16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5954 í B-deild Alþingistíðinda. (5278)

152. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Menntmn. Ed. kom saman til fundar og fjallaði um þetta mál. Eins og kunnugt er var gerð breyting á þessu frv. til l. um skemmtanaskatt hér í Ed. Sú breyting var á þá lund að við hækkuðum íbúatöluna sem getið er um í frv., þ. e. við lögðum til að í sveitarfélögum með 7500 íbúa eða færri yrði ekki greiddur skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum.

Nú hefur það farið svo, að breyting var gerð í Nd. og frv. fært til upphaflegs horfs. Það er mat okkar í menntmn. að frv. nái ekki fram að ganga hér í þinginu nema því aðeins að það verði í upphaflegri mynd. Við viljum ekki stofna til togstreitu um þetta mál. Við viljum ekki hætta málinu með því að þverskallast við og leggjum blessun okkar yfir að frv. verði fært til upphaflegs horfs. Við teljum þrátt fyrir allt hyggilegt að stíga þetta skamma skref í niðurfellingu skemmtanaskatts.