16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5957 í B-deild Alþingistíðinda. (5295)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, 123. mál Nd., þskj. 178, eftir 2. umr. í Nd. þskj. 765. Ég mælti fyrir þessu frv. í hv. Nd. 8. des. s. l. og þar sem ég veit að flestir hv. þm. hafa fylgst rækilega með þessu máli mun ég reyna að stytta mál mitt til að drýgja tímann.

Með bréfi, dags. 10. júní, skipaði félmrh. nefnd til að endurskoða lög nr. 51 frá 9. júní 1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í nefnd þessa voru skipaðir Jóhann Einvarðsson fyrrv. alþm., formaður, Gunnar S. Björnsson trésmíðameistari, Halldór Blöndal alþm., Páll R. Magnússon húsasmiður, Þórður Ólafsson lögfræðingur, Hilmar Þórisson skrifstofustjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins var ritari nefndarinnar.

Í skipunarbréfi nefndarinnar var tekið fram að hún ætti, eftir því sem við á, að fella inn í frv. sitt frv. það til l. um breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni nr. 51 frá 1980, sem lagt var fram á Alþingi 6. des. 1982, en hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Þá átti nefndin að athuga sérstaklega á hvern hátt unnt væri að auka fjármagn til byggingarsjóðanna, m. a. með tilliti til þeirrar ákvörðunar ríkisstj. að koma á næsta ári lánshlutfalli á staðalíbúð upp í 50% af byggingarkostnaði fyrir þá sem byggja eða kaupa í fyrsta skipti. Lánshlutfallið skyldi síðan fara hækkandi á næstu árum þar til 80% — marki yrði náð. Jafnframt skyldi nefndin athuga möguleika á lengingu lánstíma.

Í sambandi við þetta mál tók nefndin mið af því að ríkisstj. hafði að tillögu félmrh. þann 22. sept. 1983 samþykkt að frá og með 1. jan. skyldu öll lán hækka um 50%. Nýbyggingarlán til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn skulu greidd í tveimur hlutum, þ. e. fyrri hlutinn mánuði eftir fokheldisstig og seinni hlutinn sex mánuðum frá útborgun fyrri hlutans. Útborgun lána til annarra skal vera óbreytt frá því sem nú er. Nýbyggingarlán lengist úr 26 árum í allt að 21 ár. Öll lán verði afborgunarlaus fyrstu tvö árin. Gjalddögum húsnæðislána verði fjölgað í fjóra á ári.

Markmið þessara lagafrv. kemur fram í 1. gr., en þar stendur: „ — að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála og húsbygginga að landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum,

— að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum, þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika launafólks til að eignast húsnæði.“

Varðandi kaflann um fjármögnun er þýðingarmest sú breyting sem kemur fram í 9. gr. frv., en þar stendur: „Með árlegu framlagi úr ríkissjóði skv. fjárlögum sem nemur eigi lægri fjárhæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun [Byggingar] sjóðsins viðkomandi ár.“

Aðrar breytingar frá gildandi lögum eru helstar þessar:

Ekki er gerður greinarmunur á því hvaða aðilar geti fengið lán úr sjóðnum. Í gildandi lögum er það ýmist bundið við einstaklinga og/eða sveitarfélög eftir lánaflokkum, sbr. 13. gr. frv.

Skv. frv. skal veita lán til þeirra sem byggja sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða til einkaeignar, sem er nýmæli. Nú þarf umsækjandi ekki að selja sína fyrri íbúð áður en hann fær hámarkslán til byggingar nýrrar íbúðar. Hann verður að undirrita skuldbindingu um að hann leigi hana til íbúðar þegar nýja íbúðin er fullgerð, sbr. 13. gr.

Lán til kaupa notaðra íbúða, að viðbættum uppfærðum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins sem hvíla á íbúðinni, mega aldrei nema hærri upphæð en nýbyggingarlán eru á hverjum tíma. Skv. gildandi lögum er ekkert þak. Þetta kemur fram í 14. gr.

Varðandi lán til byggingar leiguíbúða handa öldruðum verður nú heimilt að selja lífeyrisþegum hlutdeild í íbúð með þeim kvöðum að eignarhluti kaupanda standi óhreyfður í íbúðinni meðan hann hefur afnot af henni, en greiðir síðan með fullum verðbótum skv. lánskjaravísitölu en án vaxta. Einnig verður heimilt að selja verðtryggð skuldabréf til einstaklinga sem með kaupum á þeim vilja tryggja sér leigurétt á íbúð eða vistun á dvalarheimili. Þetta er nýmæli sem er mjög þýðingarmikið, eins og fram kemur í 15. gr. frv.

Ef lántaki, sem fengið hefur lán skv. 6. tölul. 11. gr., er 70 ára eða eldri eða fatlaður, getur ekki staðið undir afborgunum af láninu er heimilt að fresta afborguninni um óákveðinn tíma, sbr. 24. gr. frv.

