09.11.1983
Neðri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna jákvæðum undirtektum félmrh. og ýmissa þm. við þetta frv. Það vekur óneitanlega vonir um góðan framgang.

Mörgum finnst við konurnar setja of ákveðið jafnaðarmerki á milli láglaunahópa og kvenna. Mér hefur heyrst örla á þeim sjónarmiðum í þessari umr. og eiginlega meira en örlað, það er jafnvel talað um „apartheid“. Það er rétt að okkur verður tíðrætt um kjör kvenna, enda er okkur kappsmál, mikið kappsmál að bæta kjör þeirra, rétta hlut þeirra hér í þessu þjóðfélagi. Við erum ekki í nokkrum vafa um að láglaunahóparnir eru að miklum meiri hluta skipaðir konum og við höfum ýmislegt fyrir okkur í því.

Þótt engin heilstæð könnun hafi verið gerð um launakjör í þjóðfélaginu þá gefa ýmsar minni kannanir til kynna hvert ástandið er. Til dæmis má nefna könnun Jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar 1981, en samkvæmt henni voru konur 72% þeirra sem vinna ófaglærð störf á vinnumarkaðnum en karlar aðeins 28% af þessum lægst launaða hópi þjóðfélagsins. Kjararannsóknarnefnd hefur um nokkurt árabil kannað vinnutíma og laun hjá ýmsum starfshópum og þær kannanir hafa leitt ótvírætt í ljós að konur raðast í lægstu launaflokkana. Þessar kannanir hafa enn fremur sýnt að yfirborganir eru áberandi miklu meiri til karla en kvenna. Vinnumarkaðskönnun Framkvæmdastofnunar ríkisins fyrir árið 1981 leiddi í ljós að meðallaun karla eru um 52% hærri en meðallaun kvenna. Það er einfaldlega þetta sem við erum að tala um.

Ástæður fyrir mismun á meðallaunum kvenna og karla eru vafalaust margvíslegar eins og hér hefur reyndar eitthvað komið fram. Við skulum þó vona að það finnist ekki ýkja mörg dæmi lengur um brot á lögunum, sem kveða á um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, þótt allir viti reyndar að fram hjá þeirri lagagrein er reynt að komast með því að skýra sömu störf einfaldlega mismunandi nötnum. Þar koma skýrast fram hin hefðbundnu sjónarmið í garð kynjanna. Yfirborganir, yfirvinna og mismunandi menntun skipta vafalaust einnig umtalsverðu máli, svo og það að konur eru í minna mæli yfirmenn og stjórnendur á vinnustöðum, en ástæður þess þáttar eru áreiðanlega margvíslegar. Ég nefni minni menntun kvenna. ójafna foreldraábyrgð, ósamfelldan skóladag barna, tvöfalt vinnuálag vegna heimilisstarfanna, hlutastörf kvenna o.s.frv. Þetta ástand endurspeglar e.t.v. fyrst og fremst staðlaða og úrelta skilgreiningu á fyrirvinnuhugtakinu. Flestar þeirra kvenna sem vinna utan heimilis nú til dags gera það ekki til að drepa tímann, heldur blátt áfram af lífsnauðsyn. Þær verða að gera það hvort sem þær vilja eða ekki, þær hafa ekkert val. Ég minni á að 1. des. s.l. voru einstæðar mæður með börn á framfæri 5 710 hér á landi. Þessar konur og aðrar eru orðnar langþreyttar af því að berjast í bökkum sem annars flokks þegnar. Þær láta ekki lengur bjóða sér þessi lágu laun. Nú í haust hafa verið haldnar tvær ráðstefnur um kjaramál kvenna. Þær hafa báðar verið fjölsóttar og það er greinilega hugur í konum að taka málin í eigin hendur, enda eru þær búnar að sjá að þetta hefst ekki með hógværðinni.

Einn ræðumanna í umr. um þetta frv., það mun hafa verið hv. 10. þm. Reykv., sagði að ekki ætti að gera konur að fórnardýrum út af fyrir sig. Það sem við ættum að gera væri að bæta stöðu konunnar, bæta samkeppnisaðstöðu hennar til að taka þátt í hinni nýju þróun sem ætti sér stað, færa konur upp úr láglaunahópunum inn í sérhæfðu hópana og gefa þeim aukna og betri möguleika. Og ég skildi hann eiginlega svo, og raunar fleiri sem hafa talað hér, að hann teldi bætt kjör láglaunahópanna ekki sérstakt kvennabaráttumál. Sem sagt, að okkur væri nær að vinna að bættri aðstöðu kvenna til menntunar svo þær ættu meiri möguleika á að komast í betur launuð störf.

Svo sannarlega er ekki vanþörf á að bæta aðstöðu kvenna til menntunar og aðstöðu þeirra á öllum sviðum. Og að því viljum við að sjálfsögðu vinna. En slík lausn ein og sér er ekki nógu góð. Slík lausn væri e.t.v. af ýmsum talin karlmannleg og viturleg, svo notað sé orðalag eins virðulegs þm. það var víst hv. 2. þm. Reykn. sem notaði þetta orðalag í umr. nýlega og átti þar við ályktun Verkamannasambands Íslands frá s.l. vetri um nauðsyn þess að draga úr verðbólgunni. Slík lausn væri e.t.v. karlmannleg en ekki viturleg.

Það sem við þurfum að gera er að endurmeta láglaunastörfin, virða þau til hærri launa. Vandinn er ekki fyrst og fremst sá að þeir sem skipa láglaunahópana þurfi greiðari aðgang að þeim störfum sem gefa meiri tekjur í aðra hönd. Vandinn er fyrst og fremst sá að láglaunastörfin eru ekki virt að verðleikum. Þessi störf þarf að vinna, þau eru nauðsynleg. Vandinn er fyrst og fremst fólginn í því verðmætamati sem lagt er til grundvallar þegar ákvörðuð eru laun fyrir hin ýmsu störf. Við þurfum nýtt verðmætamat. Ef þetta frv. verður að lögum, sem ég vona, tel ég það skref í rétta átt til þess að ná fram breyttu verðmætamati.