16.05.1984
Neðri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6010 í B-deild Alþingistíðinda. (5378)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka iðnn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Hv. 5. þm. Austurl. gat þess að ég hefði lýst því yfir að ég hygðist svipta Orkubú Vestfjarða og RARIK framfærslu sem þessi fyrirtæki hafa haft af verðjöfnunargjaldi. Till. mín er skýr og hana kunna væntanlega allir sem vilja kunna. Ég skipaði nefnd til þess að endurskoða verðjöfnunargjald af raforku með það fyrir augum að lækka það eða afnema það með öllu, enda yrði fyrir fjármálum RARIK og Orkubús Vestfjarða séð. Þetta er bókað og þarf ekki að hafa fleiri orð um.

Ef ætlunin er að stofna orkubú víðs vegar um landið, sem ég hef áhuga á og raunar liggur fyrir þáltill. um Orkubú Suðurnesja, þá held ég að hyggilegt sé að menn hafi a. m. k. heimildir til að viðkomandi orkubú nái yfir öll þau atriði sem til þess friðar heyra og þar með talið t. a. m. góður kaupandi eins og Keflavíkurflugvöllur er talinn. Ef svo stendur á að mönnum sýnist álitlegur orkukaupandi á einhverju því svæði þar sem menn hyggjast setja á fót sjálfstæða orkuveitu er lítt við hæfi að skerða hagsmuni þess væntanlega fyrirtækis sem því nemur. Orkuveitu Suðurnesja væntanlegri eða hitaveitu, eins og hún verður kannske nefnd og er nefnd, er fulltreystandi til þess að semja við þennan aðila um orkusölu til staðarins. En það liggur alveg ljóst fyrir að það verður gífurlega dýrt fyrirtæki fyrir orkuveituna að ráðast í að kaupa línurnar og söluna til þessa svæðis, án þess að ég hafi nokkur tök á að geta mér til um slíkar fjárhæðir. Ef það er rétt, sem hér er haldið fram — að vísu var sú tala brúttó — að þessi sala til Keflavíkurflugvallar hefði gefið af sér 29 millj. á síðasta ári þá geta menn séð að þegar sala fer fram á slíkri aðstöðu til lengri tíma verður engar smáfjárhæðir um að tefla.

Það verður ekkert gefið í þeim samningum, sem hafnir verða að þessu frv. samþykktu, við orkuveitu eða Hitaveitu Suðurnesja. Það er mikið verkefni fram undan að semja í fyrsta lagi um yfirtöku hitaveitunnar á séreignum hitaveitna sveitarfélaga þar syðra, sex saman, og síðan við Rafmagnsveitur ríkisins vegna tveggja flutningslína sem þær eiga frá Elliðaám og þangað suður eftir. Þetta er mikið verk.

Eins er það, sem getur um í þessum c-lið og hv. 5. þm. Austurl. gat um, að ég sé enga ástæðu til þess að hindra sjálfstæði þessa fyrirtækis ef forráðamenn þess vildu ráðast í fleira en einvörðungu öflun og sölu orkunnar einnar. Ég sé enga ástæðu til þess að skerða athafnafrelsi þess ef þeir vildu hafa rýmra um hendur og þess vegna er þetta þann veg úr garði gert eins og þarna má lesa.

Ég er alveg viss um það að ég þarf ekki að gegna núverandi embætti lengi til þess að eiga fleiri erindi svipaðs eðlis til hins háa Alþingis. Það er áhugi á því víða um sveitir að á þetta ráð verði brugðið, að stofna orkubú, orkuveitur landshlutanna. Ég get nefnt áhuga um Borgarfjörð þar sem gamla Andakílsárvirkjunarsvæðið er, ég get nefnt Skagafjörð, sameiningu Rafveitu Sauðárkróks og Skagafjarðar, Eyjafjörð, Suðurland. Þetta er það a. m. k. sem ég get nefnt sem dæmi um svæði þar sem áhugi vakir á að á þessi ráð verði brugðið og ég hef eindreginn áhuga á þessari valddreifingu.

Rafmagnsveitur ríkisins verða nauðsynlegur þáttur í okkar búskap um langan aldur, á því er ekki nokkur minnsti vafi. Það er enginn vafi á því að ýmis héruð verða kannske ávallt ómegnug þess að taka þessi mál í sínar hendur og enginn ætlar, og síst ég, að neyða neinu upp á sveitarfélögin sem þarna verða í fyrirsvari væntanlega alfarið, það er ekki mín ætlan. En eins og ég segi: Hér greinir menn ekki á í stærstu dráttunum. Hér er aðeins um minni háttar atriði að tefla varðandi stofnun þessa orkubús þótt orkusalan til Keflavíkurflugvallar hljóti að vísu að teljast allveigamikill þáttur. Orkustofnun skilaði alllangri álitsgerð til nefndarinnar, sem ég hef lesið. Rafmagnsveitur ríkisins tala um það í bland að það hafi nú ekki allt verið hreinn gróði af rekstri Rafmagnsveitnanna á þessu svæði, en Orkustofnun tekur að sér að ganga undir ímynduðum hagsmunum Rafmagnsveitnanna í gríðarlega löngu máli sem ég geri mátulega mikið með.