15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5939 í B-deild Alþingistíðinda. (5270)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ágætu tilheyrendur. Árið 1983 var atvinnuleysi í nokkrum nágrannalöndum okkar sem hér segir: Í Danmörku rúmlega 10%, í Finnlandi 6%, í Noregi tæplega 4% og á höfuðbólum frjálshyggjunnar, Bretlandi og Bandaríkjunum 11.5% og 9.5%. Á síðasta ári gengu rúmlega 32 millj. manna atvinnulausar í aðildarlöndum OECD eða tæplega 12% af vinnuafli á vinnumarkaði. Á sama tíma var atvinnuleysi á Íslandi að meðaltali 1% og 0.9% í aprílmánuði s. l.Verðbólga í aðildarlöndum OECD var á síðasta ári að meðaltali 5.5%. Á Íslandi náði verðbólgan 130% árshraða á tímabilinu frá febrúar til maí 1983. Árshraði verðbólgunnar er nú, ári síðar, 10%. Þessar tölur tala sínu skýra máli um störf núverandi ríkisstj. Þær eru blákaldar staðreyndir sem ekki er hægt að rangfæra eða snúa út úr. Ríkisstj. hefur tekist að ná þeim markmiðum sem hún setti sér í fyrstu aðgerðum sínum í efnahagsmálum, atvinnuöryggi, hjöðnun verðbólgu, viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd. Hrakspár stjórnarandstöðunnar um að ríkisstj. mundi ekki takast að ná þessum markmiðum og aðgerðirnar mundu leiða til stórfelldrar röskunar á vinnumarkaði, atvinnuleysis, hafa einfaldlega ekki ræst sem betur fer.

Hæstv. forsrh. hefur fyrr í kvöld gert ítarlega rein fyrir stöðu og framtíðarhorfum í efnahagsmálum. ~g tel því ekki ástæðu til að fara nánar út í þá sálma hér, en verja þess í stað þeim stutta tíma, sem ég hef til umráða, til að fjalla um þá málaflokka sem hafa komið til minna kasta sem félmrh. í núverandi ríkisstj.

Einn þeirra málaflokka, sem heyrir undir félmrn., er vinnumiðlunin í landinu. Öllum sem sinna vinnumarkaðsmálum er fyrir löngu orðið ljóst að skipulagi, starfsháttum og aðbúnaði vinnumiðlunarinnar hefur lengi verið ábótavant og þjónustan við atvinnuleitendur og atvinnurekendur alls ekki svarað þeim kröfum sem margbreytilegt tækniþjóðfélag gerir til slíkra stofnana. Menn verða að gera sér grein fyrir þeirri breytingu sem hefur átt sér stað á vinnumarkaðnum. Aukin tæknivæðing kallar á sérhæft starfsfólk, samræming á framboði vinnuafls og eftirspurn atvinnulífsins eftir sérhæfðu starfsfólki verður sífellt brýnni. Þessari samræmingu verður vinnumiðlunin að sinna. Hún verður að láta til sín taka ráðgjöf um starfsval, upplýsingamiðlun um væntanlega þróun á vinnumarkaðnum og um framboð og eftir- og endurmenntun. Yfirstjórn atvinnumála á að hafa forustu um hvers kyns rannsóknir á vinnumarkaðsmálum. Á þessu sviði er óplægður akur. Allir eru sammála um að eitt af því allra mikilvægasta fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði hvers einstaklings sé að hann hafi starf að vinna. Í samstarfssáttmála núverandi ríkisstj. er tekið fram að vinnumálaskrifstofa félmrn. verði efld. Unnið hefur verið að öllum þessum þáttum með einum eða öðrum hætti.

Eitt af því mikilvægasta sem gerst hefur í þessum málaflokki er samning frv. til nýrra laga um vinnumiðlun sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi.

