15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5908 í B-deild Alþingistíðinda. (5258)

Almennar stjórnmálaumræður

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Hvers konar lífi viljum við lifa í þessu landi? Viljum við stuðla að samkennd og samvinnu eða viljum við ýta undir sérgæsku og gróðasókn einstakra manna og fyrirtækja? Viljum við leggja rækt við manninn og manngildi og víkja forsendum kaldrar peningahyggju, auðgildinu, til hliðar? Viljum við varðveita sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, tungu hennar og menningu eða látum við okkur það í léttu rúmi liggja þegar Ísland verður leiksoppur í kjarnorkuæði stórveldanna allt í kringum okkur, þegar bandaríska herstöðin færir út kvíarnar sem aldrei fyrr og umsvif Bandaríkjamanna hér á landi margfaldast? Viljum við jafna kjörin í landinu eða viljum við auka á launamismun þannig að Ísland verði Singapore norðursins, eins og Sverrir Hermannsson boðar? Viljum við stuðla að framþróun þess þjóðfélags sem sinnir barninu, sjúklingnum, öldruðum manni eða fötluðum eða drögum við úr samneyslunni með því að lækka skatta fyrirtækjanna, þ. á m. bankanna? Hvers konar Ísland viljum við?

Spurt er að gefnu tilefni. Fyrir nokkrum dögum var greint frá því að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna styddi einkarekstur fremur en félagslegan rekstur. Þessi niðurstaða er athyglisverð. Hún þarf ekki að gefa nákvæma mynd af vilja og skoðun fólks, en hún er til marks um það, því miður, að tekist hafi á síðustu tveimur misserum að brjóta niður að nokkru leyti þá samkennd sem þarf að einkenna íslenska þjóðfélagið — samkennd sem byggir á jafnrétti og lýðræði. Einungis með samneyslu og félaglegri þjónustu getum við veitt þeim stuðning sem þurfa á stuðningi að halda. Það getur hvenær sem er komið að mér eða þér, að við þurfum á þessari aðstoð að halda. Þegar við hugleiðum þá staðreynd sjáum við hversu brýnt er að leggja rækt við félagshyggju í þessu fámenna þjóðfélagi. Íslendingar hafa áður glatað sjálfstæði sínu á altari sundrungarinnar. Margt bendir til þess að núv. ríkisstj. ali vísvitandi á sundrung í íslenska þjóðfélaginu. Glöggur maður hefur í mín eyru kallað þessa ríkisstj. argvítugustu sundrungarstjórn sem setið hefur á Íslandi. Það hygg ég að sé því miður rétt.

Hvers konar þjóðfélag er stjórnarstefnan að skapa? Fyrir einu ári var bannað að gera kjarasamninga. Þannig var vegið að lýðræðinu. Fyrir einu ári voru verðbætur á laun bannaðar, en verðlag gefið frjálst. Frá því í maí í fyrra hefur matarreikningur vísitölufjölskyldunnar hækkað um 40 000 kr. á ári. Launamaður með 15 000 á mánuði er nærri þremur mánuðum lengur að vinna fyrir matarreikningnum nú en í fyrra. Launafólk hefur borgað niður verðbólguna með geysilegum fórnum í almennum lífskjörum. Nú kostar 50 000 kr. á mánuði að framfleyta vísitölufjölskyldunni. Menn beri það saman við það fé sem þeir telja upp úr launaumslögum sínum í dag. En þrátt fyrir fórnfýsi launafólks er nú margt sem bendir til þess að verðbólgan muni vaxa á ný. Ástæðan er halli á ríkissjóði og stórfelldar erlendar lántökur. Ríkissjóður er nú rekinn með erlendum lánum. Rekstrarreikningar opinberra stofnana, frímerki, sími og laun, þetta er greitt með erlendum lánum. Meðlagsskuldir eru gerðar upp með erlendum lántökum. Byggingarsjóður ríkisins verður að taka erlend lán í fyrsta sinn í sögunni. Þannig er veruleg hætta á því að fórnir launamanna í baráttunni gegn verðbólgu verði unnar fyrir gíg.

Ríkissjóður er rekinn með halla vegna þess að fjmrh. er daglangt og náttlangt að bora göt á ríkissjóð. Það vantar hundruð milljóna króna, en samt er hann nú að knýja fram á Alþingi frv. um að lækka skatta á bönkum og öðrum innlánsstofnunum. Þannig er fjmrh. í raun að láta taka erlend lán til þess að borga niður skattana fyrir fyrirtækin. Á sama tíma knýr ríkisstj. fram niðurskurð á félagslegri þjónustu. Ríkisstj. leggur fjötra á lýðræðið. Hún skerðir kaupið margfalt á við þjóðartekjur. Ríkisstj. hefur ákveðið að skerða sjúkradagpeninga handa húsmæðrum, námsmönnum og ungu verkafólki. Þar eru vinir litla mannsins að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur eða hitt þó heldur.

