16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6045 í B-deild Alþingistíðinda. (5437)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er, eins og hv. þm. Svavar Gestsson tók fram, mjög erfitt að sjá það nákvæmlega hvaða breytingar verða af aðgerðum sem þessum. Í fyrsta lagi má spyrja: Hvaða afleiðingar hefði það haft í för með sér ef aðgerðirnar hefðu ekki átt sér stað? Ég held að það megi fullyrða að mjög mikill hluti af íslenska fiskiskipaflotanum hefði þá stöðvast og þá hefðu tekjur sjómanna orðið harla litlar. Hins vegar urðu þessar aðgerðir til þess að hægt var að halda flotanum gangandi eins og sagt er. Það kom í ljós á haustdögum að þær tekjuáætlanir, sem gerðar voru fyrir sjávarútveginn, voru of háar og aflabrögðin urðu minni á árinu 1983 en gert hafði verið ráð fyrir.

Hins vegar liggur það fyrir að sú kostnaðarhlutdeild, sem þarna var tekin upp, var 29% á togurum og 25% á minni skipum. Á móti féllu niður, eins og hv. þm. tók fram, útflutningsgjöld, þannig að áhrifin voru minni. Sú hækkun sem kom til sjómanna var sú sama og til annarra launþega í landinu, eða 8% ef ég man rétt, en 12.3% til þeirra sem voru á fiskiskipum undir 240 brúttólestir. Því var gætt samræmis í þessari lagasetningu og þeirri lagasetningu sem fór fram um afnám vísitölubóta og hækkun launa.

Að sjálfsögðu er hægt að reikna út hvaða fjármuni hér er um að ræða. Ég tel hins vegar að slíkir útreikningar þjóni engum tilgangi þótt ég geti að sjálfsögðu beðið Þjóðhagsstofnun að framkvæma þá. En það eru í raun og veru upplýsingar sem skipta eigi máli vegna þess að þessir fjármunir eru því miður ekki til og afkoma útgerðarinnar er mjög slæm. Það er rétt að upplýsa það að við fiskverðsákvörðun núna í upphafi árs — og þær tölur hafa verið birtar hér í þskj. — var gert ráð fyrir verulegum halla í útgerð og þær breytingar, sem þar hafa orðið síðan þær ákvarðanir voru teknar, gefa tilefni til þess að ætla að afkoman sé nokkuð svipuð og þá var gert ráð fyrir en þó er hún afar mismunandi eftir því hvaða skip eiga í hlut. Að því er fiskvinnsluna varðar má gera ráð fyrir að afkoman sé heldur lakari eða svona 1–2% lakari en gert var ráð fyrir við fiskverðsákvörðun.

Ég veit ekki hvort þetta svarar í einhverju fsp. hv. þm. en ég er því miður ekki með gögn hér undir höndum því ég vissi ekki um að hann mundi bera fram þessa fsp. En ég get að sjálfsögðu reynt að koma til hans þeim gögnum sem liggja fyrir og öðrum þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun er áreiðanlega fús til að koma á framfæri eftir því sem óskir þm. eru.