Annað vinnumarkaðsmál, sem veitt hefur verið sérstök athygli í félmrn., eru áhrif þeirrar nýju tækni sem hér ryður sér til rúms á þróun og ástand vinnumarkaðarins. S. l. haust skipaði ég starfshóp til að framkvæma könnun á áhrifum nýrrar tækni á íslenska atvinnuvegi í næstu framtíð. Aðilar vinnumarkaðarins eiga fulltrúa í starfshópnum. Að frumkvæði hópsins hefur verið safnað saman miklu upplýsingaefni um þessi mál og þessa dagana vinnur starfshópurinn að gerð áfangaskýrslu sem væntanlega verður tilbúin innan skamms.

Þótt áfangaskýrslan liggi ekki enn fyrir hefur starf hópsins valdið umtali úti í þjóðfélaginu og vakið menn til umhugsunar um það hvert stefnir í þessum málum. Í því sambandi hef ég hér á Alþingi bent á þá fjölgun sem verður á vinnumarkaði næstu áratugina og hvaða starfsgreinar eru líklegar til að taka á móti þessari fjölgun. Við vitum að nokkrar atvinnugreinar geta það ekki af ýmsum ástæðum. Í öðrum má búast við að ný tækni leiði til fækkunar starfsfólks. Þessar staðreyndir kalla á ný vinnubrögð og endurskipulagningu atvinnuveganna. Við Íslendingar höfum fram til þessa lagt megináherslu á magn í stað gæða. Nú verður að snúa hlutunum við og leggja áherslu á meiri gæði og fullvinnslu hráefnis.

Núverandi sjútvrh. hefur tekið á þessu sviði ákveðna forustu sem nú er farin að bera árangur. Yfirlýsing ráðh. um það að þrátt fyrir minnkandi sjávarafla aukist útflutningstekjur sjávarafurða á þessu ári vegna aukinna gæða bera þessum árangri gleggst vitni

Ef við höldum áfram á þessari braut, ekki aðeins í sjávarútvegi og fiskvinnslu heldur einnig á öðrum sviðum, þurfum við engu að kvíða um lífskjör eða atvinnuástand. Aukin verðmætasköpun bætir lífskjörin. Forsendan fyrir slíkri verðmætasköpun er að ýmiss konar úrvinnsluiðnaður geti komist á legg, en til þess þarf að ríkja stöðugleiki í efnahagsmálum. Núverandi ríkisstj. mun leggja megináherslu á að það jafnvægi sem nú ríkir í efnahagsmálum haldist og þannig skapist tækifæri til að nýta þá ótal möguleika á sviði atvinnumála sem eru fyrir hendi.

Ísland er ríkt af orku. Ýmiss konar hráefni eru til í landinu og vinnuaflið er vel menntað. Við þurfum engu að kvíða ef rétt er haldið á spilum.

Sveitarstjórnarmál er gildur málaflokkur í félmrn. Á því sviði hefur verið stofnað til ýmissa nýmæla á valdatíma núverandi ríkisstj. Þann 20. janúar s. l. var undirritaður samstarfssáttmáli milli ríkis og sveitarfélaga og er nú unnið í samræmi við hann að ýmsum samskiptamálum ríkis og sveitarfélaga. Fyrsti samráðsfundurinn af þessu tagi hefur þegar verið haldinn og leiddi í ljós nauðsyn aukins samstarfs og samræmingar og þörf á gleggri verkaskiptingu á milli þessara aðila. Ég vænti mikils af þessu samstarfi í framtíðinni. Í þessu sambandi má geta þess að nefnd sú, sem unnið hefur að endurskoðun á sveitarstjórnarlögum, mun innan skamms ljúka störfum. Ég geri ráð fyrir að frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga sjái dagsins ljós næsta haust.

