16.05.1984
Efri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5994 í B-deild Alþingistíðinda. (5324)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Enginn gerir það með ljúfri lund eða glöðu geði að setja lög á þessu sviði og ég geri ráð fyrir að flestum sé það miður geðfellt. En ekkert frelsi er án takmarkana og það er í rauninni einkenni frelsisins að það er takmörkunum háð. Frelsi mitt til að sveifla handleggnum endar þar sem nef náungans byrjar. Hjá flestum siðuðum mönnum gerir það það, virðulegir þm. Ég held að það sé regla í mannlegum samskiptum. Hins vegar geta þau tilvik komið upp á vinnumarkaðnum að aðgerðir af þessu tagi séu ekki aðeins réttlætanlegar heldur réttar. Ég held að þegar litið er á stöðu þess máls, sem hér er um að ræða, og það að fyrir liggur að mjög torvelt, ef ekki útilokað muni reynast að samkomulag náist um þetta, þá sé þessi aðgerð verjanleg í þessu tilviki vegna þess um hve mikla hagsmuni er að ræða. Með því er ekki verið að leggja blessun yfir það að þessum ráðum sé beitt í kjaradeilum, síður en svo. En þá, sem leggjast gegn þessu nú, vil ég spyrja hvort að þeirra mati sé aldrei réttlætanlegt að grípa inn í með þeim hætti sem hér hefur verið gert hversu miklir hagsmunir þjóðfélagsins og einstaklinga sem séu í húfi.

Ég sagði áðan að allt frelsi væri takmörkunum háð. Takmarkalaust frelsi er stjórnleysi. Hér verður auðvitað að fara með löndum og gera það sem skynsamlegast er hverju sinni. Mér er það ekkert sérstaklega geðfellt að greiða atkvæði með þessu frv. en ég geri það samt vegna þess að ég held að það sé ill nauðsyn í þeirri stöðu sem nú er komin upp. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að þeir sem hér um ræðir eru vel settir á launamarkaðnum miðað við aðra, ég hef tiltölulega litla samúð með þeirra kröfum, en það er aukaatriði. Það sem mér sýnist vera ljóst í þessu máli er það að ef ekki kemur hér til atbeini hins opinbera muni flugsamgöngur að og frá landinu stöðvast á þessum tíma, ferðamannatímanum, og ég held að þeir hagsmunir, sem réttlæta það að komið verði í veg fyrir það, séu meiri en hinir. Þess vegna mun ég, þó að ég geri það ekki með sérstaklega glöðu geði, greiða þessu frv. atkvæði.