Ríkisstj. lækkar framlög til tannlæknakostnaðar. Þar er ráðist að þeim sem síst skyldi, einkum barnmörgum fjölskyldum.

Ríkisstj. hækkar verð á landbúnaðarafurðum. Þar er ráðist að stærri fjölskyldum og fólki sem hefur lægstu tekjur því það notar stærstan hluta tekna sinna til að kaupa mat. Sérstaklega kemur þessi árás hart niður á einstæðum foreldrum.

Ríkisstj. er að þrefalda verð á læknishjálp og hún sigar verðlaginu lausu á fólk þannig að álagning hefur mælst upp í 1100%. Þetta er ekki það þjóðfélag sem við viljum. Yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna er á móti þessu þjóðfélagi fyrirtækjanna og fjármagnsins. En hvernig má vera að slíkt gerist? Hvernig má það gerast að sterk almannasamtök verði að þola slíkar árásir í heilt ár? Vafalaust er ástæðan að nokkru leyti sú, að fólkið vildi mikið á sig leggja til að keyra verðbólguna niður. En í stefnu ríkisstj. felst engin lækning á verðbólguvandanum nema launafólk sætti sig við áframhaldandi kaupskerðingu og að Ísland verði láglaunasvæði til frambúðar. En það má aldrei gerast. Ísland má ekki verða Singapore norðursins.

Núverandi ríkisstj. hefur í raun aðeins náð saman um tvennt: að lækka kaupið og að hygla fyrirtækjunum.

Innan hennar er engin samstaða um að skera niður níðþunga yfirbygginguna þó því væri lofað þegar ríkisstj. var mynduð. Innan hennar er engin samstaða um sameiningu bankanna, um sameiningu sjóðakerfisins né um það að leggja Framkvæmdastofnunina niður. Innan hennar er engin samstaða um neitt annað en kauplækkun og að velta vandanum yfir á næstu ríkisstjórn og á komandi kynslóðir í landinu með erlendum lántökum.

Athyglisvert var hvernig ríkisstj. afgreiddi húsnæðismálin í gærkveldi. Formaður Sjálfstfl. flutti tillögu um að henda húsnæðissamvinnufélögunum út úr húsnæðisfrumvarpi ríkisstj. sjálfrar. Félmrh. var beygður í duftið og greiddi sjálfur atkvæði með eigin aftöku á Alþingi. Þannig er komið aftan að þeim hundruðum einstaklinga sem bundu vonir við húsnæðissamvinnufélögin og hafa fylkt liði inn í þau á liðnum mánuðum í trausti þess að félmrh. og ríkisstj. stæðu við gefin fyrirheit. Þau fyrirheit hafa nú verið svikin og húsnæðismálin sett í nefnd um leið og afgreitt er frv. sem gerir ráð fyrir að eyðileggja verkamannabústaðakerfið. Kunnugir segja að félmrh. hafi fórnað húsbyggjendum fyrir hagsmuni Framsfl. í mangómálinu svonefnda. Þar var komið við kvikuna í framsókn og hagsmunir húsbyggjenda því seldir fyrir hagsmuni milliliðanna í landbúnaðinum, sem bera m. a. ábyrgð á kartöfluinnflutningi síðustu mánaða þar sem Sambandið hirðir umboðslaun af rusli sem er ónothæft nema til þess að grafa það í jörð.

Í staðinn fyrir mangónefndina, en í henni voru fjmrh., forsrh., viðskrh. og landbrh. og fjórir aðstoðarmenn, tekur nú við ný sáttanefnd innan ríkisstj. og fjallar um ágreining stjórnarflokkanna í húsnæðismálum. Það verður eins konar milliþinganefnd. Ríkisstj. nær ekki saman.

Eftir að ríkisstj. hefur lækkað kaupið, eftir að hún hefur gert ráðstafanir til að bæta stöðu fyrirtækjanna, eftir að ríkisstj. hefur náð saman um að margfalda sjúklingagjöld, eftir að ríkisstj. hefur náð saman um að skera niður félagslega þjónustu og siga verðlagningu lausri á landslýðinn, þá er örendi hennar þrotið. Ríkisstj. leysir engin vandamál. Hún frestar öllum vanda. Formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur lagt til að þinginu verði frestað um nokkrar vikur til þess að stjórnarliðið geti náð saman um ótal ágreiningsmál sem liggja fyrir þinginu. Aldrei fyrr hefur ríkisstj. opinberað ágreining sinn jafn berlega og kemur fram í þessari tillögu Ólafs G. Einarssonar.