Málefni fatlaðra heyra undir félmrn. Á allra síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í málefnum þeirra. Ný lög um málefni fatlaðra tóku gildi um síðustu áramót. Á grundvelli þeirra hafa verið skipaðar átta svæðisstjórnir, sem hafa það hlutverk að gera tillögur um þjónustu við fatlaða og samræma aðgerðir þeirra aðila sem með þessi mál fara á hlutaðeigandi svæði. Á þessu ári verða opnaðar 12 nýjar stofnanir fyrir fatlaða. Sérstaka áherslu ber að leggja á þá stefnu stjórnvalda að þjónusta og stofnanir fyrir fatlaða verði byggðar upp sem næst þeim sem þurfa á þeim að halda. Ég legg þunga áherslu á forgang þessara mála. Á því er mikil nauðsyn.

Sá málaflokkur félagsmála, sem mest hefur verið fjallað um í fjölmiðlum í vetur, eru húsnæðismál. Oft hefur sú umræða verið meira háð af kappi en forsjá. Frá því að núverandi ríkisstj. var mynduð hefur verið lögð áhersla á að finna leiðir til lausnar á vanda húsbyggjenda. Fyrstu aðgerðir voru brbl. um frestun hluta greiðslu lána, afborgana og vaxta, sem þýddi í raun lengingu lána. Rúmlega 3000 aðilar notfærðu sér þessa aðgerð á s. l. ári. Ríkisstj. gerði samkomutag við viðskiptabanka og sparisjóði um sérstök skuldbreytingalán til húsbyggjenda þar sem skammtímalánum var breytt í allt að 8 ára lán. Samkvæmt upplýsingum þessara aðila nam skuldbreyting þessi 150–160 millj. kr. Ríkisstj. ákvað að veita sérstök viðbótarlán til að létta vanda húsbyggjenda og húskaupenda á árunum 1981–1983 með því að hækka afgreidd lán um 50%. 4884 lántakendur hafa fengið útborguð þessi 50% viðbótarlán, sem greidd voru í desember 1983 og janúar s. l., samtals að fjárhæð 303 millj. kr. Allar þessar ráðstafanir þýddu í raun 450–500 millj. viðbótarfjárhæð til húsbyggjenda á s. l. ári. Ríkisstj. ákvað jafnframt að frá og með 1. janúar s. l. skyldu öll lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins hækka um 50%. Jafnframt yrðu nýbyggingarlán til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn greidd í tveimur hlutum, fyrri hluti mánuði eftir fokheldisstig, seinni hluti sex mánuðum frá útborgun fyrri hluta. Til húsnæðismála verður varið á þessu ári 1984 1600–1700 millj. kr. á móti 100 millj. á s. l. ári. Þetta er í raun nægilegt svar við svartnættisrausi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég legg mikla áherslu á að ný viðhorf í húsnæðismálum og ný stefnumörkun í þeim efnum öðlist brautargengi og með því frv., sem nú er til afgreiðslu, er stigið stórt skref í þá átt.

