09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

10. mál, verðlagsmál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í „stóru orðin“ þeirra Austfjarðaþm. Mér heyrðist hv. þm. Helgi Seljan nefna það „stóru orðin“ þegar hann sneri sér að meðþm. sínum. Ég skal skal reyna að svara því nokkru sem hér hefur komið fram.

Í fyrsta lagi hefur verið spurt að því, hvers vegna óskert álagning var leyfð. Það er vissulega atriði sem mjög kom til umr. Nú er það svo, að álagning hefur ýmist verið skert eða ekki skert. Hún var t.d. skert í gengisfellingunni í lok ágúst í fyrra, en ekki skert í gengisfellingunni um áramótin.

Við umr. um þetta kom fram, að skert álagning hefur aldrei verið framkvæmd nema ákveðinn tíma, þannig að hún rennur út að þremur mánuðum liðnum eða svo og þá er álagningin orðin full og segja má að þegar um er að ræða skerta álagningu sé tekið visst tillit til þess í almennri heimild til verðhækkunar. Niðurstaðan varð sú eftir ítarlegar umr. við verðlagsyfirvöld og þá sem með þau mál fara, að miða álagningu við að tækist að halda gengi stöðugu nokkurn tíma og þá yrði hvort eð er orðin full álagning innan þriggja mánaða eða svo. Var lagt eindregið til af embættismönnum á þessu sviði að skert álagning yrði ekki tekin upp í þetta skipti, en heldur fylgt þeim anda laganna, sem ég leyfi mér að fullyrða að hafi verið gert, að heimila eingöngu óhjákvæmilegar hækkanir.

Ég viðurkenni fúslega að um þetta má deila. Það er alveg rétt að það voru ýmsir þeirrar skoðunar í báðum stjórnarflokkum að álagninguna ætti að skerða. En þessi varð niðurstaðan.

Einnig hefur verið fullyrt að gengissig hafi verið áfram áætlað við verðlagningu. Gengisfelling varð veruleg í lok maí eða 14.6% og gengissig hafði orðið mjög mikið áður. Ég ræddi enn einu sinni við verðlagsstjóra um þetta atriði. Einnig ræddi ég við formann verðlagsráðs. Báðir fullvissa þeir mig um að í upphafi hafi fyrst og fremst verið tekið tillit til þess fjárhagstjóns sem innflytjendur hefðu orðið fyrir vegna miklu meira gengissigs og miklu meiri gengisbreytingar á vikunum áður en verðlagt var en áætlað hafði verið fyrir og þess vegna gert ráð fyrir að það jafnaðist á næstu tveimur mánuðum.

Hins vegar segir verðlagsstjóri mér, að þessi regla hafi algjörlega horfið úr verðlagningunni eftir júní-ágúst og eftir það hafi verið talið að óhætt væri að gera ráð fyrir að menn sem hefðu stofnað til erlendra lána vegna innflutnings bæru ekki lengur skarðan hlut frá borði í fjármagnskostnaði vegna meira gengissigs, enda gengið verið stöðugt og ekki gengissigs að vænta fram undan.

Ég vil einnig taka fram að um þessa framkvæmd var nokkuð deilt og umdeilt á hve löngum tíma ætti að bæta það gengissig sem menn hefðu orðið fyrir á mánuðunum á undan, en bæði formaður verðlagsráðs og framkvæmdastjóri fullvissa mig enn um að þetta hafi að fullu runnið út í júní- og júlímánuði.

Að sjálfsögðu má lengi um það deila hvort þetta orðalag óhjákvæmileg hækkun. er nógu ákveðið eða ákveðið ekki. Hvað er óhjákvæmileg hækkun, eins og ýmsir hv. þm. hafa komið inn á. 11. þm. Reykv. og 8. þm. Reykv. töldu að eingöngu hefði átt að leyfa ákveðinn hundraðshluta til hækkunar. Ég held að við getum verið nokkuð sammála um að breyting á hráefnisverði, hvort sem þar er um að ræða breytingu á innfluttu efni eða innfluttri vöru eða hráefni til framleiddrar vöru innanlands, hlýtur að koma fram í verðlagi. Ég held að varla sé unnt að gera ráð fyrir að menn flytji inn varning ef þeir fá gengisbreytingu ekki borna uppi í verði. Ég hygg að enginn gerði það, það liggur í hlutarins eðli. Þess vegna held ég að gengisbreytingu og erlendar verðhækkanir almennt sé óhjákvæmilegt að taka til greina í verðlagningu innanlands.

Hér hefur verið viðurkennt að 8% launahækkun 1. júní og 4% 1. okt. séu liðir sem rétt hafi verið að viðurkenna. Þetta eru meginliðir auk opinberra hækkana. Þetta eru allt saman kostnaðarliðir sem fara óumdeilanlega inn í kostnaðinn við framleiðslu eða sölu á ákveðinni vöru.

