16.05.1984
Neðri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6030 í B-deild Alþingistíðinda. (5395)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mér finnst það nokkuð hart að fá hér orð í eyra fyrir að vera að vinna hér gegn þessu máli þegar fyrir liggur að ég hef lagt mig fram um að skapa samstöðu um að það næði fram að ganga. Það er megintilgangurinn að stofna umrætt orkubú á Suðurnesjum, og ég hef skrifað undir það meginstefnumið, en leyft mér, eins og tekið er fram í nál. af öllum nm., að áskilja mér rétt til að flytja og fylgja brtt. svo sem tíðkanlegt er. Þegar kemur frá hv. 2. þm. Reykn. staðhæfing af þessu tagi finnst mér það nú vera að kasta steinum úr glerhúsi því hv. þm. sást tæpast á fundum iðnn. þegar þetta mál var til meðferðar, sem voru fleiri en einn og fleiri en tveir til þess að ræða um þetta mikilvæga atriði, og ég veit ekki hvort hv. þm. hefur komið að þessari frv.-smíð. Hún er ekki neinum til vegs sem að henni hefur staðið að mínu mati, eins og frv. upphaflega var úr garði gert.

Ummæli hæstv. ráðh. hér eru gífuryrði í garð Orkustofnunar. Þau eru fest inn í þingtíðindi og þau eru einkar athyglisverð og ekki síður undirtektir hv. 2. þm. Reykn. varðandi umsögn orkumálastjóra um þetta mál. Ég hefði getað skilið að athugasemdir, þó ekki væru stóryrði, féllu um þessa gerð Orkustofnunar ef iðnrh. hæstv. hefði haft fyrir því á undirbúningsstigi málsins að spyrja þennan ráðgjafa sinn álits, þann sem á að vera aðalráðgjafi ríkisstj. í orkumálum, en það liggur alveg ljóst fyrir að það hefur ekki verið gert. Síðan er það merkilegur rembingur, sem kemur fram í því hjá báðum þessum hv. ræðumönnum, hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykn., að ætla Orkustofnun það með sinni ákveðnu umsögn og engan veginn ókurteisri að ætla að grípa fram fyrir hendur Alþingis. Hvar kemur það fram í umræddu áliti að Orkustofnun ætli að fara að segja Alþingi fyrir verkum? Þetta er aldeilis furðulegur málflutningur, aldeilis stórfurðulegur.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja þessa umr., en ég bið menn um að staldra við áður en atkv. eru greidd hér um þetta mál og hugsa sinn gang. Það liggur alveg fyrir, t. d. í málflutningi hv. 2. þm. Reykn., að það er enginn smárekstur sem hann er að hugsa til að hitaveitan gæti orðið aðili að. Hann nefndi hér áðan nýjar atvinnugreinar og iðnað í sambandi við þetta. Það er meginatriðið í sambandi við brtt. mína við c-liðinn að menn átti sig á því að hér er annars vegar fyrirtæki sem fær einkaleyfi til almennrar orkusölu á svæðinu, en jafnframt er verið að opna fyrir möguleika til þess að það verji fjármunum sínum í óskyldan rekstur og það er spurningin um neytendaverndina í þessu máli sem hér er um að ræða. Enginn tekur fram fyrir hendur sveitarfélaga í hvaða atvinnurekstur þau fara, en þessi sveitarfélög eru aðilar að fyrirtæki sem framkvæmdavaldið veitir einkaleyfi og það er það sem mínar athugasemdir og ábendingar lúta að. Ábendingar hv. 4. landsk. þm. voru út af fyrir sig athyglisverðar og ég tel skylt að það verði íhugað við framhaldsmeðferð málsins hvort ekki væri skynsamlegt að finna leið til að takmarka þær hugmyndir sem fyrir liggja í till. meiri hl. nm. um c-lið 2. gr. að takmarka það við tilraunastarfsemi eina og smárekstur henni tengdan. Það er atriði sem ég gæti vel verið reiðubúinn að athuga.

Herra forseti. Ég ítreka að ég er meðmæltur stofnun þessa fyrirtækis að gerðum þeim breytingum sem ég hef lagt til hér og ég vek athygli hv. þm., sem eiga öðrum fremur að gæta hagsmuna dreifbýtisins í sambandi við orkuviðskipti, á því sem felst í þeirri heimild að taka raforkusölu til Keflavíkurflugvallar frá Rafmagnsveitum ríkisins og afhenda þessu fyrirtæki, eins og skilja má að sé vilji meiri hl. n.