16.05.1984
Neðri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6011 í B-deild Alþingistíðinda. (5379)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umr. varð ágreiningur í iðnaðarnefnd um tvö atriði varðandi þetta mál. Hið fyrra snertir hugsanlega möguleika Hitaveitu Suðurnesja til að nýta jarðgufu og jarðvatn, þ. e. heitt grunnvatn, til annars en beinnar orkuframleiðslu. Hitt atriðið snertir sölu Rafmagnsveitna ríkisins á Keflavíkurflugvöll og hvernig fara skuli með þær línur sem notaðar eru til þeirrar sölu. Að öðru leyti var samkomulag um þetta mál. Ég lít því á það sem samkomulag í nefndinni og vonandi hér á hv. Alþingi að stofna til fyrirtækis sem er eins konar orkubú Suðurnesja þótt af hagkvæmnisástæðum hafi þótt rétt að gera það í því formi að Hitaveita Suðurnesja haldi sínu nafni en yfirtaki starfsemi sem orkubúið að öðru leyti hefði gert, þ. e. framleiðslu á rafmagni og dreifingu. Ég vil hins vegar aðeins fjalla örlítið um þessi ágreiningsefni en skal þó ekki gera það í löngu máli.

Hv. 5. þm. Austurl. hefur lagt til að sá liður þessa lagafrv. falli á brott sem kveður á um að hitaveitan geti hugsanlega tekið þátt í annars konar fyrirtækjum en beinni orkuframleiðslu. Ég get fallist á það sjónarmið að ekki sé eðlilegt að slík orkufyrirtæki fari að hefja almennan atvinnurekstur í stórum stíl. Hins vegar vil ég á engan hátt útiloka það að slík fyrirtæki geti tekið þátt í rekstri eða stuðlað að því að rekstur hefjist inni á orkuveitusvæði þess sem t. d. hefur í för með sér mikla orkunotkun og gæti því til langframa orðið til þess að efla hag orkubúsins. Ég er þess vegna fjarri því að vera sammála því áliti sem orkumálastjóri lét frá sér fara í sinni grg. og tel reyndar að það sé á misskilningi byggt og ekki rétt með farið í öllum greinum. Það er nefnilega algengt að orkufyrirtæki landsins taki þátt í slíkum rekstri. Ég nefni t. d. að Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur um langt árabil átt og rekið klak- og laxeldisstöð, ýmist rekið þessa stöð ein eða leigt hana út til einkaaðila, það hefur verið mismunandi form á því eftir árum. Hér er því ekki verið að gefa neitt fordæmi sem ekki er til annars staðar. Ég hygg að ýmis önnur orkufyrirtæki landsins, einkum rafveitur, hafi tekið þátt í slíku. Ég minni t. d. á að Landsvirkjun hefur byggt klakstöð hér austur í sveitum sem er liður í samningum við bændur um bætur vegna veiðitruflana á vatnasvæði Landsvirkjunar. Ég tel þess vegna útilokað að við förum að samþykkja hér á Alþingi ákvæði sem fæli í sér bann við því að orkufyrirtæki tækju þátt í slíkum rekstri. Mér er kunnugt af viðtölum við forsvarsmenn Hitaveitu Suðurnesja að það eru einmitt fyrst og fremst slík tilvik sem þeir hafa í huga þegar þeir vilja gjarnan hafa þessa heimild. Komið hefur til orða að hefja t. d. í stórum stíl laxeldi á Reykjanesi og mér finnst ekkert óeðlilegt að Hitaveita Suðurnesja að einhverju leyti gæti komið inn í þá mynd, jafnvel með einhverjum byrjunarfjárframlögum til þess að stuðla að því að slíkur rekstur geti komist á og stuðlað þar með að því að aukin orkusala verði í framtíðinni frá þessu fyrirtæki. Þetta vildi ég að kæmi fram og þess vegna er ég andvígur þeirri brtt. sem hv. 5. þm. Austurl. hefur lagt fram í þessu máli.

Hitt ágreiningsefnið varðar Rafmagnsveitur ríkisins og þann ágóða sem þær hafi af því að selja til Keflavíkurflugvallar. Því er haldið fram að þann ágóða megi ekki taka af Rafmagnsveitunum með því að væntanlegt orkubú eða Hitaveita Suðurnesja tæki við þeim línum sem nú flytja þetta rafmagn inn á Keflavíkurflugvöll gefi í hreinan ágóða 28 millj. kr., eins og fram kom frá hv. 5. þm. Austurl. Í samningum milli Rafmagnsveitna ríkisins og varnarliðsins um sölu á rafmagni til Keflavíkurflugvallar er beinlínis reiknað með því að þessar stofnlínur, sem eru orðnar lélegar og allir vita að eru orðnar lélegar og þarfnast endurnýjunar, verði endurnýjaðar innan skamms og inn í söluverðið á rafmagninu er lagður kostnaður við að endurbyggja þessar línur. Varnarliðið greiðir m. ö. o. fyrirframgreiðslu upp í væntanlegan stofnkostnað þessara lína. Það er svo aftur mál, sem þarf auðvitað að athuga betur, hvort Rafmagnsveitur ríkisins líti á þetta sem hreinan ágóða og noti það almennt í sinn rekstur. Hins vegar er ljóst að þessi samningur er þannig uppbyggður og ef til þess kemur — ég undirstrika: ef til þess kemur — að þessar línur yrðu seldar til annars aðila, hvort sem það er Hitaveita Suðurnesja eða einhver annar aðili, þá hlýtur að þurfa að reikna með því inni í söluverðinu að búið er að greiða inn í rafmagnsverðið svo og svo mikið upp í stofnkostnað væntanlegrar nýrrar línu úti á Reykjanesi, sem yrði þá sennilega 132 kílówatta lína. Þetta finnst mér að við þurfum að hafa mjög glögglega í huga þegar við tölum um þetta og þess vegna er ég jafnframt andvígur þessari brtt. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.

Ég er í megindráttum þeirrar skoðunar að ef stofnað er orkubú á einhverju ákveðnu landsvæði, hvort sem það eru Vestfirðir, Suðurnes eða annars staðar á landinu, þá eigi það orkubú að sitja að rafmagnssölu á öllu sínu svæði en eigi ekki að vera að búta það niður og taka einhverja ákveðna hluta út úr sem taldir eru sérstaklega hagstæðir og láfa öðrum aðilum eftir að halda áfram þeirri sölu. Ég hygg að á annan hátt verði þessum orkubúum ekki komið á fót og þau gætu þá ekki styrkt sig eðlilega sem arðbær fyrirtæki. Það er svo aftur saga út af fyrir sig, sem er rétt að vekja athygli á hér á hv. Alþingi og við hljótum að taka eftir, að það er Alþb. sem vill halda dauðahaldi í ímyndaðan gróða af rafmagnssölu til Keflavíkurflugvallar. Það er atriði sem mér finnst vert að benda á og nauðsynlegt að þm. íhugi.