16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6047 í B-deild Alþingistíðinda. (5441)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir góðar undirtektir við þá beiðni sem ég lagði fram áðan. Hann tók þannig til orða að útreikningar eins og ég bað um þjónuðu engum tilgangi. Ég held að það sé kannske ekki alveg rétt. Ég er þeirrar skoðunar að þetta myndi upplýsa nokkuð um þær ráðstafanir sem gerðar voru í fyrravor. Það er ekki nokkur vafi á því að brýn nauðsyn var á að gera ráðstafanir. Spurningin var um það hversu langt átti að ganga og hvernig. Ég held því að það sé mjög gott að slíkar upplýsingar komi fram.

Í umr. um þessi mál og þ. á m. gengismuninn hefur komið fram sú hugmynd frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni að vextir af gengismun verði notaðir til þess að tryggja nauðsynlegar úrbætur í öryggismálum sjómanna. 30. mars s. l. skipaði hæstv. samgrh. nefnd til þess að fjalla um þau mál. Nefndin beindi þeirri beiðni til hæstv. ríkisstj. að hún kannaði hvort unnt væri að taka þessar vaxtatekjur af gengismun í þessu skyni.

Í tengslum við þessa umr. um gengismun og vegna þess að kannske er ekki við því að búast að miklar umr. verði um hann hér á næstunni vildi ég leyfa mér að inna hæstv. samgrh. eftir því hvernig hann hugsar sér að taka á þessari beiðni nefndarinnar sem fjallar um alla þætti öryggismála skipa og áhafna þeirra, þar með talin menntun og þjálfun áhafna. Auk þess er nefndinni ætlað að gera till. um nauðsynlegar endurbætur í öryggismálum sjómanna og till. um fjármögnun slíkra aðgerða. Mér þætti vænt um ef hæstv. samgrh. sæi sér fært að greina frá því hvernig ríkisstj. hyggst taka í þessa till. nefndarinnar sem er upphaflega komin frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni og hann hreyfði í umr. um þessi mál í Sþ. fyrir nokkrum vikum.