Ég tek fyllilega undir það, sem hér hefur verið sagt, að vissulega höfðu heimilin ýmislegt „í pípunum“ og erfiðleikar hafa víða orðið á heimilum. Ég nota nú þetta orðalag, í pípunum, sem er að vísu ekki gott, en þýðir að heimilin hafi haft ýmsa bundna kostnaðarliði sem þeim var óhjákvæmilegt að mæta. Hins vegar held ég að það hafi verið ákaflega breytilegt og ekki síst orðið svo hjá mörgum heimilum sem stofnað höfðu til fjárfestingar og urðu að standa undir mjög miklum fjármagnskostnaði. Ríkisstj. mat það svo að hjá slíkum fjölskyldum væri bagginn þyngstur og óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að ganga til móts við þær. Það var reynt að gera, eins og menn vita, með hækkun persónuafsláttar og barnabóta og sömuleiðis ýmsum ráðstöfunum í sambandi við húsnæðismál, sem hafa mikið verið ræddar og ég ætla ekki að tíunda hér.

Um leið og ég segi þetta viðurkenni ég að það eru áreiðanlega ýmis heimili sem hafa ekki notið aðgerða ríkisstj. eins og æskilegt hefði verið og að var stefnt, hafa lent á milli, ef ég má orða það svo. En hitt er svo staðreynd, að heimilin hafa nokkurt svigrúm til að draga saman kostnað, a.m.k. mörg hver, og geta þess vegna að sumu leyti betur mætt kostnaðarhækkunum en innflytjandinn, sem verður að greiða innflutta vöru á nýju gengi og við nýjan kostnað. Vitanlega getur hann hætt að flytja inn þá vöru og þá fæst hún ekki í verslunum. Að sjálfsögðu mundu menn frekar grípa til þess en flytja inn varning og þurfa að selja hann á undirverði. Ég vil því leyfa mér, þótt ég viðurkenni erfiðleikana hjá mörgum heimilum, að halda því fram að þar sé sveigjan nokkru meiri.

En ég vek einnig athygli á því, að við Íslendingar höfum undanfarin ár búið við viðskiptahalla og hann hefur verið mjög vaxandi. Árið 1979 var viðskiptahallinn aðeins 0.7%, árið 1980 var hann 2.5%. árið 1981 var hann 5%, en árið 1982 var viðskiptahallinn 10%, sem þýðir í hreinskilni sagt að ráðstöfunartekjur hafa verið meiri en þjóðarbúið hefur í raun og veru aflað tekna fyrir. Menn hafa varið meiri peningum í innkaup o.s.frv. en þjóðin hefur haft svigrúm til.

Ég tek það fram, að þessi viðskiptahalli og auknar erlendar skuldir eru alls ekki, langt frá því, að öllu leyti vegna of hárra launa. Það er ýmislegt annað sem þarna spilar inn í, en þó er augljóst og liggur fyrir í tölum, að almenn eyðsla okkar var meiri en við höfðum efni á. Er það eitt af því sem veldur óhjákvæmilegri skerðingu kaupmáttar um þessar mundir.

Ég gæti rætt allítarlega um opinberar hækkanir, þó að þær falli ekki undir þetta mál, en læt nægja að segja að opinberar hækkanir urðu miklar og meiri en margir vildu, en þó var sett það takmark við opinberar hækkanir að opinber fyrirtæki þyrftu ekki að taka erlend lán til að standa undir greiðslubyrði sinni. Við fyrstu áætlun sem gerð var fyrir Landsvirkjun, þar sem að því var stefnt að ekki yrði um erlenda lántöku að ræða, taldi fyrirtækið að hækkun til áramóta þyrfti að vera 60% eftir að viðbótarhækkunin kom í maímánuði.

Hins vegar var ákveðið að hækkunin yrði 31% , eins og mönnum er kunnugt. Þá var að vísu ljóst að halli yrði ef ekki fengist hækkað raforkuverðið til álversins. Sú hækkun fékkst og bendir allt til þess að rekstur Landsvirkjunar verði í járnum að þessu leyti og ekki þurfi að stofna til frekari erlendrar lántöku. Við þetta var miðað og bæði Þjóðhagsstofnun og sérstakir ráðgjafar, sem ríkisstj. fékk í því máli, skoðuðu málið frá þeim sjónarhóli. Hækkanirnar voru miklar, en við þetta var miðað.

Um niðurgreiðslu á raforku vísa ég til þess sem áðan var sagt. Þessi ríkisstj. jók verulega niðurgreiðslu á raforku, um 150 millj., en 64 millj. voru á fjárlögum þessa árs. Þetta var að sjálfsögðu einn þáttur í viðleitni ríkisstj. til að mæta óhjákvæmilegum útgjöldum, eins og t.d. upphitunarkostnaði.

Ég minnist þess ekki, virðulegi forseti, að hér hafi komið fram fleiri spurningar. Ég ætla ekki heldur að blanda mér mikið í það, hverjum sé um að kenna. Það er staðreynd að síðasta ríkisstj. gerði margt gott, og gæti ég vel tíundað það og við hv. 2. þm. Austurl., en það er líka staðreynd að henni mistókst sumt. M.a. mistókst henni að halda verðbólgunni í skefjum. Verðbólgan rauk upp á fyrstu mánuðum þessa árs. Því var óhjákvæmilegt að brjóta í blað og grípa til langtum róttækari ráðstafana en nauðsynlegt hefði verið ef hægt og sígandi hefði verið unnið gegn verðbólgunni, eins og að var stefnt. En það er önnur saga.

Afleiðingin er sú, að ráðstafanir eru núna að mörgu leyti róttækar og koma víða hörkulega við, en ég hygg þó að allir geti verið sammála um að ekki varð haldið áfram á þeirri braut að safna erlendum skuldum og búa við stöðugt hækkandi verðbólgu.