16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6042 í B-deild Alþingistíðinda. (5423)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að skreiðarverkendur hafa átt við mikla erfiðleika að stríða og það hefur komið glögglega í ljós að verulegur halli er á þessari framleiðslugrein. Í almennum umr. hafa held ég engir dregið í efa að svo sé. Það hafa verið gerðar ýmsar tilraunir hér í þinginu til að fá Alþingi til að taka tillit til þessa þegar upptaka færi fram á gengismun á skreið. Þannig var flutt till. í Ed. þingsins um að ekki yrði tekinn gengismunur af skreið, en hún náði ekki fram að ganga.

Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 841 um að ekki verði þó tekinn meiri gengismunur af skreið en sem nemur 151 millj. kr. Skýringin á þessari tölu er ákaflega einföld. Í þeim áformum sem þegar hafa verið birt um ráðstöfun á gengismun á skreið hefur verið reiknað með því að 151 millj. kr. væru til ráðstöfunar. Nýjustu áætlanir um það hversu há upphæðin muni vera benda hins vegar til að þessi upphæð muni nema 196 millj. kr. ef ég man rétt.

Þessi till. fjallar sem sagt um það að menn láti staðar numið við að taka gengismun af skreið þegar sú upphæð er komin, sem þegar hafa verið teknar ákvarðanir um hvernig ráðstafa skuli, en haldi ekki áfram upp í 200 millj. kr. Hún gerir enn fremur ráð fyrir því að sá mismunur, sem þarna er upp á hartnær 50 millj. kr., renni þá í skreiðardeild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og komi með þeim hætti greininni í heild til góða. Þessi till. er sem sagt flutt vegna þess að ekki hefur takist að fá samþykkta till. um að taka ekki gengismun af skreið. Hún er viðleitni í þá átt að sýna lit í því að íþyngja ekki þessari grein frekar en orðið er með þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar.

Ég þarf ekki að fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Miðað við allar aðstæður og ef ekki fæst samþykkt sú till. sem endurflutt hefur verið hér um að taka ekki gengismun af skreið, sem hv. síðasti ræðumaður er flm. að og talaði fyrir hér áðan, tel ég að hér megi bjarga í horn með því að samþykkja brtt. á þskj. 841.