16.05.1984
Efri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5990 í B-deild Alþingistíðinda. (5317)

252. mál, fjarskipti

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það er allerfitt að koma upp í þennan ræðustól eftir þá hólræðu sem form. samgn. hefur flutt um okkur samstarfsmenn sína. Það er allt að því eins og við séum hálfgerð ofurmenni í þessum n. og ég kvíði hálfpartinn fyrir því þegar raunverulegi aflakóngurinn í deildinni kemur og fer að þakka okkur fyrir störfin, þ. e. form. sjútvn., ef það á að vera í svipuðum stíl og hv. þm. Egil Jónsson talar til okkar nm. sinna.

En það skal haft í huga að sjálfsagt er það rétt að við erum hver öðrum betri í n. en þetta lið hefði ekki áorkað jafnmiklu og það hefur gert ef það hefði ekki haft jafngóðan forustumann, haft jafngóðan mann til að halda um stýrisvölinn og hv. þm. Egill Jónsson. Það hefur hann gert með miklum sóma og sýnt okkur liðlegheit og sanngirni í hvívetna.

Um þetta mál sem hér er til umr. hefur orðið næstum því algert samkomulag í samgn. Eins og kom fram í ræðu frsm. var þetta frv. undirbúið af nefnd sem mun hafa tekið til starfa 1981. Í þeirri nefnd áttu m. a. sæti tveir af þm. þessarar hv. deildar, þeir Eiður Guðnason og Helgi Seljan. Upphaflegt starf deildarinnar byrjar því þegar við undirbúning frv. Þó að þeir ágætu menn hafi verið í nefndinni finnst mér að þetta frv. beri að sumu leyti þess merki að ekki hafi unnist nægur tími eða verið nógu góð starfsaðstaða við að undirbúa frv. Það eru vissir þættir í frv. sem ég held að hefði þurft að skoða betur og séu kannske að sumu leyti tímaskekkja. Eins og sá þáttur sem við tökum fram í nál., þ. e. um. þann rétt Póst- og símamálastofnunar að sjá um tegundarprófanir þeirra fjarskiptatækja sem flutt eru til landsins, þ. e. að staðfesta það hvaða tæki megi nota og selja á þessum vettvangi. Í umr. í n. kom fram að þetta þýðir að Póst- og símamálastofnunin fær aðstöðu til þess að fara yfir pappíra, sjá við hverja þeir aðilar hafa viðskipti sem þessari verslun sinna. Og um leið er Póstur og sími að vissu leyti samkeppnisaðili við þessa aðila.

Við tökum það fram að nauðsynlegt sé að setja Pósti og síma dálítið þröngan eða ákveðnari ramma en gert er í lögunum um þessa starfsemi sína. Ég er þeirrar skoðunar að æskilegt væri að aðskilja þennan þátt frá starfsemi Pósts og síma. Til þess að svo mætti vera hefði þurft að semja nýtt lagafrv. um þann þátt. Ég tel að það þurfi þó nokkuð mikinn tíma og sérfræðiundirbúning til þess að ákvarða það á hvern veg sú tegundarprófun færi fram ef hún færi ekki fram hjá nýrri stofnun eða hvort þá ætti að breyta Póst- og símamálastofnuninni frá því að vera viðskiptastofnun eins og að vissu leyti er lagt til í till. Kolbrúnar Jónsdóttur.

Annar þáttur, sem kom mikið fram í n. og var útskýrður fyrir okkur af forustumönnum símastarfsmanna, var að nokkur hluti þeirra starfsmanna er raunverulega réttindalaus, hefur ekki nein réttindi fyrir nám sitt um leið og sú starfsemi fellur niður hjá símanum að annast uppsetningu símtækja innan veggja húsa. Fram kemur í grg. að við leggjum til að réttindi þessara manna verði tryggð með reglugerð sem getið er um í frv.

Varðandi tegundarprófanir tel ég að allmikil nauðsyn sé á því að sett verði á fót stofnun sem geti tekið að sér þetta hlutverk og einnig það hlutverk að fylgjast með tæknirekstri Pósts og síma.

Ég hef verið gagnrýninn á þau vinnubrögð sem Póstur og sími hefur haft uppi undanfarið í sambandi við lagningu sjálfvirks síma um landið. Ég hef talið — eða það má segja að það sé kannske frekar tilfinning þess manns sem ekki hefur fullkomna tækniþekkingu á þeim hlutum — að það hafi hlotið að eiga sér stað einhver mistök í sambandi við tækniuppbyggingu. Hér er um stóra hluta af landinu að ræða en ég verð mest var við það gagnvart Vesturlandi. Þar er búið að koma á sjálfvirkum síma, en hann er í mörgum tilfellum jafnvel óvirkari en sá handvirki sími sem við höfðum áður.

Ég tel að þarna hafi átt sér stað ansi mikil mistök og framkvæmd hinnar svokölluðu fimm ára áætlunar Póst- og símamálastofnunarinnar um uppbyggingu sjálfvirks síma sé að miklum hluta til framkvæmd á yfirborðinu. Komið er inn sjálfvirkum síma til notandans en notandinn getur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti notfært sér þá þjónustu sem þessi tækni getur boðið upp á ef hún er fullkomlega virk.

Nú eru til stofnanir sem opinberar stofnanir geta leitað til um það að kanna þann rekstur sem þær hafa með höndum. Það er ábyggilega mjög heppilegt fyrir hverja stofnun að geta leitað til slíkrar stofnunar og látið kanna hvort allir hlutir eru í því standi sem æskilegast er þannig að gagnrýni og skoðun eigi sér stað annars staðar frá en frá stofnuninni sjálfri. Hin svokallaða sjálfsgagnrýni dugar oft á tíðum ansi skammt.

Í sambandi við till. hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur er ég á því að það þurfi einhvern frest til að setja á það bann að Póst- og símamálastofnunin annist sölu á almennum notendabúnaði. Aftur á móti hefði verið eðlilegra að fella aðeins niður þá setningu í 3. gr. þar sem sagt er: „Póst- og símamálastofnunin skal ætíð hafa til sölu allan almennan notendabúnað.“ Ef það hefði verið fellt niður hefði stofnuninni ekki verið skylt að gera það en hún hefði getað haldið áfram að sinna þeim viðskiptavinum sem hún hefur annast þjónustu við á undanförnum árum.