16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6060 í B-deild Alþingistíðinda. (5476)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og tel mér skylt að gera nokkra grein fyrir því í hverju fyrirvari minn er fólginn. Ég hef haft þá skoðun að hér hafi verið frá fyrstu tíð um vandræðafyrirtæki að ræða. Allt frá því að Magnús Kjartansson fyrrv. iðnrh. hóf máls á byggingu þess hefur mér sýnst að ýmsir annmarkar væru ljósir á þessu fyrirtæki. Ég hygg þó að hér sé bryddað upp á skárra fyrirkomulagi en verið hefur og þess vegna mun ég styðja lögfestingu þessa frv. Japanir hafa ekki áður tekið þátt í atvinnulífi á Íslandi og það er e. t. v. þýðingarmikið skref sem nú er stigið þegar þeir með nokkrum hætti ganga hér á land. Ég hef, eins og ég sagði áðan, aldrei verið bjartsýnn á framtíð þessarar verksmiðju og ég vísa til afstöðu minnar við lagasetninguna þegar Union Carbide samningurinn var löggiltur hér á Íslandi og síðan þegar Elkem samningurinn var lögfestur. Ég vísa til Alþingistíðinda og því miður hef ég reynst sannspár.

Allir þeir annmarkar sem ég benti á á samningnum og allir þeir gallar sem ég taldi upp hafa komið fram. En tapið hefur verið enn þá meira en mér datt í hug í svartsýni minni fyrir 7–8 árum síðan. Ég varð alveg sannfærður um það þegar Unlon Carbide flúði þetta fyrirtæki og keypti sig út úr þeim samningi, sem það var búið að gera við okkur og við búnir að lögfesta á Alþingi, að nú væri ekki feitt á stykkinu og ekki mikil fjárvon af þessu fyrirtæki. Það er von manna að lögfesting þessa frv. og aðild Sumitomo að fyrirtækinu styrki markaðs- og fjárhagsstöðu Járnblendifélagsins „til varanlegrar frambúðar“ eins og stendur í athugasemdum við lagafrv. Ég held að ekki sé um annað að ræða en breyta þessum skuldum, sem safnast hafa gegnum árin við þetta fyrirtæki, í hlutafé. Elkem hefur hins vegar, skv. því sem segir í athugasemdum með frv. kosið að verjast frekari áhættu í þessu efni með því að minnka hlut sinn í Járnblendifélaginu, en ekki er ástæða til þess að túlka það sem neina uppgjöf gagnvart verksmiðjunni, heldur má ætla þvert á móti að rekstrargrundvöllur hennar verði traustari en nokkru sinni, segir hér í aths.

Það er sýnt að með þessum samningi, sem hér er verið að lögfesta, sem hér er verið að byggja á, er hægt að losna við 20 þús. tonn af framleiðslu verksmiðjunnar. En eftir stendur þó því miður að gjald fyrir raforku er allt of lágt til þessa fyrirtækis. Við erum ekkert sérstaklega sælir með gjaldið fyrir raforkuna til ÍSALs, sem eru 28 eða 29 aurar íslenskir fyrir hverja kwst., og okkur finnst höfuðnauðsyn á að hækka a. m. k. um helming þetta rafmagnsgjald ÍSALs. En járnblendiverksmiðjan greiðir einungis 21 íslenskan eyri á kwst. að meðalverði. Það er ekki gott fyrirkomulag, það er afleitt fyrirkomulag, þegar það kostar 70 aura eða eitthvað þar í kring að framleiða kwst. í nýjum virkjunum. Þetta er ekki búmannleg ráðstöfun á orkunni.

Það eru ákvæði í samningum þar sem gert er ráð fyrir sérstökum samningi við Landsvirkjun um viðbótargreiðslur ofan á gildandi orkuverð þegar tiltekinni arð- og eiginfjárstöðu járnblendiverksmiðjunnar er náð. Því miður held ég að þessi tilteknu gróðamörk járnblendiverksmiðjunnar séu alllangt undan en vonandi verður gróði félagsins einhvern tíma nægur til þess að Landsvirkjun fái eðlilegt verð fyrir orkuna. Ég hefði talið réttara og eðlitegra að prenta þennan samning orðréttan sem fskj. með frv. Því miður hefur það ekki verið gert. Ég hef hann að vísu í höndum en ég hefði kosið að hann væri ítarlegar útfærður en hann er á þeim bréfum sem ég hef. Ég hefði getað hugsað mér að þar væru færri endar lausir. T. d. eru skilgreiningar ekki fullkomnar í samningnum og ég get ekki stillt mig um að lesa hér nokkrar setningar. Orðin „skuld við réttmætishlutfall, nettóhagnaður, umframhagnaður og uppsafnað hlutafé ber að skilgreina nánar milli aðilanna og Landsvirkjunar innan tímamarka 14. mgr.“ svo sem þar segir. Ég hefði kunnað betur við að vita hvað „skuld við réttmætishlutfall“ þýðir. Ég viðurkenni að ég hef ekki hugmynd um hvað er „skuld við réttmætishlutfall“ og að því leyti geng ég kannske í blindni.

