16.05.1984
Neðri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6021 í B-deild Alþingistíðinda. (5390)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að gera nokkrar aths. við það sem hér kom fram í máli hæstv. iðnrh., hv. 4. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykn. áðan varðandi þetta mál.

Það kom í fyrsta lagi fram hjá hæstv. iðnrh. að hann gerir næsta lítið úr umsögn þess aðila sem lögum skv. á að vera aðalráðgjafi ríkisstj. í orkumálum. Hann hafði hér uppi glósur um umsögn Orkustofnunar og orkumálastjóra sem barst iðnn. þessarar deildar á þremur og hálfri blaðsíðu og viðhafði niðrandi ummæli um þessa umsögn stofnunarinnar. Það er nokkuð sérstakt að ráðh. þessara mála skuli telja sig hafa efni á því að kasta úr þessum ræðustóli órökstuddum glósum um helsta lögboðinn ráðgjafa ríkisstj. í orkumálum. Og hann svarar ekki einu orði efnislega röksemdafærslu sem fram kemur í umsögn Orkustofnunar um svo þýðingarmikið atriði sem það hvort aðila sem veitt er einkaleyfi til orkusölu skuli heimilað að fara að hætta fjármagni sínu út í óskyldan rekstur, áhættufyrirtæki sem nýta orkuna, hvort sem það eru iðjuver, eldisfyrirtæki, fiskeldisfyrirtæki eða heilsuræktarstöðvar eða eitthvað annað. Hann hefur ekki fyrir því að koma með nokkur rök í því máli og ætlar bara að stikla yfir það sem Orkustofnun segir í umsögn sinni sem mál sem ekki sé athugunarvert. Hér er um að ræða grundvallaratriði sem löggjafinn þarf að hafa í fullum heiðri að dómi Orkustofnunar. (HBl: Er þetta nú ekki ofsagt?)

Ég vil vekja athygli á því að það er nokkuð sérstakt, það er ekki bara einfalt mál, að veita tilteknum aðilum einokun til starfsemi. Ég hélt nú að hv. þm. Sjálfstfl. gæfu kannske aðeins gaum að því hvað verið er að gera með því að veita einokun til tiltekinnar starfsemi. Það hefur þó mátt heyra það stundum hjá þessum aðilum að þeir væru að finna að því að fyrirtæki fengju slík réttindi og misnotuðu slíkt. Hvers eiga þeir kaupendur orku á Suðurnesjum, hvort sem það er heitt vatn eða rafmagn, að gjalda að búa við að fyrirtæki sem á að selja þeim orkuna geti staðið í óskyldum áhætturekstri sem haft getur mikla þýðingu fyrir þróun orkuverðsins, ef illa tekst til, leitt til þess að þetta einokunarfyrirtæki fari að hækka orkuverðið vegna þess að það hafi tapað á öðrum óskyldum rekstri? Er virkilega stefna hæstv. iðnrh. að heimila einokunarfyrirtækjum í orkusölu í landinu, en iðnrh. veitir leyfi til slíkrar einokunarstarfsemi lögum skv., að fara út í óskyldan áhætturekstur, t. d. í loðnubræðslu á Suðurnesjum, það er komin ein slík þar, heilsuræktarstarfsemi, fiskeldisfyrirtæki eða í magnesíumvinnslu, þar sem þörf er á jarðvarma og raforku og hefur verið til umræðu að hugsanlega risi slíkt stórfyrirtæki upp á Suðurnesjum síðar? Er þetta skoðun ráðh. og vill hann þá ekki gera svo vel að koma hér og rökstyðja hana og skýra hvers vegna hann lætur sér nægja að kasta glósum úr þessum ræðustól, lítillækkandi glósum um helsta lögboðinn ráðgjafa ríkisstj. í orkumálum? Þetta er maðurinn sem stóð í gærkvöld í þessum stól og tilkynnti þjóðinni að hún mætti eiga von á því innan skamms að reist yrðu þrjú álver á Íslandi, þrjú álver. Það voru fregnirnar sem hæstv. ráðh. hafði helst að færa úr þessum stól. Hæstv. ráðh. tók alveg sérstaklega fram að að hann ætlaði sér þar með alls ekki að fara að kögra Íslandsstrendur með köldum málmblendiverksmiðjum þó að boðskapur hans þetta kvöldið væri að hér væri á döfinni að reisa á næstunni þrjú álver; við Eyjafjörð, Straumsvík og Þorlákshöfn, gerið þið svo vel. Það er von að hæstv. ráðh. finni að því þegar lögboðinn ráðgjafi ríkisstj. í orkumálum leyfir sér að senda iðnn., umbeðið, umsögn upp á röskar þrjár bls. um stofnun orkubús á Suðurnesjum, ég hlýt að vekja athygli á því, og hvernig þessi helsti hrossabrestur ríkisstj. gengur fram í sambandi við þessi efni. Hann gengur hér upp í stólinn og sveiflar sínum bresti, þrjú álver, en kemur svo daginn eftir og kastar glósum í helsta ráðgjafa ríkisstj. í orkumálum af því að sá leyfir sér að vara við hroðvirknislega sömdu frv. sem hæstv. ráðh. hefur lagt hér inn á Alþingi og ekki haft fyrir því að leita álits þessa ráðgjafa, þ. e. Orkustofnunar, áður en hann leggur það hér inn í þingið. Þá hefði það ekki komið í þessu formi. Það eru vinnubrögð og málsmeðferð af þessu tagi sem ekki er annað hægt en að mótmæla og ef hæstv. ráðh. hefur áhuga á að koma þessu máli í gegnum þingið ætti hann ekki að ganga fram með þessum hætti.

