16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6034 í B-deild Alþingistíðinda. (5406)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var farið fram á það við, hygg ég, alla flokka hér á þinginu að haldið yrði þannig á málum að þetta frv. gæti fengið sem skjótasta meðferð í gegnum deildir þingsins. Þegar síðan kemur að umr. um málið, 3. umr. hér í deildinni, þá upphefur stjórnarliðið umr. um almennar breytingar á vinnulöggjöfinni. Ég tel þetta í fyrsta lagi smekkleysu miðað við það samkomulag sem gert hafði verið um vinnubrögð í þessu máli milli flokkanna. En í öðru lagi tel ég að í þessum orðum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar felist hótun af hálfu ákveðinna stjórnarþingmanna um það að skerða hinn almenna verkfallsrétt í landinu og að breyta vinnulöggjöfinni í því skyni að þrengja kosti verkafólks og að nota mál af þessu tagi til þess að breyta vinnulöggjöfinni þannig að það komi niður á hinum almenna launamanni í landinu, m. a. hinum almennu verkamönnum.

Ég vil nota þetta tækifæri út af þessum yfirlýsingum fulltrúa Framsfl. í þessum umr. til þess að mótmæla öllum hugmyndum af þessu tagi. Það hefur verið um það samkomulag hér í landinu að vinnulöggjöfinni verði ekki breytt öðruvísi en að um það sé jafnframt samkomulag, m. a. við verkalýðshreyfinguna í landinu. Það væri með ólíkindum ef nú ætlaði ríkisstj. að nota sér þetta mál í 3. umr. til þess að skapa fordæmi og nota það sem rök fyrir því að fara að skerða vinnulöggjöfina. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Er það á dagskrá ríkisstj. að breyta vinnulöggjöfinni þannig að hún þrengi hlut hins almenna verkamanns í landinu? Ég krefst þess að hæstv. forsrh. svari þessari spurningu áður en umr. lýkur til þess að það liggi fyrir hvaða afstaða í ríkisstj. er á bak við ummæti hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Ég óska eftir því að gerðar verði ráðstafanir til þess að kveðja til hæstv. forsrh. í þessu efni. Ef ekki er unnt að ná til hæstv. ráðh. í þessu efni bið ég formann þingflokks Framsfl. að gera grein fyrir því: Er meiningin hjá Framsfl. að nota þetta mál til að ráðast á vinnulöggjöfina í landinu? Ef hæstv. forsrh. er ekki enn fundinn beini ég þessari spurningu til þess hæstv, ráðh. sem flytur málið, hæstv. samgrh.