16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5966 í B-deild Alþingistíðinda. (5297)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Þeim sem hér stendur er stundum brigslað héðan úr ræðustól um ungdóm, vanþekkingu og reynsluleysi. Hæstv. félmrh. lýsti því frv. sem hér liggur fyrir hv. deild sem stefnubreytingu. Annaðhvort er það talað þvert gegn eigin sannfæringu eða af vankunnáttu, því að það er mjög fátt í þessu frv. sem réttlætir það að kalla frv. stefnubreytingu í sjálfu sér. Það er svona ósköp álíka og að kalla það, þegar bátur snýst fyrir vindi við ból, að hann hafi skipt um stefnu.

Ég ætla að byrja á því að taka fyrir markmið laganna. Ég tel að ekki hafi verið nægilega kyrfilega gengið frá stefnumarkandi sjónarmiðum í húsnæðismálum, þar sem annars vegar er reyndar talað um að menn geti búið við öryggi í húsnæðismálum en hins vegar að ríkisstj. stuðli að jafnrétti með því að sem flestir geti eignast húsnæði. Bæði austan hafs og vestan er það viðurkennt lífsform eða lífsmáti að leigja. Gildir það þar jafnt um ríka sem fátæka að menn telja hvorki skömm né vansa að því að leigja, heldur oft og tíðum mjög mikið hagræði. Mér finnst vanta í þessi lög stefnumarkandi breytingu á hugarfari til þessa íbúðaforms. Þess vegna er þetta atriði í mínum huga ekki nægilega vel fram sett. Við verðum að fara að viðurkenna þá staðreynd að það er mjög stór hópur fólks sem ekki alltaf æskir þess að eignast húsnæði. Verður þá líka að gera lögin þannig úr garði að þau geti brugðist við þess háttar óskum fólks með réttum hætti. Í því sambandi vil ég minna á þann kafla þessa frv. sem fjallar um samskipti sjóðsins við einkaframtaksaðila á byggingarmarkaði, þ. e. þar sem talað er um lán til viðurkenndra framkvæmdaaðila í byggingariðnaði. Ég held að þar sé ekki nægilega vel að málum staðið, það er í raun og veru ekki gefinn möguleiki eða vakinn áhugi manna á því að byggja húsnæði nema þá til að selja það, ekki til að leigja það.

Í öðru lagi vil ég minna á þáltill., sem ég flutti hér og lýtur kannske frekar að láglaunahópum, þar sem ég lagði til að reynt yrði að koma inn í lög um húsnæðismál kafla um réttindi fólks, sem hefur svo lág laun að það getur nánast ekki staðið undir venjulegri leigu á mannsæmandi húsnæði, og að hið opinbera, ríki og sveitarfélög í sameiningu, reyni þá að mæta því fólki með leigustyrkjum. Einnig hefði verið mjög gaman að sjá skipulagsbreytingar á Húsnæðisstofnun sjálfri. Innan þessarar stofnunar starfar deild, sem kallast tæknideild, og er ekki bara óþörf heldur líka mjög leiðinlegur samkeppnisaðili við hinn frjálsa markað á þessu þjónustusviði. Mætti hæglega skipta verkefnum hennar annars vegar yfir á aðila á frjálsum markaði og svo hins vegar, því sem að rannsóknum lýtur, yfir á þá stofnun sem viðurkennd er og hefur ákveðin verksvið í þeim málaflokki, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Ég hef einhvern tíma héðan úr ræðustól lýst ákveðnum áhyggjum mínum eða gagnrýni á Byggingarsjóð verkamanna og svokallaðar félagslegar íbúðabyggingar. Það er þó ekki það að ég sé á móti þessari aðgerð, þeirri félagslegu aðgerð sem í lögunum er fólgin, heldur hef ég gagnrýnt ákveðna framkvæmdaþætti, sem lúta aðallega að verklegum framkvæmdum og yfirumsjón þeirra, og svo hins vegar úthlutun, þar sem hefur viðgengist hér á undanförnum árum ákveðin spilling, sem ég hefði talið mjög æskilegt að þessi lög reyndu að sporna á móti. Það þyrfti að ganga þannig frá í lögunum að réttur fólks gagnvart þessum fyrirtækjum væri tryggður, hvað úthlutun varðar annars vegar, og svo hins vegar að réttur hins opinbera gagnvart þessum fyrirtækjum, hvað verklegar framkvæmdir varðar, væri nægilega tryggður líka. Þess vegna mun ég við áframhaldandi afgreiðslu þessa máls trúlega gera það að tillögu minni í samræmi við mál mitt, að annars vegar verði lögunum breytt þannig að tæknideild Húsnæðisstofnunar verði lögð niður og hins vegar að nánar verði kveðið á um ýmislegt viðkomandi verkamannabústaðakerfinu.

Eitt atriði í þessu frv. lýtur að ungmennum þessa lands. Ungu fólki er gert að spara svokallaðan skyldusparnað, fé sem Húsnæðisstofnun ríkisins eða Byggingarsjóður ríkisins hefur aðgang að og notar. Þessi skyldusparnaður hefur viðgengist hér líklega hátt á annan áratug. Reglan hefur verið sú að ríkið heldur eftir 15% af launum allra einstaklinga á aldrinum 16–26 ára. Er þetta gert undir því yfirskini að verið sé að gera þessu fólki greiða, veita því forsjá, enda hafi ungt fólk vart vitsmuni til að spara eða fara skynsamlega með tekjur sínar. Það er ekkert, nákvæmlega ekkert, í þessum lagafyrirmælum um skyldusparnað sem gefur til kynna að tilgangurinn sé neinn annar en þessi. Þessi meinta velferðarþjónusta mun vera einsdæmi, að því er ég fæ best séð, í vestrænum lýðræðisríkjum. Til viðbótar er ekki annað að sjá en þessi löggjöf brjóti hreint og beint í bága við íslensk lög um sjálfræði og fjárræði.