Mikilvægt er að gera áætlun um íbúðaþörf næstu 10–15 ár og einnig þarf að skipuleggja á hvern hátt unnt er að auka þátttöku banka og sparisjóða landsins til lausnar þeim vanda sem lánakerfi húsnæðismála stendur frammi fyrir í samvinnu við Húsnæðisstofnun ríkisins og lífeyrissjóðina í landinu. Það er mér fullkomlega ljóst að meira fjármagn þarf til húsnæðismála, ekki síst til Byggingarsjóðs verkamanna, og um þann vanda mun ríkisstj. að sjálfsögðu fjalla. Verði frv. að lögum opnar það möguleika á nýjum vinnubrögðum í þessum efnum og markar upphaf nýrrar stefnu til framfara. Það ákvæði frv., sem valdið hefur mestri umræðu, er 33. gr. þess, sem fjallar um félagslegar byggingar aðrar en byggingar verkamannabústaða. spurningin stendur um það hvort húsnæðissamvinnufélag, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, falli undir þessa grein frv. Mín túlkun er sú, að samkvæmt þessum lið eigi þeir sem ætta að byggja leiguíbúðir, sem ætlaðar eru til útleigu, fyrir félagsmenn sína, sem ekki hafa aðstöðu til að eignast eigið húsnæði, möguleika til lána úr Byggingarsjóði verkamanna, enda uppfylli aðilar ákvæði Byggingarsjóðs verkamanna um tekju- og eignarmörk samkvæmt 44. gr. frv. Ágreiningur kom upp milli stjórnarflokkanna um þessa túlkun. Sjálfstæðismenn vildu ekki fallast á að fleiri aðilar gætu byggt leiguíbúðir til útleigu, svo sem húsnæðissamvinnufélög eins og Búseti. Þessi ágreiningur stöðvaði afgreiðslu frv. hér á Alþingi. Ég taldi þetta ástand óviðunandi, þar sem í frv. eru ýmis mjög mikilvæg stefnumarkandi atriði til framfara í húsnæðismálum, sem beðið er eftir, bæði hvað varðar fjármögnun, lengingu lánstíma, kauprétt lífeyrisþega, orkusparandi lán og fleira, sem gerir brýnt að frv. verði að lögum á yfirstandandi þingi. Þess vegna lagði ég til við Sjálfstfl. að takmörkuð yrðu í frv. heimild til byggingar leiguíbúða skv. c-lið 33. gr., en eftir stendur: réttur til lána til byggingar leiguíbúða fyrir námsmenn, öryrkja og aldraða, svo sem til Félagsstofnunar stúdenta og leigjendasamtaka, sem geta notað sér þetta ákvæði.

Þessi breyting var samþykkt við 3. umr. frv. á Alþingi í gær og frv. er nú til lokaafgreiðslu í Ed. Jafnframt varð samkomulag um að félmrh. skipar nefnd til að gera tillögur um stefnumörkun um byggingu leiguíbúða, semja frv. til 1. um búsetaréttaríbúðir og kaupleigusamninga. Verður stefnt að því að slíkt frv. verði lagt fram í byrjun næsta þings.

Herra forseti. Við búum í stóru og erfiðu landi á norðurhjara heims þar sem veðurfar leikur okkur oft grátt. En landið okkar, Ísland, er samt fagurt og frítt með fannhvíta jöklanna tinda. Það býr yfir töfrum og kostum sem aðrar þjóðir öfunda okkur af: Hreint og tært loftslag, afl í fossum og vötnum, hiti í jörðu, fiskimiðin, okkar mesta auðlegð, sem í fortíð og nútíð hefur lagt grunninn að velsæld okkar sem þjóðar. Við erum að vísu fámenn þjóð, en stolt okkar og kraftur hefur gert okkur mögulegt að byggja upp á flestum sviðum framfarir sem skapað hafa hér velferðarþjóðfélag að mati annarra þjóða. En staðreyndin er samt sú, að það er í raun ekki mannsaldur síðan þjóðin var fær um að hefja alhliða uppbyggingu, svo sem menntakerfi og heilbrigðisþjónustu, samgöngubætur og hefja sókn í nútímaatvinnuuppbyggingu. Krafan um jafnræði án tillits til búsetu, jafnan rétt til menntunar, heilbrigðisþjónustu og félagslegar umbætur, allt landið í byggð. Allt þetta hefur verið meginviðfangsefni umsvifa og stjórnsýslu síðustu áratugi. Við Íslendingar höfum byggt upp slíkar framfarir í landi okkar á nokkrum áratugum, en það hefur tekið flestar aðrar þjóðir margar aldir. Þessi mikilvæga staðreynd vill oft gleymast. Uppvaxandi kynstóð þarf að taka mið af þessari staðreynd. Nú undirbúum við nýja framfarasókn í nýtingu auðlinda til lands og sjávar. Slík sókn er grundvallarforsenda bættra lífskjara og aukinnar velferðar eftir áföll undanfarinna ára og þess að launþegar endurheimti kaupmátt launa sinna. Í þjóðmálabaráttu sinni á næstu misserum mun Framsfl. leggja höfuðáherslu á að þetta takist. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.