16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6067 í B-deild Alþingistíðinda. (5479)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. 1. minni hl. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir að vekja athygli mína á fyrirætlunum hæstv. iðnrh. sem ég hafði nú ekki heyrt af þótt e. t. v. megi undarlegt heita úr því sagt er að þær hafi komið fram hér í útvarpsumr. í gærkvöld. En svo vildi til að ég gat ekki verið hér viðstödd né heyrt í útvarpi eftir kl. 10 í gærkvöld og vegna samfelldra nefnda- og fundastarfa í allan dag hef ég hreint ekki litið í dagblöð. En ef þetta er allt saman rétt eftir haft er hér um miklar fréttir að ræða og vildi ég aðeins ræða þær.

Við kvennalistakonur höfum margsinnis lýst yfir andstöðu okkar við frekari uppbyggingu stóriðju hér á landi, þótt mér þyki rétt að láta koma hér fram að ég tel ekki ráðlegt að leggja niður þær verksmiðjur sem fyrir eru, og þar sem hv. þm. Páll Pétursson kvaðst fremur vilja þann samning sem um ræðir við Elkem og Sumitomo heldur en leggja járnblendiverksmiðjuna niður vil ég að hér komi skýrt fram að ég trúi ekki að aðeins sé um þá tvo kosti að ræða, heldur ætti að vera unnt að ná betri samningum sem gæfu einnig möguleika á hærra raforkuverði til verksmiðjunnar. Stóriðjan hefur reynst okkur dýrkeypt. Atvinnutækifæri í stóriðju kosta margfalt á við aðra fýsilegri kosti í atvinnulífinu. Við kvennalistakonur óttumst að aukin stóriðjuuppbygging leiði af sér að önnur atvinnuuppbygging á Íslandi verði látin sitja á hakanum og það mundi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Stóriðja er gamaldags og úreltur atvinnu- og framleiðslukostur. Öll framsæknustu iðnaðarríki heims eru nú að flytja þungaiðnað sinn úr landi og þau flytja hann til þróunarlandanna og landa eins og Íslands, sem reyndar má færa rök fyrir að flokkist til þróunarlanda frá efnahagslegu sjónarmiði. Ef við Íslendingar ætlum okkur upp úr þeirri einhæfni sem í dag einkennir efnahagslíf okkar gerum við það ekki með því að taka hér við erlendri stóriðju, heldur með því að þróa hér innlendan léttiðnað byggðan á okkar eigin vitsmunum og þekkingu og vonandi sem mest á okkar eigin hráefnum. Sem dæmi um slíkan iðnað má nefna líftæknina, sem mikið hefur verið rætt um undanfarið, rafeindatækni ýmiss konar og tækni við fullvinnslu matvæla. Enn fremur má benda á að við Háskóla Íslands fara fram margvíslegar rannsóknir sem leitt gætu til stórkostlegra möguleika á þessum sviðum og væri nær að styðja þar myndarlega við.

Við skulum nú reyna að strjúka þessa stóriðjuglýju úr augunum og snúa okkur að skynsamlegri kostum í atvinnuuppbyggingu hér á landi.