16.05.1984
Efri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5992 í B-deild Alþingistíðinda. (5319)

252. mál, fjarskipti

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér hafa menn látið mikil hrósyrði falla um nefndarstörf. Ég vildi að hægt væri að tala þannig um allar n. þessarar hv. deildar. Því miður er það ekki hægt því að í sumum eru slælega rekin tryppin að mínu mati og gengur illa að ná málum fram til afgreiðslu En ekki dreg ég það í efa að þeir samgnm. hafi unnið vel og skynsamlega að þessu máli.

En þar sem ég átti sæti í þeirri nefnd, sem þetta frv. samdi á sínum tíma og endurskoðaði gildandi fjarskiptalög, tel ég ástæðu til að segja nokkur orð. Í upphafi get ég sagt að ég get tekið undir og stutt þær brtt. sem hv. samgn. hefur hér lagt fram. En ég vil leggja áherslu á það sem segir í athugasemdum með frv. frá þeirri nefnd sem það samdi, með leyfi forseta:

„Að lokum skal ítreka það álit nefndarinnar að sú endurskoðun fjarskipfalaga sem hún vann að er ekki lokamark heldur aðeins áfangi á lengri leið. Örar framfarir krefjast þess að þessi mál séu í sífelldri endurskoðun.“

Ég hefði raunar ekki talið fráleitt að aftan við þetta frv. kæmi ákvæði til bráðabirgða um að frv. gilti aðeins í tvö ár eða þrjú þannig að tryggt væri að haldið yrði áfram að endurskoða þessi lög. Ég er sannfærður um að þess er þörf vegna þess að breytingar og framfarir á þessu sviði eru svo örar að þeirri vinnu verður að halda áfram.

Ég held þó að tvímælalaust sé þetta frv. til bóta frá því sem var. Menn geta deilt um það til hversu mikilla bóta það sé, en tvímælalaust er það til bóta og sömuleiðis þær till. sem samgn. hefur gert.

Varðandi þá brtt. sem hér liggur fyrir, um að Póst- og símamálastofnuninni verði bannað að versla með fjarskiptatæki, finnst mér hún nánast út í hött. Ég sé enga ástæðu til þess að Póstur og sími geti ekki verslað með þessi tæki eins og sú stofnun hefur gert hér eftir sem hin að til. Ég mun ekki styðja þá till.

Ég get tekið undir ákaflega margt af því sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði áðan um tegundarprófanir. Það er álitamál hvort ekki ætti að setja Póst- og símamálastofnuninni þarna nokkru strangari skilyrði. Ég get alveg tekið undir það. Hins vegar var þetta mjög ítarlega rætt í þeirri nefnd sem samdi frv. Nm. voru á því að ekki væri ástæða til að setja upp nýja ríkisstofnun til að annast þessar prófanir. Það var eiginlega það sem óx einna helst í augum. En síðan hefur verið á það bent t. d. að þessi mál gætu verið ágætlega komin hjá Raunvísindastofnun Háskólans þar sem fer fram kennsla í þessum fræðum m. a. Mér finnst að það hljóti að koma til athugunar síðar meir vegna þess að að þessum málum hefur ekki verið staðið á þann hátt sem skyldi hjá Pósti og síma, því miður. Þess eru dæmi að tekið hefur óeðlilega langan tíma, eða upp undir ár, að fá fram álit stofnunarinnar á tækjum sem óskað hefur verið eftir leyfi til innflutnings á. Þess munu m. a. dæmi að í einu slíku tilviki var sótt um leyfi til að flytja inn símveljara. Þegar leyfið kom loksins frá Pósti og síma eftir dúk og disk, ár eða þar um bil, var búið að taka þennan veljara af markaðnum vegna þess að hann var orðinn úreltur. Þess vegna held ég að þau ákvæði sem hér eru sett um þetta séu til bóta en mættu e. t. v. vera strangari. Þó skal ég ekki gera neinn ágreining um það.

Nú höfum við kannske ekki sömu aðstöðu og stórþjóðir til að prófa svona búnað og láta fara fram á honum ítarlegar athuganir. En í ákaflega mörgum tilvikum er hægt að fara eftir þeim niðurstöðum sem fengist hafa annars staðar, t. d. á Norðurlöndum. Það er nærtækt að vitna hér til annars konar tegundarprófunar, þ. e. á bílum, sem gerðar eru erlendis en við gerum ekki hér. Ég held sem sagt að þetta mál, eins og það nú liggur fyrir, sé spor í rétta átt, en legg áherslu á að það er aðeins skref og endurskoðun þessara mála þarf að halda áfram og aðlaga þessa löggjöf þeim veruleika sem við búum við hverju sinni. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Hér er um að ræða skref í rétta átt og þess vegna mun ég veita málinu stuðning.