09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

10. mál, verðlagsmál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að vekja alveg sérstaka athygli á þeim ummælum sem hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Reykn., viðhafði hér og beindi einkum og sér í lagi til hæstv. forsrh., sem átti líka sæti í síðustu ríkisstj. Hvernig lýsir hún hæstv. forsrh.? Að hann hafi ekki hreinsað úr hornunum og að hann hafi sópað öllu ruslinu undir teppið! Þetta var sannarlega ófögur lýsing, sem kemur frá samstarfsmanni hæstv. forsrh. og stuðningsmanni þessarar stjórnar.

Raunar var það svo, að flokkur 4. þm. Reykn. var ekki aldeilis ábyrgðarlaus af þessu sópi. Það eru þokkaleg ummæli sem hún velur sínum flokksbræðrum, að þeir hafi sópað öllu ruslinu undir teppið, ekkert gert og verið sem sagt hinir örgustu sóðar í landsstjórninni. Ég held að það sé sérstök ástæða til að vekja athygli á þessum ummælum. Mér þykir þetta nokkru varða. Þegar einn af stuðningsmönnum núv. ríkisstj. fer þessum orðum um hæstv. forsrh. og sína flokksbræður, sem studdu þá ríkisstj. og störfuðu í þeirri ríkisstj., held ég að vert sé að menn hugleiði það og taki eftir því.

Ég hef að vísu aldrei tekið svona sterkt til orða, held ég, um fyrrv. ríkisstj. Það mátti auðvitað margt misjafnt um hana segja og var gert, en hún var engan veginn alvond og ég held að þetta sé mjög ósanngjörn lýsing út af fyrir sig á því sem sú ríkisstj. gerði. Hún gerði ýmislegt fleira. En henni tókst líka ákaflega margt illa. Henni tókst margt miður. — En ég vildi vekja sérstaklega athygli á þessum einstöku ummælum, sem hér voru viðhöfð.