Enginn hefur þó lýst þessu ástandi betur en varaformaður Sjálfstfl., sem fékk allra náðarsamlegast að halda ræðu á Seltjarnarnesi nýlega. Hann benti á að nú, þegar áður en eitt ár er liðið, verði að endurskoða málefnasamning ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Þannig er ljóst að stjórnarliðið er að gefast upp. Ráðherrarnir stritast við að sitja og formaður Sjálfstfl. boðar nýja stjórnarstefnu í eldhúsdagsumræðum hér í kvöld.

En afleiðingin af því sem ríkisstj. hefur gert birtist hvarvetna í þjóðfélaginu. Fátæktin hefur í fyrsta sinn í þrjá áratugi skipað sér á innsta bekk þúsunda íslenskra heimila. Þessa dagana birtast fréttir um óhugnanleg afbrot þar sem ráðist er á varnarlausa einstaklinga með svívirðilegum hætti og afbrot færast í vöxt. Þessi breyting á samfélaginu á rætur að rekja til þeirrar örvæntingar og fátæktar sem fólk berst við árangurslausri baráttu um þessar mundir. Stefna ríkisstj. hefur beygt þúsundir manna. En þessa stefnu, sem þannig leikur hinn almenna mann, þarf ekki að líða stundinni lengur. Og nú bendir margt til þess að senn rofi til.

1. maí s. l. var til marks um vaxandi hreyfingu meðal íslenskra launamanna. Æ fleiri eru að átta sig á því reginafli sem verkalýðssamtökin eru sameinuð. Íhaldsöflin hafa verið að gera sér vonir um ágreining innan verkalýðssamtakanna og að flokkur launafólks yrði viðskila við hreyfinguna. Það er misskilningur og íhaldið á eftir að verða fyrir vonbrigðum. Tengslin hafa aldrei verið betri en einmitt nú. Rödd Alþb. á styrkan hljómgrunn meðal launafólks hvarvetna um þessar mundir.

Launamenn eru að átta sig betur á því að þeir þurfa ekki að una þeim smánarkjörum sem ríkisstj. hefur skammtað með stefnu sinni í bandalagi við harðdrægustu peningaöflin í verslunarráðinu og forstjóraveldið í SÍS. Verkalýðshreyfingin fjallar nú um baráttustöðu sína með tilliti til 1. september. Það er greinilegt að þar er leitað eftir samstöðu um baráttu gegn þessari ríkisstj. og atvinnurekendavaldinu í landinu. Þar fara hagsmunir vinnandi alþýðu til sjávar og sveita saman þótt oft sé reynt, einkum af Framsfl., að reka þar fleyg á milli.

Ágæti hlustandi. Þú veist að það er óþarfi að þola kjaraskerðinguna stundinni lengur og þá niðurlægingu og örvæntingu sem stjórnarstefnan hefur leitt yfir mörg alþýðuheimili á Íslandi. Þú veist að það er ranglátt að leggja byrðar þessa dags með sligandi þunga á framtíðina, börn okkar og barnabörn. Þess vegna er stefna ríkisstj., með stórauknum erlendum lántökum, í raun hættuleg fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þú veist að það er óþarfi að líða lækkun á sjúkradagpeningum húsmæðra, námsmanna og ungra verkamanna. Þú veist að það er ranglátt að leggja á sífellda sjúklingaskatta, en lækka á sama tíma skatta á bönkum og innlánsstofnunum. Þú veist að stjórnarstefnan er stefna sundrungar þegar þjóðinni er sameining og samstaða lífsnauðsyn. Þú þarft að gera þér ljóst að þú átt möguleika á að verja þig. Þú þarft ekki að þola niðurlæginguna stundinni lengur. Þú þarft ekki stundinni lengur að líða þá storkun sem felst í yfirlýsingunum um Singapore norðursins, þar sem þú ert settur á uppboð á alþjóðlegum markaði stórfyrirtækjanna. Þú þarft að gera þér ljóst að svipuhöggin sem ríkisstj. hefur látið dynja á baki verkalýðshreyfingarinnar eru þegar orðin nógu mörg hvort sem þau hafa birst í banni við kjarasamningum eða beinni kjaraskerðingu. Þú þarft að gera þér ljóst að í verkalýðssamtökunum er fólgið afl sem getur unnið sigra. Þú þarft þess vegna að beita þér af alefli í þínu verkalýðsfélagi á næstu mánuðum því starfið þar getur ráðið úrslitum. Verkalýðshreyfingin getur ekki haft meira afl en nemur áhuga og fórnfýsi liðsmannanna. Þess vegna er lífsnauðsyn að starfa og starfa enn í hverju einasta verkalýðsfélagi. Í þessum efnum dugir ekki að treysta á einstaka foringja. Hver einasti einstaklingur hefur rétt og heimild en líka skyldu til þess að taka afstöðu til mála og meta þróunina út frá eigin hagsmunum og hagsmunum heildarinnar í senn. Hagsmunir allra vinnandi manna fara saman í þeirri baráttu sem fram undan er. Þar má enginn skerast úr leik, ekkert byggðarlag, ekkert verkalýðsfélag, enginn einstaklingur.

