15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5932 í B-deild Alþingistíðinda. (5267)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nú líður að þinglokum og nú er ástæða til að staldra við og líta yfir afrakstur þessa þings og fyrsta stjórnarárs núverandi ríkisstj. Það er ástæða til þess að spyrja: Hvernig er nú háttað hag lands og þjóðar? Hvaða drög hafa hér verið lögð að framtíð þessa lands og framtíð barna okkar? Hvaða ranglæti hefur tekist að uppræta, hvaða réttlæti hefur tekist að koma á?

Verðbólgunni hefur nú verið náð niður í lægra prósentustig en þekkst hefur um langa hríð. En hvað hefur það kostað? Það hefur kostað hrapandi kaupmátt launa. Það hefur kostað það að laun hér á landi eru nú hin þriðju lægstu í allri Evrópu. Það hefur kostað gildnandi sjóði einkarekstrar á meðan sameiginlegir sjóðir landsmanna verða sífellt magrari. Það hefur kostað niðurskurð á allri þjónustu við almenning í landinu. Það hefur í stuttu máli kostað það að samfélagið axlar ekki lengur ábyrgð sína gagnvart einstaklingnum.

Eftir eitt ár í starfi skilar ríkisstj. okkur fjárlagagati upp á tvo milljarða kr. og ætlar nú að brúa bilið með stórfelldum erlendum lántökum, lánum sem hún leggur á herðar komandi kynslóðum blygðunarlaust. Og hvaða tillögur hefur ríkisstj. til eflingar íslensku atvinnulífi og bættum þjóðarhag? Það heyrðum við hér áðan. Einu tillögurnar, sem hingað til hafa séð dagsins ljós, eru tillögur um stórfelldar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir. Á þá efnahagsuppbyggingu setur ríkisstj. allt sitt traust þótt vitað sé að stóriðja er gamaldags og úreltur atvinnu- og framleiðslukostnaður og að öll framsæknustu iðnaðarríki heims eru nú í óðaönn að flytja stóriðju sína úr landi til að rýma til fyrir arðbærari og manneskjulegri atvinnugreinum heima fyrir. Þetta gerir ríkisstj. þótt vitað sé að stóriðja hefur aldrei getað keypt raforku hér á landi á svo mikið sem framleiðsluverði og hefur hingað til verið rekin með bókfærðu tapi. Þetta gerir ríkisstj. þótt hún viti að hér er um mengandi og náttúruspillandi iðnað að ræða og að hvert atvinnutækifæri í þungaiðnaði er margfalt dýrara en á öðrum atvinnusviðum.

Ríkisstj. setur allt sitt traust á stóriðju þótt það þýði stórfelldar virkjunarframkvæmdir í náinni framtíð og þótt vitað sé að farið hefur verið of hratt í slíkar framkvæmdir á undanförnum árum eins og erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins sanna. Það er þessi fjárfestingarstefna sem hefur leitt okkur út á þá heljarþröm sem fjárhagur íslenska ríkisins stendur nú á. Þessari fjárfestingarstefnu ætlar ríkisstj. samt að halda ótrauð áfram og upp í götin á að fylla með smámunum á borð við tannlækningar skólabarna. Smámunum, miðað við það fjármagn sem um er að ræða í stóriðju og virkjanamálum.

Efnahagur Íslendinga næstu áratugi mun sannarlega fara eftir því hvað verður gert eða látið ógert á þessum sviðum. Auknar erlendar skuldir og auknar stóriðjuframkvæmdir eru örugg ávísun upp á verðbólgu og rýrnandi lífskjör í framtíðinni. Og ekki er nóg með það að efnahag landsmanna sé stefnt í stórfelldan voða með þessum ráðstöfunum heldur er með þessu verið að vega að sjálfu sjálfstæði þjóðarinnar. Stóriðjuuppbygging hér á landi þýðir í reynd aukin ítök erlendra aðila í íslensku efnahagslífi, aðila sem margir hverjir eru voldugri á alþjóðavettvangi en lítið þjóðríki á borð við Ísland. Af slíku höfum við nú þegar mikla og slæma reynslu þar sem eru samskipti okkar við svissneska auðhringinn Alusuisse vegna álversins í Straumsvík og ætti sú reynsla að vera okkur víti til varnaðar.

Einnig er ljóst að ef við tökum hér við erlendri stóriðju þá mun hún taka til sín stóran hluta af þeirri orku sem framleidd er í landinu. Það þýðir að lítið verður afgangs til að byggja upp íslenska atvinnuvegi sem þá verða látnir sitja á hakanum. Og hvar erum við þá stödd? Ef íslenskir atvinnuvegir fá ekki að þróast sökum orkuskorts, sökum þess að orkan er seld erlendum aðilum til atvinnuuppbyggingar hér á landi þá er hætt við því að allar meiri háttar ákvarðanir í íslensku atvinnu- og efnahagslífi verði teknar af erlendum aðilum úti í heimi. Og hvar er þá komið sjálfstæði lítillar þjóðar út við ystu höf?

