15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5926 í B-deild Alþingistíðinda. (5264)

Almennar stjórnmálaumræður

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ágætir Íslendingar. Það er athyglisvert að hlusta hér á fulltrúa ríkisstj. tala um ábyrgð og ábyrgðarleysi. Þetta ábyrgðartal hefur lengi verið sérstakt einkenni á áróðursræðum sjálfstæðismanna. Þeir láta alltaf eins og allir aðrir standi fyrir upplausn en sjálfir séu þeir hreinlega að springa úr ábyrgð. En sannleikurinn er sá að þrátt fyrir orðagjálfur um stórhuga stefnu, ábyrgð og festu, einurð og dug sitja þeir nú hríðskjálfandi í ríkisstj. og þora ekki að taka á einu eða neinu. Það dugar skammt að vera með mannalæti í fjölmiðlum ef menn renna alltaf á rassinn þegar á hólminn er komið.

Nú vilja þeir að fólk haldi að það sé Framsfl. sem standi gegn heilbrigðri landbúnaðarstefnu og þess vegna sé ekki hægt að breyta neinu þar um. Kjarni málsins er hins vegar sá að annar hver þm. Sjálfstfl. stendur vörð um þetta óbreytta ástand, þetta handónýta hagstjórnarkerfi. Þetta er vandamálið í hnotskurn. Framsóknarflokkarnir eru því miður fleiri en einn hér á Alþingi. Þessir Framsóknarflokkar eru of hræddir til að berjast en of feitir til að flýja. Það eina sem afturhaldsflokkarnir hafa áhuga á að skera niður eru skólar og sjúkrahús, undirstaða nútímasiðmenningar. Þeir þora ekki að leggja til atlögu við hið rándýra landbúnaðarkerfi. Þeir þora ekki að loka Framkvæmdastofnun, þessari spilltu góðgerðarstofnun, sem rekin er af stjórnmálamönnum. Þeir þora ekki til atlögu við sjóðakerfið og hina arðlausu fjárfestingu. Í stað þess reyna þeir að stjórna landinu og leita á náðir erlendra lánastofnana. Með þessu háttalagi eru þeir að veðsetja framtíð barna okkar á nauðungaruppboð erlendra lánastofnana. Þetta er skelfilegur vitnisburður um þá kynslóð stjórnmálamanna sem nú situr að völdum.

Við að hlusta á deilur þm. hér í kvöld mætti ætla að einhver grundvallarmunur væri á afstöðu flokkanna til flestra mála. Þessu fer þó víðs fjarri. Sannleikurinn er sá að þegar utanríkismálum sleppir er sáralítill munur á svokölluðum hægri og vinstri mönnum hér á þinginu. Þrátt fyrir hátíðleg slagorð er nánast enginn munur á afstöðu þeirra til ýmissa mála sem varða rétt fólks til að velja og hafna, réttinn til að taka ákvarðanir um þau atriði sem varða fyrst og fremst líf þess sjálfs. Hver er t. d. munurinn á afstöðu Sjálfstfl. og Alþb. til samningsréttar, valddreifingar, jöfnunar atkvæðisréttar. Ekki hefur sú sem hér talar orðið vör við þennan mun. Kjarni málsins er sá að frjálslyndir stjórnmálamenn eru aðeins örfáir hér á Alþingi. Meiri hl. Alþingis virðist telja að það sé pólitísk snilld fólgin í því að snúa á fólk í landinu, eða eins og einn þm. Alþfl. orðaði það, að hafa burði til að stýra á móti straumnum.

Við í Bandalagi jafnaðarmanna erum ekki þeirrar skoðunar að hlutverk alþm. sé að stýra á móti straumnum og hafa vit fyrir fólkinu í öllum málum. Okkur finnst almenningsálitið upplýst og jákvætt. Við lítum fremur á okkur sem þjóna fólksins en yfirboðara. Við höfum þess vegna meiri ánægju af því að stýra með straumnum en á móti honum. Það er nefnilega einu sinni svo að þm. eru fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir þm. Þetta ættu menn að athuga, ekki síst þeir þm. sem vilja alltaf láta fólk halda að þeir séu að berjast fyrir frelsi einstaklingsins.

Hér á Alþingi hefur í vetur verið deilt um ýmis grundvallaratriði, svo sem frjálsan samningsrétt, bjór, jafnan atkvæðisrétt og frjálst útvarp. Í öllum þessum málum hefur afstaða Bandalags jafnaðarmanna verið skýr og afdráttarlaus. Bandalagið hefur verið eina stjórnmálaaflið sem haft hefur frjálslynda stefnu í þessum málum og tekið afstöðu skv. því. Svo undarlegt sem það kann að virðast, þá hefur Sjálfstfl., þessi útvörður frelsis og mannréttinda, ekki haft burði til að styðja þessa frjálslyndu stefnu. Þeir treysta fólki ekki til að semja sjálft um kaup sitt og kjör. Þeir treysta fólki ekki til að ákveða sjálft hvort það drekkur bjór eða ekki, þeir treysta fólki ekki til þess að mynda almenningshlutafélög um rekstur ríkisbankanna. Það eina sem þeir virðast treysta fólki til er að bera kostnaðinn af menntun barna sinna og læknisþjónustu. Það er í þessum efnum sem frjálslyndi Sjálfstfl. nýtur sín. Fólki skal vera frjálst að vera fátækt, sjúkt og menntunarlaust, um önnur mál geta stjórnmálamennirnir tekið ákvarðanir fyrir fólkið með handauppréttingu á Alþingi.

Sú stjórn, sem nú situr, verður að skilja að ungt fólk í dag vill ekki rífa niður það velferðar- og samhjálparkerfi sem foreldrar þess, afar og ömmur hafa eytt áratugum í að byggja upp. Ungt fólk í dag vill ekki leggja fjárhagslegan mælikvarða á rétt barna sinna til menntunar og læknisþjónustu. Menn vilja ekki láta klukkuna ganga aftur á bak til þeirrar eymdar og óöryggis sem áður var hlutskipti þúsunda í þessu landi. Menn vilja láta klukkuna ganga áfram og horfa uppréttir til þeirrar framtíðar sem bíður okkar. Í þessari framtíð þurfum við að standa öflugan vörð um velferðarríkið, en hætta að láta stjórnvöld skipta sér af hinum smærri málum með boðum og bönnum. Fólk á sjálft að velja og hafna um þau mál sem fyrst og fremst snertir líf þess sjálfs og ekki annarra. Á meðan menn ekki brjóta rétt á samborgurum sínum eiga þeir sjálfir að hafa fullt leyfi til að breyta og haga lífsmynstri sínu í samræmi við smekk sinn og lífsskoðun. Þetta er kjarni stefnu Bandalags jafnaðarmanna. Fyrir þessu höfum við barist og fyrir þessu munum við halda áfram að berjast.