16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6056 í B-deild Alþingistíðinda. (5474)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. 1. minni hl. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. iðnn. á þskj. 914, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í þessu frv. til l. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði er aðeins um að ræða Lítinn hluta þess samkomulags sem samninganefnd um stóriðju og fulltrúar fyrirtækjanna Elkem og Sumitomo hafa gert með sér og undirritað var 6. apríl s. l. Frv. snertir aðeins fjármögnunarþátt samninganna, en afstaðan til þess hlýtur að mótast af efnisþáttum samninganna í heild. Meginröksemdin fyrir stóriðjurekstri hér á landi hefur verið sú að slíkt sé nauðsynlegt til að nýta alla þá orku sem að öðrum kosti streymdi til sjávar óbeisluð í fallvötnum landsins. Ef ástæðan er sú að koma þurfi orku landsins í verð má undarlegt heita að ævinlega þurfi að borga með orkunni til fyrirtækja, sem reist eru til að nýta hana, að því er sagt er. Hið lága verð á Íslandi á raforku til stóriðju er orðið frægt víða um heim, rétt eins og hið ódýra vinnuafl sem hér er fyrir hendi, svo sem útlendum stóriðjuhöldum er óspart bent á um þessar mundir.

Í samkomulagi stóriðjunefndar við Elkem og Sumitomo er ekki náð fram neinni hækkun á orkuverði til járnblendiverksmiðjunnar. Hins vegar er ákvæði um að gerður verði viðbótarsamningur um sérstakar greiðslur ofan á gildandi orkuverð, þegar tiltekinni arðsemis- og eiginfjárstöðu verði náð hjá félaginu, í formi skiptingar milli þess og Landsvirkjunar á umframágóða verksmiðjunnar.

Svo sem segir í grg. með frv. hefur dregið úr þrengingum verksmiðjunnar á síðustu mánuðum og er jafnvel útlit fyrir að fyrirtækið nái hallalausum rekstri á yfirstandandi ári.

Síðan segir í grg.: „Vandinn er þó ekki úr sögunni þar sem enn ríkir lægð í stáliðnaði víðast hvar í heiminum og afturkippur gæti komið í þann bata sem orðið hefur á járnblendissviðinu.

Ástæða er því að ætla að núverandi hluthafar, annar eða báðir, gætu enn þurft að bregðast við vanda félagsins á einhvern hátt, hvort sem þriðji hluthafinn kæmi til skjalanna eða ekki, með auknum framlögum eða ábyrgðum.“

Vandinn er sem sagt að öllum líkindum ekki úr sögunni þó að sú neyðarráðstöfun, sem þetta frv. hljóðar upp á, verði gerð. Þess vegna er engin ástæða til að þeirri arðsemis- og eiginfjárstöðu, sem talað er um í samkomulaginu, verði náð svo að hægt verði að hækka raforkuverð til fyrirtækisins. Það er því ljóst að almenningur á Íslandi á að halda áfram að greiða niður orkuna til þess fyrirtækis eins og hann hefur alla tíð gert. Þess er enn fremur að geta að almenningur má eiga von á töluverðum hækkunum á raforkuverði á næstunni því að fram kom á ársfundi Landsvirkjunar 27. apríl s. l. að nauðsynlegt væri að hækka orkuverð til almenningsveitna um 5% á þessu ári.

Á grundvelli þess að í samkomulaginu við Elkem og Sumitomo er ekki sjáanleg nein marktæk tilraun til að hækka raforkuverð til þessa íslensk-erlenda stóriðjufyrirtækis á sama tíma og taka á fé íslenskra skattborgara til að reyna að reisa við fjárhag þess, leggur 1. minni hl. iðnn. til að þetta frv. verði fellt.

Alþingi, 15. maí 1984.

Kristín Halldórsdóttir.“