Á meðan þessi drög eru lögð að framtíð lands og þjóðar, hvar er þá komið hag fólksins í landinu? Hvar stendur nú hún jafnaldra mín með tvö börn og saumakonulaun eftir þennan vetur? Launin hennar, sá afrakstur sem hún hefur af vinnu sinni, hafa verið skert til mikilla muna á árinu. Hún fær að vísu uppbót, nokkurs konar styrk frá ríkisstj., vegna þess að hún er einstæð. En þar með er hún líka gerð að nokkurs konar þurfalingi sem ekki getur lifað af afrakstri eigin vinnu þótt hún þræli myrkranna á milli. Hún er búin að horfa upp á allan sirkusinn í kringum fjárlagagatið, hefur heyrt stórar tölur nefndar og margar yfirlýsingar, en hún hefur ekki heyrt neinar tillögur sem gætu komið í veg fyrir svona fjárlagagöt í framtíðinni. Hins vegar má hún eiga von á því að börnin hennar fái ekki þær tannlækningar sem þau þurfa. Og ef hún er svo óheppin að búa í fámennu héraði úti á landi þá má hún eiga von á því að börnin hennar fái ekki þá kennslu sem skyldi í grunnskólanum. Ef hún hins vegar á uppkomin börn þá er ekki útlit fyrir að þau geti látið sig dreyma um að mennta sig, þótt þau hafi alla hæfileika til, vegna þess að nú verða námslánin skert og hún hefur ekki efni á að styrkja þau til náms. Börnin hennar mega hins vegar eiga von á því að anda að sér kísilryki í nýrri kísilmálmverksmiðju og láta vinnu sína í té fyrir sultarlaun svo að hægt sé að standa straum af erlendum skuldum landsins.

Þannig býr ríkisstj. að börnum okkar. Þetta eru þau drög sem hún leggur að framtíð þeirra.

En hvað með þessa konu sjálfa, hvernig lítur hennar framtíð út? Í kjölfar fjárlagagatsins má hún eiga von á því að bæta við sig umönnun þeirra venslamanna sinna sem sjúkir eru eða þarfnast umönnunar vegna aldurs eða fötlunar, því nú á að skera niður í heilbrigðisþjónustunni. Og þá eiga margir þeirra sem umönnunar þarfnast ekki í önnur hús að venda en til kvenna eins og hennar sem ævinlega hafa sinnt þeim sem sjúkir eru eða aldraðir. Það eru því enn þá minni líkur á því að hún geti bætt við sig útivinnu til þess að auka tekjur sínar, hvað þá komist á fund til þess að berjast fyrir bættum hag sínum. Brýn hagsmunamál hennar, eins og aukið dagvistarrými og lenging fæðingarorlofs, koma ekki einu sinni til álita sem forgangsmál hjá ríkisstj. Og sú krafa að hún fái mannsæmandi laun fyrir vinnu sína hlýtur einnig dræmar undirtektir þrátt fyrir að ótal kannanir hafi sýnt fram á að hún er beitt launamisrétti.

Nú kynni einhver að halda að hún þyrfti ekki að örvænta um réttlæti í sinn garð því ekki hefur okkur vantað jafnréttisfrumvörpin hér á þessu þingi. En hvað þýða jafnréttislög í reynd þegar svona er búið að konum? Þau þýða því miður minna en ekki neitt. Við það bætist að þegar hér hafa verið gerðar tillögur sem miða að bættum hag kvenna og raunverulegu jafnrétti kynjanna þá eru allar jafnréttishugsjónir ríkisstj. roknar út í veður og vind. Sem dæmi má nefna að ekki hefur enn tekist að fá frv. til l. um fæðingarorlof, frv. sem stuðlar að raunverulega bættum hag kvenna og barna, svo mikið sem afgreitt úr heilbr.- og trn. Ed., þar sem það er búið að liggja síðan 8. febr. s. l., hvað þá heldur að það hafi fengist samþykkt. Í þessum efnum kemur sýndarmennska þeirra sem hér flytja hvert jafnréttisfrv. á fætur öðru glögglega í ljós. Staðreyndin er einfaldlega sú að á þessu þingi hafa réttinda- og hagsmunamál kvenna og barna og annarra þeirra sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi verið gersamlega fyrir borð borin í krafti meiri hluta atkvæða. Hér hafa hin hörðu karlagildi setið við stjórnvölinn. Á þessu þingi hefur ekkert ranglæti verið upprætt.

Herra forseti. Ég vil biðja þá sem orð mín heyra að líta nú í eigin barm og spyrja sjálfa sig að því í hvernig landi þeir vilji búa, að hvernig mannlífi þeir vilja hlúa og hvers virði þeim er reisn og sjálfstæði þessarar þjóðar. Ég vil biðja þá að hlusta vel á sína innri rödd og láta hana síðan hljóma hvarvetna því öðruvísi fáum við aldrei hrundið þeim hörðu viðhorfum sem nú ráða ferðinni í málefnum lands og þjóðar. — Ég þakka þeim sem hlýddu.