16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5955 í B-deild Alþingistíðinda. (5279)

152. mál, skemmtanaskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með niðurstöðu Nd., sem hefur breytt samþykkt Ed. um að undanþága frá skemmtanaskatti nái til sveitarfélaga með íbúa allt að 7500. Ég minni á að rekstrarvandi kvikmyndahúsa er ekki bundinn við þessa litlu staði, hvar færri en 2500 manns búa, heldur hina miklu stærri, þannig að öll kvikmyndahús sem rekin eru utan Reykjavíkur eru í mjög harðri samkeppni við videóvæðinguna sem flæðir nú yfir allt og er reyndar að kyrkja rekstur kvikmyndahúsa. Ég tel að það þurfi líka að hafa í huga að rekstur kvikmyndahúsa er skattlagður svo hrikalega að rekstrargrundvöllur fyrir kvikmyndahús, þar sem ekki er mikill fjöldi fólks til að sækja þau líkt og hér á Reykjavíkursvæðinu, verður ómögulegur. Á sama tíma spretta upp videóleigur um allt land sem ég hygg að greiði sáralítinn eða engan skatt af sinni starfsemi. Þá á ég við söluskatt. Tel ég að það ætti að fara fram athugun á því hver skil eru á þeim skatti í ríkissjóð.

Ég ætla ekki að leggjast gegn því að þetta frv. verði samþykkt. Það var hins vegar miklu betra eins og það var samþykkt í Ed. núna fyrir nokkru. Ég tel mjög miður að vandi aðeins örfárra kvikmyndahúsa sé leystur nú, tel að það hefði átt að fara að eins og gert var með samþykki till. Ed. Raunar tel ég að málefni þessa reksturs verði að taka til sérstakrar athugunar með tilliti til þess sem ég sagði áðan varðandi skattlagningu og líka varðandi versnandi samkeppnisaðstöðu við aðila sem ég hef sterklega grunaða um að skila ekki í ríkissjóð þeim sköttum sem ættu þangað að renna.