að ráðast með þeim hætti að kjörum hálaunamanna. Honum og öðrum stjórnarsinnum þykir þó sanngjarnt að skera niður námslán, draga úr kostnaðarþátttöku ríkissjóðs vegna tannlækninga og almennrar læknisþjónustu, skera niður sjúkradagpeninga og draga úr kennslumagni í skólum landsins. Allt eru þetta þó aðeins dulbúnir skattar, sem lenda þyngst á þeim sem síst skyldi, námsmönnum, sjúku fólki og barnmörgum fjölskyldum. Þetta eru ráðin sem vinir litla mannsins gátu sameinast um eftir tveggja mánaða leit. Jafnframt og samtímis finnst stjórnarflokkunum við hæfi að keyra gegnum þingið frumvörp um lækkaðar skattgreiðslur banka og annarra lánastofnana.

Auk skyldusparnaðar hálaunamanna var Kvennalistinn með tillögur um að skera niður ferða- og risnukostnað hins opinbera, bíða með flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, minnka niðurgreiðslur, draga saman í vegamálum og orkumálum, fella niður greiðslur til Flugleiða, sem eru fullfærar um að standa á eigin fótum, auk þess sem sjálfsagt er að semja við seðlabanka um eftirgjöf vaxtagreiðslna. Hugmyndir Kvennalistans voru vel framkvæmanlegar, einkum ef strax hefði verið brugðið við, og hefðu komið miklu minna við almenning en afkvæmið sem fæddist eftir tveggja mánaða umfjöllun stjórnarflokkanna og varaformaður Sjálfstfl. hefur kallað „litla mús“.

Þessa dagana standa prófin sem hæst í skólum landsins. Sumum gengur vel, öðrum illa, allt eftir hæfileikum og ástundun. Sumir falla og eiga sér jafnvel ekki viðreisnar von. Núv. ríkisstj. hefur nú setið í tæpt ár. Hún setti sér markmið í upphafi og það helst að ná niður verðbólgunni. Hún náði verðbólgunni niður á skikkanlegt stig á undraskömmum tíma, en það gerði hún með því að rýra stórlega kjör hins almenna launafólks og það gerði hún með sparnaði á alröngum stöðum. Hún hefur gert landið að láglaunasvæði og hún hefur þrengt að félagslegum réttindum. Þess vegna er almenningur verr settur en nauðsyn bar til og nú er þolinmæðin á þrotum. Ríkisstj. virðist skorta úrræði og samstöðu til að verja þann árangur sem náðst hefur og nýta hann til aukinnar hagsældar. Efling atvinnulífsins hefur orðið út undan um leið og tekin er upp sú nýbreytni að fjármagna daglegan rekstur ríkissjóðs með erlendu lánsfé.

Núv. ríkisstj. fær ekki háar einkunnir fyrir frammistöðu s. l. árs. Spurningin er hvort hún á það skilið að fá grænt ljós til áframhaldandi verka. Því svarar hver fyrir sig. En kvennalistakona er ekki í vafa. — Ég þakka þeim sem hlýddu.