16.05.1984
Efri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5996 í B-deild Alþingistíðinda. (5330)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 100 frá 31. des. 1974, um Hitaveitu Suðurnesja, en þeim lögum var áður breytt með lögum nr. 26/1980. Með frv. þessu er lagt til að breytt verði tilgangsákvæði laganna á þann veg að hitaveitan geti tekið að sér alla orkuframleiðslu og orkudreifingu á svæði hennar.

Þá er lagt til að iðnrh. verði veitt heimild til að veita fyrirtækinu einkaleyfi til að starfrækja rafveitu á starfssvæði hennar eftir því sem um semst við einstök sveitarfélög og ríkissjóð um yfirtöku á rafveitukerfum. Í ákvæði til bráðabirgða er nánar kveðið á um sölu rafveitukerfa ríkissjóðs og sveitarfélaganna á Suðurnesjum til hitaveitunnar.

Alþingi ályktaði 3. maí 1982 að fela ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd til að semja frv. til l. um Orkubú Suðurnesja. Nefndin var skipuð 11. ágúst 1982 og kom saman til fyrsta fundar 27. jan. 1983. Áður en hún lauk störfum komu upp breytt viðhorf og var talið hagkvæmara að fela Hitaveitu Suðurnesja hlutverk orkubús á starfssvæði sínu heldur en að stofna fyrirtæki með nýju nafni er tæki við eignum og rekstri Hitaveitu Suðurnesja jafnframt því að yfirtaka raforkuvirki og veitur á Suðurnesjum. Þess var því ekki óskað að nefndin lyki gerð frv. til l. um Orkubú Suðurnesja.

Með lögum nr. 100/1974 var ákveðið að stofna Hitaveitu Suðurnesja sem hafa skyldi það markmið að virkja jarðhita í Svartsengi við Grindavík eða annars staðar á Reykjanesi, reisa þar varmaskiptistöðvar og leggja aðveituæðar til þéttbýliskjarna á Suðurnesjum, leggja dreifikerfi og annast sölu á heitu vatni til notenda. Eignaraðild að fyrirtækinu var ákveðin á þann veg að sveitarfélögin sjö á Suðurnesjum skyldu eiga 60% en ríkið 40%. Með lögum nr. 26 frá 9. maí 1980 var lögum um Hitaveitu Suðurnesja breytt á þann veg að fyrirtækinu var heimilað að reisa og reka raforkuver og reka flutningstínu til þess að tengja orkuverið við orkuflutningskerfi Suðurnesja.

Í grg. með frv. þessu er tafla yfir raforkusölu á Suðurnesjum árin 1978–1983. Eins og fram kemur í þeirri töflu hefur raforkusala frá Hitaveitu Suðurnesja numið um fjórðungi af raforkunotkun á suðurnesjum árin 1981, 1982 og 1983. Telja verður óeðlilegt að veittar séu virkjunarheimildir í sérlögum. Því er í frv. þessu ekki gert ráð fyrir sérstakri heimild til handa iðnrh. að leyfa Hitaveitu Suðurnesja frekari virkjun og framleiðslu raforku, enda er slík almenn heimild í 3. mgr. l. gr. laga nr. 60 frá 4. júní 1981 um raforkuver. Við veitingu leyfis til hitaveitunnar verður að sjálfsögðu hugað að hagkvæmni í heildarrekstri raforkukerfisins í samræmi við nýnefnda 1. gr. laga nr. 60/1981.

Þá ber enn fremur að minna á nýsamþykkt lög um Landsvirkjun, en skv. 2. tölul. 2. gr. þeirra laga er það hlutverk Landsvirkjunar að byggja og reka raforkuver og meginstofnlínukerfi landsins. Tryggja þarf sérstaklega eðlilegan samrekstur raforkuvera hitaveitunnar við rekstur Landsvirkjunar.

Skv. 13. gr. laga um Landsvirkjun skal fyrirtækið gera samrekstrarsamninga við aðra raforkuframleiðendur sem tengjast stofntínukerfi fyrirtækisins.

Skv. ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja fyrir starfsárið 1983, sem lögð var fram á aðalfundi fyrirtækisins þann 30. mars s. l., varð á árinu 1983 talsverður halli á rekstri fyrirtækisins eins og reyndar hefur verið á hverju ári síðan rekstur hófst. Tapið 1983 varð 97.4 millj. kr. og höfðu þá verið afskrifaðar tæpar 53 millj. kr. af gengisjöfnunarreikningi. Tapið 1982 var 78.3 millj. kr. sem uppfært til verðlags í des. 1983 væri sem næst 121 millj. kr. Tapið á sambærilegu verðlagi hefur því lækkað um 24 millj. kr.

