16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6063 í B-deild Alþingistíðinda. (5477)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Um mál þetta mætti að sjálfsögðu margt segja ef horft væri um öxi. En það er kannske ekki ástæða til þess að hafa um það mörg orð. Það voru viðhöfð mörg orð um fyrirtækið þegar það hljóp af stokkunum. Afstaða Alþb. hefur verið blendin í þessu máli frá upphafi vega og þeir hafa látið ýmiss konar athugasemdir falla. Ég man ekki betur en hv. 5. þm. Austurl. væri harla glaður og hress þegar hann vígði verksmiðjuna fyrir nokkrum árum. Og þá var lokið miklu lofsorði á hve vel væri þar búið að verkamönnum og önnur aðstaða góð.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur jafnan haft allt á hornum sér þegar þessa starfsemi hefur borið á góma. Það kemur því ekkert á óvart þó að hann kalli það vandræðafyrirtæki eða dæmalaust fyrirtæki o. s. frv. Hann segir að allar spár sínar hafi ræst sem hann viðhafði í öndverðu um fyrirtækið. Ég man ekki nákvæmlega frá orði til orðs hvað hann lét sér þá um munn fara. En það er ósköp eðlilegt að hann nefni þessa verksmiðju nú vandræðafyrirtæki sem veitir 150 manns góða og örugga atvinnu og býr vel að sínu fólki. (PP: Það hefur nú kostað okkur svolítið.) Já, það er rétt. Þetta fyrirtæki hefur ekki gengið svo sem skyldi á undanförnum árum. En hið sama má segja um mörg önnur fyrirtæki hér á landi á vissum tímum og atvinnuvegi okkar yfirleitt. En það hefur þó a. m. k. komið í ljós að landar okkar kunna góð skil á þeim verkum sem þeir hafa þarna þurft að leysa af hendi þó að mörg þeirra hafi verið ný fyrir þá.

Það má svo kannske geta þess í leiðinni að við þá endurskipulagningu sem verið er að gera á þessu fyrirtæki lagast gjaldeyris- og skuldastaða landsins þó nokkuð. Það má a. m. k. geta þess.

Ég leyfi mér að þakka hæstv. iðnrh. fyrir það að hann hefur látið hendur standa fram úr ermum í þessu máli. Ég sé ekki annað en að við þær umbætur sem nú er verið að gera séu að verða þáttaskil í starfsemi fyrirtækisins. Við höldum að sjálfsögðu áfram að vinna þar með frændum okkar Norðmönnum þó að önnur fjarlæg þjóð sé tekin inn í þennan félagsskap, þjóð sem við höfum að vísu minni kynni af, en samt þó nokkur í seinni tíð. Ég ætla að leyfa mér að vænta þess að með þeim tillögum, sem hér er verið að ræða um og vinna að, verði þessu atvinnufyrirtæki borgið til frambúðar.