16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6048 í B-deild Alþingistíðinda. (5442)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að Pétur Sigurðsson skrifaði nýlega bréf fyrir hönd þeirrar nefndar sem hann gat um og á að fjalla um öryggismál sjómanna. Þar bendir hann á þessa samþykkt nefndarinnar, að hún fái vexti, þ. e. gengismun, sem fjármagn til þess að vinna að þessum þætti. Ég var fjarverandi um hríð og hef hugsað mér að leggja þetta bréf fyrir ríkisstj. Hvort það verður þetta atriði, það er vitaskuld mikið undir sjútvrh. að sækja, hvernig hann tekur þeirri hugmynd, en ég hef ekki komið því við að ræða það frekar.

En ríkisstj. ákvað að skipa þessa nefnd og ekki verður komist hjá því að hún fái fjármagn til umráða til þess að sinna sínu verkefni. Persónulega er ég hlynntur því ef það brýtur ekki í bága við það sem sjútvrh. hefur hugsað sér en um það vil ég á þessu stigi ekki fullyrða, en þá verður að leysa það mál með öðrum hætti.