Ég undirstrika að ég er meðmæltur því að það verði stofnað orkubú á Suðurnesjum til orkuvinnslu og orkudreifingar, en ekkert fram yfir það. Þetta einokunarfyrirtæki á ekki að fara út í óskyldan rekstur. Og það er léttvægur útúrsnúningur þegar hv. 4. þm. Reykv. kemur hér til stuðnings ráðh. og vísar á einhverja klakstöð frá gamalli tíð sem Rafmagnsveita ríkisins hafi komið sér upp við Elliðaárnar eða laxeldi austur í sveitum sem Landsvirkjun átti hlut í að koma á laggirnar sem bætur fyrir bændur. Á sama hátt gæti hv. þm. komið hér og sagt: Landsvirkjun er komin út í landbúnað, komin út í búskap því að hún var að kaupa Eiðsstaði norður í Húnaþingi sem lið í samningum um Blönduvirkjun, sem bætur skv. samningum við bændur. Hvað eruð þið að fárast yfir því þótt veitt sé lagaheimild til orkubús á Suðurnesjum til atvinnurekstrar? Landsvirkjun er komin út í landbúnað norður í Húnaþingi. — Þetta eru rökin sem þessir hv. þm. og hæstv. ráðh. koma með í þessu máli.

Það er vert fyrir hv. þm. að staldra við þegar þannig er reynt að koma hér í gegn máli og þannig reynt að afgreiða réttmæta gagnrýni í sambandi við mikilsvert mál sem varðar neytendavernd í mikilvægum atriðum.

Það er líka ástæða til þess, eins og hér var vakin athygli á af hv. 5. þm. Vestf., að gæta sín í þessu máli þegar hæstv. ráðh. kemur hér og boðar þá stefnu, sem hefur heyrst frá honum áður þó að ekki hafi það verið hér á þinginu svo að ég hafi tekið eftir, að hann ætli sér að stuðla að því að búta niður Rafmagnsveitur ríkisins sem mest, eftir því sem skilja mátti hæstv. ráðh. áðan. Hann nefndi Vesturland, hann nefndi Skagafjörð og Suðurland tók hann undir. Hvaða svæði eru það, hæstv. ráðh., sem hugmyndin er að Rafmagnsveitur ríkisins sinni og hvernig ætlar hæstv. ráðh. að fara með þann rekstur, erfiðasta reksturinn í sambandi við raforkuöflun og raforkudreifingu, þegar búið er að taka frá Rafmagnsveitum ríkisins þau svæði og þá bita sem helst er von til að geta staðið undir einhverjum sæmilegum rekstri? Ég tók eftir því að hæstv. ráðh. nefndi ekki Austurland í þessari upptalningu. En það gætu nú vaknað upp spurningar hjá viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi út af þeirri stefnu sem hæstv. ráðh. er að boða. Vesturland á að taka út úr, Skagafjörð og Suðurland, en þið þarna á Austurlandi eigið að njóta Rafmagnsveitna ríkisins sem þá eru komnar með langerfiðasta rekstrardæmið í sambandi við raforkuöflun og raforkudreifingu. Það er hægt að ganga fram og bjóða álver hér og álver þar og orkubú hér og orkubú þar, en það á eftir að svara mörgum spurningum í sambandi við þau efni og hæstv. ráðh. kemst ekki hjá því að skýra þau efni nánar áður en lengra er haldið.

