16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6037 í B-deild Alþingistíðinda. (5416)

328. mál, sala hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbanka Íslands

Frsm. minni hl. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 842 er nál. minni hl. iðnn. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stefna núv. ríkisstj. er að selja sem flest fyrirtæki sem ríkissjóður á hlutdeild að og það án tillits til viðskiptalegra sjónarmiða að því er virðist. Ljóst dæmi um þetta er fyrirliggjandi frv. um sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbanka Íslands, en ríkið á nú um 27% af hlutafé bankans. Nær alltaf hefur verið greiddur arður af þessu hlutafé til ríkisins og hefur hann numið 5% á undanförnum árum. Þá hefur hlutaféð verið fært upp reglulega skv. vísitölu, t. d. um 71% á árinu 1983.

Samstarf ríkisins og annarra hluthafa að bankanum hefur gengið vel og snurðulaust frá stofnun bankans fyrir röskum 30 árum og ekki hafa heyrst neinar kvartanir frá starfsmönnum bankans vegna þess. Þetta samstarf hefur verið bankanum til styrktar og ríkinu til gagns, m. a. hefur bankinn veitt stjórnvöldum margháttaðar upplýsingar um þróun lánamála og aðrar hagstærðir varðandi iðnaðinn í landinu á þessu tímabili. Þá hefur Iðnlánasjóður verið í vörslu Iðnaðarbankans frá stofnun bankans og nú liggur frv. fyrir Alþingi um að sameina Iðnrekstrarsjóð Iðnlánasjóði. Starfsemi Iðnrekstrarsjóðs varðar iðnþróun í landinu þar sem sjóðnum er ætlað að veita styrki og áhættulán, svo og ábyrgðir vegna nýmæla og þróunarstarfsemi í iðnaði. Það er tvísýnt að leggja vörslu slíks fjármagns í hendur einkabanka og mælir það með öðru gegn þessu frv. um sölu á hlut ríkisins í Iðnaðarbankanum.

Ekki er hægt að fallast á að sölustefna núv. ríkisstjórnar sé markmið í sjálfu sér og taka ber afstöðu til aðildar ríkisins að fyrirtækjum og atvinnurekstri hverju sinni. Engin efnisleg rök hafa komið fram af hálfu þeirra sem flytja þetta frv. um sölu á hlutabréfum, og engin leið er að fallast á hagkvæmni þess að selja hlutabréf í banka sem er í góðu gengi og gefur arð og lofar góðu í framtíðinni.

Minni hl. iðnn. leggur því til að frv. þetta verði fellt en áskilur sér rétt til að standa að og flytja brtt. við frv.“ Undir þetta nál. ritar auk mín hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.