16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6038 í B-deild Alþingistíðinda. (5421)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum. Meiri hl. sjútvn. Ed. gerði breytingu á 1. gr. frv. sem meiri hl. sjútvn. Nd. hefur fallist á. 1. gr. frv. hljóðar því svo eftir þá breytingu:

„Þegar fiskiskip selur afla í innlendri höfn, eða athendir afla til vinnslu án þess að sala fari fram, skal fiskkaupandi eða fiskmóttakandi greiða útgerðarmanni eða útgerðarfyrirtæki sérstakan kostnaðarhlut útgerðar er nemi 29% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Hið sama gildir þegar fiskiskip setur eða afhendir afla sinn öðru skipi. Þessi sérstaki kostnaðarhlutur kemur ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna. Þó skulu 4% af þessum kostnaðarhlut koma til hlutaskipta og aflaverðlauna til skipverja á fiskiskipum, sem eru 240 brúttórúmlestir eða minni, en 25% ekki.

Frá og með 1. febr. 1984 skulu þó 2% af þeim 29%, sem um getur í 1. mgr., koma til hlutaskipta og aflaverðlauna til skipverja á fiskiskipum, sem eru yfir 240 brúttórúmlestir, en 27% ekki, og 6% skulu koma til hlutaskipta og aflaverðlauna til skipverja á fiskiskipum sem eru 240 brúttórúmlestir og minni en 23% ekki.“

Sjútvn. Nd. athugaði frv. og kvaddi Ingimar Einarsson frá sjútvrn. á sinn fund til að veita upplýsingar um málið. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á 1. gr. frv. og ég hef kynnt. Undir meirihlutaálit sjútvn. skrifa Stefán Guðmundsson, Ingvar Gíslason, Halldór Blöndal, Gunnar G. Schram og Friðrik Sophusson.