Þá er bent á verulega aukningu hagnaðar án fjármunatekna og gjalda, eða 95.5 millj. kr. í stað 3.4 millj. kr., og er 1983 fyrsta árið í sögu fyrirtækisins sem skilar veltufé frá rekstri. Þá er vert að geta þess að nú hafa verið afskrifuð tæp 19% af heildarstofnkostnaði fyrirtækisins eða 302.1 millj. kr. af 1615.2 millj. kr.

Hvað varðar næstu ár má geta þess að í samþykktri fjárhagsáætlun Hitaveitu Suðurnesja fyrir árið 1984 er gert ráð fyrir nokkurn veginn hallalausum rekstri að undanskildri afskrift gengisjöfnunarreiknings. Árið 1985 ætti greiðslustaða fyrirtækisins að verða góð en árin 1986–1988 erfið því að þá koma afborganir lána til með að falla á af fullum þunga.

Í árslok var dreifikerfi hitaveitunnar samtals um 242 km að lengd. Rafveitukerfi þau sem Rafmagnsveitur ríkisins eiga og áformað er að selja eru eftirfarandi: Tvær háspennulínur frá aðveitustöð Landsvirkjunar við Elliðaár til aðveitustöðvar í Ytri-Njarðvík. Önnur línan er með 33 klóvolta spennu. Hún kemur við í aðveitustöð við Voga en aðallínan liggur áfram til Njarðvíkur. Þessi lína var lögð á árunum 1946–1947. Hin línan er 66 kílóvolta lína, lögð árið 1958. Hún liggur samhliða þeirri fyrri að mestu leyti en greinist ekki fyrr en við aðveitustöðina í Njarðvík. Þaðan liggur lína að riðbreytistöð á Keflavíkurflugvelli sem einnig er í eigu Rafmagnsveitna ríkisins.

Þá eiga Rafmagnsveitur ríkisins 33 kílóvolta línu frá aðveitustöðinni í Njarðvík til Sandgerðis, Garðs og Hafna. Enn fremur er sjálft dreifikerfið í Höfnum í eigu Rafmagnsveitnanna. Ekki verður hér gerð tilraun til þess að leggja mat á verðmæti eigna þessara, enda er það samningsatriði eða þá háð mati gerðardóms skv. frv.

Starfandi eru á Suðurnesjum sex sveitarfélagarafveitur, í Keflavík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi og Vatnsleysustrandarhreppi. Verður það að teljast samningsatriði hitaveitunnar og sveitarfélaganna hvort og þá hvernig yfirtaka á rafveitukerfi þeirra fari fram. Í frv. er gert ráð fyrir að þetta geti gerst með tvennum hætti: Í fyrsta lagi að rafveiturnar verði seldar hitaveitunni, í öðru lagi er gert ráð fyrir að sveitarfélögin geti lagt þau fram sem stofnframlög til hitaveitunnar og mundi þá eignarhlutdeild eigenda breytast í samræmi við það. Ef síðari leiðin yrði farin mundi eignarhlutur ríkisins minnka sem er til að mynda tilgangur og afstaða núv. iðnrh.

Ekki er rétt að spá neinu um hvernig samningnum um yfirtöku á rafveitukerfinu muni vinda fram. Hins vegar er hér um allflókna samningsgerð að ræða sem búast má við að taki nokkurn tíma. Jafnframt er hugsanlegt að yfirtakan fari fram í áföngum á næstu árum. Verði frv. þetta að lögum mun ég greiða fyrir því af ríkisins hálfu að samningar takist og ég trúi því að sveitarfélögin á Suðurnesjum muni gera slíkt hið sama. Með hliðsjón af hagkvæmni sameiningar rafveitnanna á svæðinu og samreksturs þeirra og hitaveitunnar treysti ég að svo verði.

Ég vil geta þess að ég er fyrir mitt leyti samþykkur þeim brtt. sem náðu fram að ganga í Nd. Alþingis og er að finna á þskj. 887. Að vísu kemur það fram í þessari framsögu að tillit hafi verið tekið til 13. gr. laga um Landsvirkjun þar sem fyrirtækjum er gert að gera samreksturssamninga við aðra raforkuframleiðendur en það varð niðurstaða iðnn. Nd. að það yrði tekið formlega inn í frv.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.