16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5980 í B-deild Alþingistíðinda. (5304)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. 2. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Þegar frv. til 1. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum kom hér fram lýsti ég því yfir að ánægjulegt væri að tekist hefði að koma þessu frv. fram. Hafði ég þá í huga að nefnd sú sem þetta frv. samdi er skipuð fulltrúum frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum og mátti því gera ráð fyrir að eining væri um frv.

Nú hefur annað komið í ljós. Eftir að samgn. fékk frv. til athugunar og hinir ýmsu aðilar voru kallaðir til n. kom í ljós að mikill ágreiningur er um frv. Leggjast hagsmunaaðilar mjög gegn því að frv. verði samþykkt og tína til ýmis rök. Telja þeir frv. ónýtt sem tæki til að koma í veg fyrir undanþágur og halda því reyndar fram að það verði til þess að gefa allar undanþágur lausar. Benda þeir sérstaklega á 19. gr. í því sambandi. Sú grein er hagsmunaaðilum mikill þyrnir í augum, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef skortur er á mönnum með nægileg réttindi má eftir ósk útgerðarmanns eða skipstjóra viðkomandi skips veita manni, sem ekki fullnægir skilyrðum laga þessara, með undanþágu rétt til starfa á tilteknu skipi eða gerð skipa um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en sex mánuði í senn.

Undanþágur skv. 1. mgr. veitir fimm manna nefnd sem samgrh. skipar til að fjalla um þess háttar mál. Í nefndinni eiga sæti tveir fulltrúar tilnefndir af fulltrúum útgerðaraðila og tveir fulltrúar tilnefndir af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, en formann nefndarinnar skipar ráðh. án tilnefningar. Nefndin semur sér starfsreglur sem hún lætur birta með fullnægjandi hætti. Nú synjar nefndin umsókn um undanþágu og getur umsækjandi þá borið ákvörðun nefndarinnar undir samgrh. sem leggur endanlegan úrskurð á málið.“

Þetta þýðir það að það er undir geðþóttaákvörðun ráðh. komið hvort undanþága er veitt eða ekki. Benda hinir ýmsu hagsmunaaðilar á að þetta sé í raun sama formið og verið hefur að undanförnu. Vissulega er undanþáguvandamálið mikið og það þarf að leysa það. Það þarf að koma í veg fyrir að flotinn sé rekinn af undanþágumönnum í svo ríkum mæli sem nú er. En ef meiningin er að setja lög sem eiga að halda, lög sem eiga að leysa mál, koma í veg fyrir þetta vandamál, þá verður að gera þau þannig úr garði að einhver bót sé að þeim. Svo er ekki með þessu frv.

Ég játa það og það mun vera eins með hv. aðra alþm., sem skipa þennan minni hl., Skúla Alexandersson og Kolbrúnu Jónsdóttur, að það vekur undrun okkar hversu lítið samband hefur verið á milli nm. og hinna ýmsu samtaka sem þetta varðar. Við teljum að ef leysa á undanþáguvandamálið verði það að gerast með góðri sátt aðila. Þessi mál leysast ekki öðruvísi en með góðri sátt. Og þessi sátt er ekki fyrir hendi. Þess vegna leggjum við til í sérstakri till. í nál. okkar að mál þetta verði afgreitt með rökstuddri dagskrá og þess freistað að ná sáttum við hagsmunaaðila um málið.

Í fskj. með nál. höfum við birt athugasemdir og tillögur sem skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík gerði. Þar leggur hann til að frv. verði frestað til hausts, þá verði það rætt og reynt að ná sáttum. Það er ekki aðeins skólastjóri Stýrimannaskólans sem leggur þetta til heldur aðrir umsagnaraðilar. Okkur barst t. d. bréf frá Skipstjórafélagi Íslands nú fyrir nokkru og mun ég, með leyfi forseta, grípa niður í niðurlag þess bréfs. Þar segir svo:

„Í athugasemdum frv. segir m. a.: „Þegar á heildina er litið er ljóst að frá því að löggjafinn tók fyrst að setja reglur um atvinnuréttindi á íslenskum skipum og um stýrimannanám hefur þróunin orðið sú, að námskröfur hafa sífellt aukist og starfskröfur einnig, hvað varðar þekkingu, enda hefur á þessum tíma orðið gjörbreyting á skipastól landsmanna og siglingum. Hafa skipin almennt stækkað og allur tæknibúnaður vaxið og orðið flóknari.“ En hvað er svo verið að leggja til með þessari frv.-ómynd? Aukin réttindi fyrir minna skólanám, færri menn, þótt hraði og verkefni hafi stóraukist, lágmarks ábyrgðarvitund þótt þau verðmæti sem þessir menn eiga að bera ábyrgð á hafi margfaldast. Það hefur verið talað um að sátt ætti að vera um þetta frv. En þó voru skipstjórnarmenn (skipstjórar og stýrimenn) ekki boðaðir til starfa við gerð þessa frv. Ingólfur Ingólfsson fulltrúi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands er vélstjóri og Jónas Sigurðsson var, en er ekki í dag, fulltrúi Stýrimannaskólans í Reykjavík.“ Niðurlagið er svona: „Við teljum okkur því enga ábyrgð bera á gerð þessa frv., ef það verður óbreytt gert að lögum, og áskiljum okkur allan rétt til að berjast gegn því af öltum okkar mætti og með öllum tiltækum ráðum.“

Þetta sýnir vissulega að ekki er um sátt að ræða hjá þessum aðilum. Frv. þetta kemur mjög seint til afgreiðslu hér í Ed. Það mun hafa verið tilbúið löngu áður. Þótt nefndin sem um málið fjallaði hafi ekki formlega lokið störfum fyrr en í marsmánuði þá hafði frv. verið löngu fullbúið og er það lagt fram um miðjan aprílmánuð.

Við fulltrúar 2. minni hl. teljum ekkert vit í öðru en að fresta þessu frv., afgreiða það nú með rökstuddri dagskrá og freista þess að ná sátt við þessa aðila um frv. , enda komi það ekki að neinu gagni ef allir þeir sem eiga að vinna eftir því hugsa í svipuðum dúr og fram kemur í umsögn Skipstjórafélags Íslands, að þeir muni beita öllum ráðum og öllum mætti til að koma í veg fyrir að ákvæði laganna verði haldin.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta mál nú. Ég tel ástæðulaust að fara ofan í einstakar greinar. Það er mikill fjöldi brtt. sem fram hefur komið en ekki hefur gefist aðstaða til að breyta einu eða neinu í frv. þó að vissulega væri ástæða til þess. Þess vegna leggjum við til að frv. verði afgreitt með rökstuddri dagskrá og síðan verði sumarið og haustið notað til að ná sáttum í þessu máli.