Ég lít svo á að þessi skyldusparnaðarlög séu brot á ákveðnum grundvallarrétti, þ. e. rétti hvers sjálfráðs manns til þess að stýra sparnaði sínum og eyðslu eftir eigin geðþótta. Það er ekkert sjálfgefið að það sé skynsamlegt að spara, sbr. s. l. tvo áratugi. Það er mál sem hver einstaklingur verður að hafa rétt til að taka ákvörðun um skv. efnahag sínum og lífsskoðun. Þess utan var þessi svokallaði skyldusparnaður a. m. k. á tímabili hreinn þjófnaður þó að það hafi orðið bót á því nú hin síðari árin.

Undir formerkjum ráðdeildar hefur ríkisvaldið nánast stolið milljónum frá íslensku æskufólki hin síðari árin. Þá á ég við þann áratug sérstaklega sem á undan þessum er genginn. Í þessum forsjárhyggjulögum er gert ráð fyrir því að fólk noti fé þetta til að byggja eða kaupa eigið húsnæði og ekki til annars. Þessu til staðfestingar eru ákvæði sem undanþiggur þá einstaklinga þessari skyldu sem eiga íbúð til eigin þarfa. Það er því ekki nóg með að yfirvöld frysti fé þessa unga fólks, heldur veita þau líka fyrirmæli um það hvernig á að ráðstafa fénu að þvingunartímanum loknum. Skyldusparnaðarlögin eru að mínu mati óréttlát. Þó eru jafnvel enn þá óréttlátari undanþágurnar sem draga þegnana í dilka eftir því í hvaða aðstöðu þeir eru. Í þessum ákvæðum er ekkert spurt um tekjur einstaklinganna og lífskjör, heldur bara hvort menn séu giftir eða ógiftir, hvort þeir eigi íbúð eða eigi ekki íbúð. Síðan eru þeir ógiftu og eignalausu taldir aflögufærir en giftu eignafólki er veitt undanþága. Það sér, vona ég, hver viti borinn maður að svona lög eru bæði vitlaus og siðlaus með öllu.

Í samræmi við þetta mun ég líka gera það að tillögu minni, þegar að síðari þáttum afgreiðslunnar kemur, að þessi kafli laganna falli brott.

Þá er það vandamál Búseta. Ég verð að viðurkenna það að ég óttaðist að svo kynni að fara sem fór. Og ég held að hæstv. félmrh. verði að taka á sig ábyrgðina af því hvernig fór því að það er alveg greinilegt að hann eða ráðgjafar hans hafa ekki gert sér grein fyrir því að hér er um gerólíkt byggingarsamvinnuform að ræða því sem við eigum hér við að búa. Til þess að hægt sé að koma þessu sérstaka eða sértæka eignarformi fyrir í lögum hlýtur að verða að gera það með víðtækari hætti og betur undirbúnum en gert var í þessu frv. Það þýðir ekki að mínu mati að stilla þessu eignarformi upp við hliðina á sjálfseignarforminu, sem viðgengst í þessum lögum hvað Byggingarsjóð verkamanna snertir, og gera þeim þannig lagað jafnhátt undir höfði. Það verður að standa allt öðruvísi að lánum til Búsetafélaganna eða húsnæðissamvinnufélaganna en til Byggingarsjóðs verkamanna. Það verður að taka tillit til þess að þar er verið að lána til bygginga sem aldrei koma aftur til endurfjármögnunar í húsnæðislánakerfinu. Þar af 1eiðandi eiga þær ákveðna kröfu á lengri og hagstæðari lánum en þau eignarform sem sífellt eru að koma aftur til kasta Byggingarsjóðs ríkisins varðandi endurfjármögnun og eignarform, þar sem bæði er fullnægt húsnæðisþörf og fjárfestingarþörf. Þær hljóta að vega allt öðruvísi í forsendum heldur en eignarform þar sem aðeins er verið að fullnægja húsnæðisþörf en ekki fjárfestingarþörf.

Það var þess vegna sem ég lagði hér í upphafi þessa þings fram þáltill. þar sem lagt var til að Alþingi fæli ríkisstj. að undirbúa sérstaka löggjöf viðvíkjandi þessu nýja eignarformi. Nú er það komið á daginn að þar sem ekki var brugðist við með skjótum hætti, þá fór sem fór. Ég verð að viðurkenna það að hvað Búsetafélögin snertir er ég ekki kannske viss um að þetta hafi verið sú versta niðurstaða sem orðið gat, því að ef réttur þeirra hefði verið tryggður með þeim hætti sem þessi lög gerðu ráð fyrir, þá var það hreint og beint ekki hinn rétti eða nægilegi grundvöllur sem þessi félög þurfa á að halda. Þess vegna vil ég nú í lok máls míns skora á hæstv. félmrh. að taka þessi mál í sumar rækilega til skoðunar og þá einnig hugmyndir um leigustyrki til láglaunafólks sem ákveðinn þátt eða innlegg á vondu máli, í að örva byggingu leiguhúsnæðis á hinum frjálsa markaði, ekki sem sé á hinum félagslega markaði, þ. e. sveitarfélaga eða ríkis.