Þá ber að nefna orkusparnaðaraðgerðir og endurnýjun eldra húsnæðis. Lán til slíkra endurbóta getur orðið hærra en 50% af nýbyggingarláni. Skv. gildandi lögum geta t. d. sveitarfélög fengið lán til endurbóta allt að 70% af nýbyggingarláni, eins og kemur fram í 26. gr., en einstaklingar aðeins 50%. Ef um viðbyggingu er að ræða og jafnframt eldra húsnæði endurbyggt má lánið nema allt að 80% af nýbyggingarláni. Skv. gildandi lögum er það aðeins 50%.

Gert er ráð fyrir að viðskiptabankarnir taki við því verkefni af Byggingarsjóði ríkisins að veita viðurkenndum framkvæmdaaðilum rekstrarlán á byggingartímanum. Húsnæðisstjórn er heimilað að veita lán til kaupenda íbúða innan tiltekins tíma frá því að húsin eru fokheld. Þetta kemur fram í 29. gr. Ég vil geta þess í þessu sambandi að í gangi eru núna viðræður við Seðlabanka og viðskiptabanka og sparisjóði um að reyna að fullnægja þessu ákvæði, sem er gert ráð fyrir að sé á stærðargráðunni á þessu ári um 120 millj. kr.

Heimilt verður nú að veita hærri lán til nýrra íbúða sem byggðar eru á lögbýlum en er í gildandi lögum. Nú verða staðalóúðir fyrir þrjár mismunandi fjölskyldustærðir, en þær eru fjórar í gildandi lögum. Þetta kemur fram í 32. gr. frv.

Lánstími lengist almennt um fimm ár. Lánin eiga að vera afborgunarlaus fyrstu tvö árin, en skv. gildandi lögum eru þau afborgunarlaus fyrsta árið.

Ákvörðun um vexti verður ekki bundin í lögum eins og nú er. Gjalddagar verða ekki bundnir við tiltekna daga ársins eins og nú er. Þetta kemur fram í 30. gr.

Í sambandi við Byggingarsjóð verkamanna er gert ráð fyrir að bæta við nýjum lið sem kemur fram í 33. gr., þ. e. c-liður, en skv. honum skal sjóðurinn lána til leiguíbúða sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagasamtökum og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða, öryrkja og aðra sem ekki hafa aðstöðu til þess að eignast eigið húsnæði við hæfi.

Eins og hv. þdm. hafa fylgst með hefur þetta ákvæði frv. valdið mikilli umr. og sú grein sérstaklega sem fjallar um þessar félagslegu byggingar. Spurningin er hvort húsnæðissamvinnufélög, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, falli undir þessa grein frv. eða ekki. Það var mín túlkun sem félmrh. að skv. c-lið fái félagasamtök, sem ætla að byggja leiguíbúðir sem ætlaðar eru til útleigu fyrir félagsmenn þeirra sem ekki hafa aðstöðu til að eignast eigið húsnæði við hæfi, möguleika til lána úr Byggingarsjóði verkamanna, enda uppfylli slíkir aðilar öll ákvæði Byggingarsjóðs verkamanna um tekju- og eignaviðmiðun, sbr. 44. gr. frv. Þessi ágreiningur kom upp milli stjórnarflokkanna eftir að nál. félmn. Nd. var lögð fram. Sjálfstæðismenn vildu ekki fallast á að fleiri aðilar gætu byggt leiguíbúðir til útleigu, svo sem húsnæðissamvinnufélög eins og hið svokallaða Búsetafyrirtæki. Þessi ágreiningur stöðvaði raunar afgreiðslu frv. hér á Alþingi. Ég vil geta þess hér, vegna þess að þetta er nú það mál sem mikil umræða hefur verið um, að ég taldi þetta ástand algerlega óviðunandi, þar sem í frv. sjálfu, sem hér er til meðferðar, eru ýmis mjög mikilvæg stefnumarkandi atriði til framfara í húsnæðismálum, sem beðið hefur verið eftir, bæði hvað varðar fjármögnun, lengingu lánstíma, kauprétt lífeyrisþega, orkusparandi lán o. fl., o. fl. sem gerir það brýnt að frv. verði að lögum á yfirstandandi þingi. Þess vegna lagði ég til við Sjálfstfl. að takmörkuð yrði í frv. heimild til byggingar leiguíbúða skv. c-lið 33. gr. en eftir stendur réttur til lána til byggingar leiguíbúða fyrir námsmenn, öryrkja og aldraða, sem t. d. Félagsstofnun stúdenta og leigjendasamtök geta notað sér, auk ríkis og sveitarfélaga. Þessi breyting var síðan samþykkt við 3. umr. um frv. í Nd. og þannig liggur þessi grein frv. hér til afgreiðslu. Jafnhliða þessu varð samkomulag um að félmrh. skipar nefnd til að gera tillögur um stefnumörkun um byggingu leiguíbúða og hvernig með það form skuli fara, semja frv. til l. um búseturéttaríbúðir og kaupleigusamninga og verður stefnt að því að slíkt frv. verði lagt fram í byrjun næsta þings. Það er öllum kunnugt, sem um þessi mál hafa fjallað, að á þessu er brýn þörf því að slík ákvæði í löggjöf eru ekki til hér á landi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara yfir mörg atriði þessa frv. Það er búið að ræða þau það ítarlega. Þó vil ég aðeins koma hér inn á eitt atriði í sambandi við Byggingarsjóð verkamanna.

