16.05.1984
Neðri deild: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6031 í B-deild Alþingistíðinda. (5398)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samgöngunefndir beggja deilda komu saman á fund og fenginn var á fundinn Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari til þess að skýra stöðu mála í þessari deilu. Það kom fram í hans máli að aðilar væru sáttir um eitt og það var að tala ekki saman. Það væri algjörlega þýðingarlaust eins og mál standa nú fyrir sig að reyna að koma á fundum með deiluaðilum. Ég held að nm. hafi verið sammála um að hvaða afstöðu sem menn hafa í svona málum sé ekki um annað að gera þegar svona stendur á en að gripa inn í með þessum hætti.

Eins og sést á þskj. 944 leggur samgn. til að málið verði samþykkt með þeirri einu breytingu að heiti frv. verði frv. til l. um kjaradóm í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða. Undir þetta skrifa allir samgöngunm. Nd. en Kristín Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon skrifa undir með fyrirvara.