Ég hef oft haldið því fram að nauðsynlegt sé að virkja orku fallvatna okkar og við þurfum að stefna að því og reyna að koma þeirri orku í skikkanlegt verð. En ég hef líka haldið því fram að ekki væri rétt að virkja hraðar en viðunandi markaður fáist fyrir orkuna. Við höfum ekki efni á því að virkja bara til þess að skapa atvinnu við virkjunarframkvæmdir og við höfum ekki efni á því að borga með raforkunni. Helmingur okkar gífurlegu erlendu skulda er vegna orkuframkvæmda og reyndar meira en helmingur. Erlendar skuldir eru að sliga okkur og það er ekkert sem ógnar afkomu þjóðfélagsins meira núna en þessar erlendu skuldir sem, eins og ég sagði áður, eru að meira en helmingi orðnar til vegna orkuframkvæmda. Margar þessar orkuframkvæmdir hafa verið nauðsynlegar og fullkomlega réttmætar og sparað okkur stórfé. En þetta eru dýrar framkvæmdir og við verðum að vinna að þessu af fyrirhyggju.

Dagblaðið birti í dag viðtal við hæstv. iðnrh: í kjölfar þeirra stórvirkja sem hann vann hér í þessum ræðustól í gærkvöldi þegar hann byggði þrjú álver og eina kísilmálmverksmiðju í eldhúsdagsumr. sem útvarpað var. Ég vil með leyfi forseta lesa forsíðufrétt úr DV miðvikudaginn 16. maí. Hún er prentuð í lit og yfirskriftin er: „Þrjú álver og kísilmálmver. Straumsvík, Eyjafjörður, Þorlákshöfn, Reyðarfjörður.“

Hefst nú lesturinn, þetta er 16. maí:

„Á næstu vikum standa iðnrh. og samninganefndir í stóriðjumálum í ströngu. Funda með Alusuisse eftir viku, með Alcan í júní og Alcoa í júlí, þar sem jafnvel tvöföldun álversins í Straumsvík og ný álver í Eyjafirði og í Þorlákshöfn verða til umr. Elkem-menn og fleiri koma út af kísilmálmveri.

Það er í myndinni núna að ræða við Alusuisse um 50% stækkun í Straumsvík 1988 og aftur 50% 1990–91. Ef Alcanforstjóranum líst á Eyjafjarðardæmið, þarf að hafa eitthvað fyrir Alcoa og þá hef ég Þorlákshöfn í huga. Það bíða þrjár virkjanir fullhannaðar syðra“, segir Sverrir Hermannsson iðnrh.

„Þetta er allt mikið mál og núna, þegar menn eru farnir að tala af viti um orkuverð sem nægir fyrir framleiðslukostnaði orkunnar“ — Þetta var gott hjá iðnrh. — „kemur þetta allt til álita.“ — Nú er ég alveg orðinn sammála, en nú víkur aftur sögunni til hæstv. iðnrh. — „En þetta er margra ára verkefni og ljóst að fyrst þarf að gera flókna samninga vel úr garði og síðan líða ár þangað til ný átver rísa.

En það má þó hugsa sér að hraða þessu, það kæmi jafnvel til greina að semja við þá um allt saman, bæði orkuframkvæmdirnar og álverin, þótt við höfum ekki hugsað okkur þann hátt á hingað til,“ segir ráðh.“

Þarna ýjar hæstv. iðnrh., herra forseti, að fyrirkomulagi sem hann hefur ekki orðað áður í ræðuformi síðan hann varð iðnrh. Hann flutti hins vegar, ef ég man rétt, þáltill. sem óbreyttur þm. Austurlands um að láta útlend stóriðjufyrirtæki virkja fallvötnin. Ég lýsi ekki hér eða nú stuðningi við áætlanagerð ráðh. nema að því leyti sem ég tel að hann eigi að tala af viti um orkuverð sem nægir fyrir framleiðslukostnaði orkunnar og þá komi þetta kannske til álita. En ef hann byggir þær samt, þrátt fyrir að ég komi ekki til með að hjálpa honum við það, þá held ég að það sé enginn annar kostur en sá sem hann hér ýjaði að, að afhenda bara fallvötnin því að við höfum ekki efni á að borga með öllum þessum verksmiðjum. Við höfum alveg nóg með þær sem fyrir eru.

Við erum í dag að reyna að klóra í bakkann varðandi þetta dæmalausa fyrirtæki á Grundartanga. Ég tel að enginn annar kostur sé fyrir hendi en að standa að afgreiðslu þessa máls og samþykkja frv. og það sé skárri kostur en að loka verksmiðjunni. Ég mun því greiða frv. atkv. mitt en vildi, herra forseti, gera þessa grein fyrir afstöðu minni.