Skv. þessu frv. verður heimilt að veðsetja íbúð í verkamannabústað fyrir öðrum lánum, þ. e. t. d. lífeyrisrétti kaupanda. Það er heimilt að nýta sér þetta ákvæði. Þetta hefur verið umdeilt á undanförnum árum, en er talið nauðsynlegt og mun e. t. v. festa betur í sessi þá aðila sem nýta sér búseturétt í verkamannabústöðum.

Í gildandi lögum er heimilt að lána allt að 90% af kostnaðarverði staðalíbúðar í verkamannabústaðakerfinu. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að þetta hlutfall verði 80%, en það er heimilt að veita 90% lán ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi hjá viðkomandi umsækjanda að mati húsnæðismálastjórnar. Þannig er ekki hægt að fullyrða að útilokað sé að þeir sem verstar aðstæður hafa geti fengið áfram 90% lán.

Eins og ég hef áður komið inn á gildir það sama um Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins, að ákvæði um vexti eru ekki bundin í lögunum skv. þessu frv., eins og er í gildandi lögum, og ekki heldur að gjalddagar verði bundnir við tiltekna daga ársins eins og nú er. Lánin til leiguíbúða, sbr. c-lið, það sem eftir stendur þar, verða til 31 árs í stað 16 ára í gildandi lögum. Þá er kaupskylda sveitarfélaga stytt úr 30 árum í 15 ár. Heimilt verður að selja íbúð í verkamannabústað á frjálsum markaði hafi hún verið í eigu sama eiganda í 30 ár samfellt. Í gildandi lögum er aðeins sveitarfélögum heimilt að kaupa notað húsnæði, en nota síðan sem leiguhúsnæði. Þetta ákvæði nær nú til fleiri aðila skv. frv.

Í þessu frv. er sérstakur sjálfstæður kafli um byggingarsamvinnufélög, sem ekki er til í gildandi lögum. Þær lagagreinar gera auðveldara að nýta betur þetta form til byggingar íbúða eftir samvinnuformi sem hefur reynst afburða vel hér á landi til að koma upp ódýrara húsnæði og sérstaklega fyrir ungt fólk sem þannig fær möguleika til að nýta sér þetta mikilvæga form.

Ég vil koma inn á nokkrar breytingar sem urðu í meðferð Nd. á upprunalega frv. Þær eru flestar minni háttar.

Það er í 4. gr. frv. bætt inn í að Alþingi kýs tvo endurskoðendur og tvo til vara, sem ekki var í gildandi lögum. Þá er einnig í sambandi við kaflann um Byggingarsjóð ríkisins, 2. lið 9. gr., þar sem ákveðið er um fjármögnun Byggingarsjóðsins, bætt inn í „af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár sem samþykkt er af félmrh. og fjmrh.“

Eitt mikilvægt atriði vil ég skýra hér. Það er í sambandi við nýmæli sem er í 66. gr. frv. eftir meðferð í Nd. Þar er bætt inn í að „heimilt er félagsmönnum í byggingarfélögum verkamanna, sem annast sameiginlegt viðhald á íbúðum félagsmanna, að stofna húsfélög í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1976, um fjölbýlishús, þannig að húsfélögin taki sameiginlegt viðhald í sínar hendur. Félmrh. setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.“

Þetta er sett hér inn fyrst og fremst til að mæta ákveðnum óskum eða raunar kröfum sem hafa komið fram hjá félögum í byggingarfélögum verkamanna í Reykjavík, sem standa að mörgum íbúðum hér í borg, og það hefur valdið nokkrum ágreiningi um þetta atriði þar sem félagarnir vilja margir fá að annast þetta viðhald og umsjón sjálfir, en ekki láta stjórn viðkomandi félags algerlega hafa það með höndum.

Ég vil svo segja að ég legg mikla áherslu á ný viðhorf, nýja stefnumörkun, sem ég tel að þetta frv. beri í sér og geri alla stjórnun og meðferð þessara mála auðveldari og skilvirkari en nú er. Ég verð að segja það hér að ég harma mjög að ekki var orðið við þeirri ósk, sem ég bar fram við 1. umr. málsins í Nd. 8. des. s. l., að félmn. Nd. og Ed. ynnu sameiginlega að athugun þessa máls. Ég vona sannarlega að það komi ekki að sök. En eins og fram hefur komið er orðið algert samkomulag um að reyna að láta þetta frv. verða að lögum á þessu þingi. Ég treysti og heiti á hv. þm. í Ed. að hjálpa til við að gera þetta mögulegt. Það er ákaflega þýðingarmikið. Það mundi skapa mikinn vanda í meðferð húsnæðismála á þessu ári og í umfjöllun um áætlun fyrir næsta ár ef það áform yrði ekki staðreynd að koma þessu máli í gegn þá fáu daga sem eftir eru á yfirstandandi þingi. Ég fer sem sagt fram á það í fullri vinsemd og af mikilli alvöru að það verði allt gert sem hægt er til að ná því markmiði.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengur. Ég legg til að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.