09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál nú. Það kemur til afgreiðslu í nefnd þar sem ég á sæti. Hér er hreyft, held ég, við mjög þörfu máli. Þessi mál þarf að skoða gaumgæfilega. En mig langar aðeins hér og nú til að varpa þeirri hugmynd fram til hv. þm. í þessari deild hvort ekki sé vænlegra að við reynum frekar að efla ylrækt hér á landi, reynum sjálf að framleiða sem mest af því grænmeti sem við þurfum, en að opna fyrir innflutning á því til landsins eins og hér er lagt til. Ég veit að þetta er vandamál með kartöflur, en veit nokkur hér hvort einhvern tíma hefur verið gerð könnun á því hversu mikið af kartöflum við getum í raun og veru ræktað hér? Ég tel að þessi atriði þurfi að athuga áður en við opnum fyrir frjálsan innflutning á grænmeti til landsins.