Þá er það hv. 4. þm. Reykv. Hann virðist ekki hafa hlustað ýkja vel á mitt mál áðan. Hann ætlaði að fara að upplýsa þingheim um að sá hagnaður sem ég greindi frá, sá brúttóhagnaður sem Rafmagnsveitur ríkisins teldu sig hafa haft á síðasta ári af orkusölunni til Keflavíkurvallar, væri brúttóhagnaður og hann endurtók hér það, sem ég hafði greint frá í því efni, hvað væri inni í því dæmi. Hann var ekki að færa nein tíðindi. Hann þóttist vera að leiðrétta mig í þessu efni, en hafði ekki hlustað á mál mitt þar sem ég tók nákvæmlega fram þau atriði sem væru talin inni í þeim samningi sem þarna var um að ræða. Svo fer hv. þm. að kasta glósum, sem ætlaðar eru fyrir Morgunblaðið til að henda á lofti, að Alþb. sé farið að hampa og halda sérstaklega upp á hermangsgróða á Suðurnesjum, það séu tíðindin. Málið snýst ekki um það, hv. þm. og það segi ég líka við hv. 3. þm. Reykn., það snýst ekki um það. Reikningar Rafmagnsveitna ríkisins á liðnum árum eru staðreynd. Það er líka staðreynd að afkoma þess fyrirtækis hefur verið erfiðleikamál. Afkoma þess fyrirtækis hefur ekki verið þannig að hægt sé að hlaupa með léttvægum hætti fram hjá því. Hvernig ætla menn að standa að því að þetta fyrirtæki geti skilað orku til notenda sinna með eðlilegum hætti og án þess að íþyngja þeim kannske í vaxandi mæli frá því sem nú er, miðað við þann mun sem er á gjaldskrám?

Alþb. er ekki að halda hér í neinn hermangsgróða, en þeir sem eru að mæla með því að afhenda raforkusöluna til Keflavíkurflugvallar til Hitaveitu Suðurnesja eru að egna fyrir Suðurnesjamenn enn frekar en orðið er með hermangsgróða. Það er staðreynd málsins.

Hv. 3. þm. Reykn. stiklaði afar léttvægt á þessu máli, það hlýt ég að taka undir með hv. 5. þm. Vestf. Það var satt að segja léttvægur málflutningur. Hann talaði um að hér snerist umræðan um keisarans skegg, það væru alger aukaatriði sem væru hér á ferðinni. En hann fann sérstaklega að því, og það er það eina sem ég sé ástæðu til þess að víkja að úr málflutningi hv. þm., að það skyldi tekið inn af iðnn. að skylt væri að gera samrekstrarsamninga milli þessa orkubús og Landsvirkjunar áður en Hitaveita Suðurnesja, þetta nýja orkubú, færi út í virkjunarframkvæmdir. Það fannst honum ekki skynsamlegt ákvæði.

Ég man ekki betur, hv. þm., en að í lögum um Landsvirkjun sé þetta atriði raunar þegar inni efnislega a. m. k. þó að ég hafi ekki flett upp á því sérstaklega. En telur nú hv. þm. skynsamlegt að gengið sé fram hjá þeim aðila sem nýlega hefur verið lögfest að annast skuli meginraforkuvinnslu og raforkuflutning í landinu og ætla þessu veitufyrirtæki að gerast þar keppinautur í sambandi við virkjanir og að menn leggi út í þá stórfelldu fjárfestingu sem þar er á ferðinni án þess að tryggt sé að um þjóðhagslega arðbæran rekstur sé að ræða, arðbærar framkvæmdir og skynsamlegar út frá orkumarkaðinum í heild?

Hitaveita Suðurnesja er nú sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaga á Suðurnesjum með eignarhlutdeildinni 60% sveitarfélög 40% ríki. Svo virtist sem hv. þm. hefði það ekki fyllilega á hreinu. Ég vek athygli á að þetta frv. opnar fyrir breytingu á þessum eignarhlutföllum og ég nefndi það í iðnn. að mér finnst það áhorfsmál að hafa slíka heimild inni því að ég held að það veiti ekkert af því að ríkið sé með sem eignaraðili og hafi trygga aðild að stjórn þessa fyrirtækis, svo stórt sem það er í sniðum, hafandi hjálpað því á legg á sínum tíma. Ég er þó ekki með brtt. við þetta ákvæði.

Ég tók eftir því að hv. 5. þm. Vestf. gerði sér ljósa grein fyrir því hvað hér er um að ræða með þessum heimildum varðandi söluna til Keflavíkurflugvallar og hann tók undir þann rökstuðning sem ég hafði uppi í sambandi við brtt. mína þar að lútandi. Ég vænti að sem flestir hv. þm. hafi gefið því gaum og ljái því sjónarmiði stuðning.