Við skulum hafa það hugfast að þeir sem lifa á því að selja vinnuafl sitt, launamenn, eru yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar. Það mun margt undan láta í herbúðum fjármagnsaflanna þegar sá meiri hluti birtist.

Verkalýðsbaráttan verður hins vegar aldrei til lykta leidd nema sjónarmið samhjálpar og samvinnu eignist enn sterkara stjórnmálaafl sem hefur í fullu tré við afturhaldið í landinu. Við verðum að viðurkenna, þó margt hafi gengið vel á Alþingi í vetur, að stjórnarandstaðan hefur verið veikari en skyldi vegna þess að hún er í fjórum flokkum. Kjaraskerðingin er að sumu leyti refsing fyrir sundrung vinstri manna og verkalýðssinna. Eitt brýnasta verkefnið á næstunni er því að skapa sterka samstöðu pólitískrar og faglegrar baráttu gegn ríkisstj. fyrir þjóðfélagi jafnréttis og lýðræðis.

Hvers konar lífi viljum við lifa? var spurt. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar vill stefnu friðar, en hafnar stríðsstefnu. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar er andvígur því dekri við fjármagnið sem núverandi ríkisstj. iðkar. Ég er sannfærður um að meiri hluti þjóðarinnar áttar sig á því að stjórnarstefnan er hættuleg þjóðfélagi velferðar, samhjálpar og samvinnu. Við viljum þjóðfélag jafnréttis og lýðræðis. Við viljum að hver einstaklingur hafi sterk áhrif á umhverfi sitt nær og fjær. Og við viljum skapa forsendur til þess að allir geti tekið sem beinastan þátt í stjórn þjóðfélagsins. Við höfnum hvers konar hömlum á lýðræði og lýðréttindi. Við leggjum áherslu á að allir fái ávinning tækniframfara, en ekki aðeins þröngir forréttindahópar. Við leggjum áherslu á það þjóðfélag sem sinnir barninu á þroskaskeiði þess, veitir sjúklingi nauðsynlega umönnun, sem styður aldraða og eflir þjónustu við fatlaða. Við viljum þjóðfélag jafnréttis karla og kvenna þar sem sérstaða og samvinna kynjanna er viðurkennd. Við viljum þjóðfélag sem opnar fyrir sköpunargleði hvers einstaklings, menningarlega viðleitni hans, og við leggjum áherslu á innihaldsríkari tómstundir en ungu fólki er gefinn kostur á í dag. Við viljum frjálst og fullvalda íslenskt þjóðfélag, herlaust og utan hernaðarátaka stórveldanna. Við viljum Ísland jafnréttis og samvinnu, en höfnum því þjóðfélagi sundrungar, erlendra skulda, gróða og sérgæsku sem núverandi ríkisstj. beitir sér fyrir. En við gerum okkur jafnframt ljóst að þessu þjóðfélagi verður aldrei náð nema með starfi og aftur starfi og baráttu. Það getur aldrei orðið friður um ranglætið og vaxandi tekjumismun þar sem forstjórarnir hirða verkamannalaun í kauphækkun meðan láglaunafólki er haldið niðri. Við bendum á að einungis með jafnri skiptingu verðmætanna er unnt að styrkja verulega hlut þeirra sem lakari hafa kjörin. Þá geta hinir þurft að gefa nokkuð eftir af sínum hlut og fyrirtækin að skila aftur þeim gjöfum sem núverandi ríkisstj. hefur afhent þeim.

Herra forseti. Það má aldrei aftur gerast að kaupránsöflin nái saman, eins og gerst hefur í núverandi ríkisstj. Það má aldrei gerast framar að verkalýðshreyfingunni verði storkað, eins og gerst hefur í tíð núverandi ríkisstj. Það má aldrei gerast aftur að ráðist sé að innviðum okkar þjóðfélags samkenndar og samvinnu, eins og núverandi ríkisstj. hefur gert. Það má aldrei framar gerast að þjóðin verði að þola annað eins tilræði við sjálfstæði þjóðarinnar og birtist í orkusölustefnu Sverris Hermannssonar og hernámsstefnu Geirs Hallgrímssonar.

Í starfi, baráttu og samheldni felst von okkar. Ég þakka þeim sem hlýddu, lifið heil.