09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það má mikið vera ef Björn heitinn Halldórsson í Sauðlauksdal vaknar ekki upp í gröf sinni vegna allra þessara umr. um kartöflur í dag. En ekki ætla ég að fara að ræða um Björn heitinn Halldórsson, heldur hitt, að eins og fram hefur komið í umr. virðast menn vera nokkuð fordómafullir hver gagnvart öðrum þegar landbúnaðarmálin ber á góma og í kartöfluumr., eins og hér hefur komið fram.

Ég vil segja frá því, að við hv. þm. Egill Jónsson erum saman í ágætri nefnd, að vísu er það óformlegur hópur enn þá, sem fjallar m.a. um endurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ég geri fastlega ráð fyrir að sölumál matjurta, garðávaxta, komi til meðferðar, eins og önnur mál landbúnaðarins, í þeirri nefnd. Og ég þykist vita að þau atriði sem vikið er að í þessu frv. úr framleiðsluráðslögunum komi ekki síst til umr. í umræddum landbúnaðarhóp.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram. Auðvitað er það skylda okkar að standa að þessum málum á þann veg að reynt sé að sinna óskum neytenda eftir bestu getu. En við verðum í leiðinni að huga að þeirri framleiðslu sem fram fer í landinu sjálfu og gera það upp við okkur hverju sinni með hvaða hætti við viljum sem best stuðla að henni og á hvaða sviðum þjóðin eigi að vera matbjarga. Ég veit að um þetta eru menn í mörgum tilvikum alveg sammála.

Hvort þær breytingar sem hér eru lagðar til stíga hin æskilegu skref skal ég ekki leggja dóm á á þessu stigi. Þó er ég fremur á því að gengið sé til frjálsræðisáttar.

Hv. sjálfstæðismenn hafa verið brýndir í þessari umr. og hvattir til að vinna hratt og vel að umfjöllun málsins í landbn. Ég vil þá endurtaka það sem ég sagði áðan: Ég vonast til þess að þeir fari ekki að rasa um ráð fram og bíði gjarnan eftir því hvað út úr kemur því virðulega nefndarstarfi sem við hv. þm. Egill Jónsson eigum aðild að.