16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6070 í B-deild Alþingistíðinda. (5481)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki verið og er ekki þeirrar skoðunar að virkjanir okkar eigi að vera í eigu útlendinga og vænti ég nú þess að hv. þm. taki orð mín trúanlegri hér en Dagblaðsins. Það hefur margsinnis komið fram að þær athuganir sem fram fara um erlenda stóriðju á Íslandi eru á könnunarstigi, viðræðustigi. Það er ekkert nýtt sem fram hefur komið um það að yfir stæðu samningar um stækkun átversins í Straumsvík. Þetta var öllum hv. þm. vitanlegt. Það er ekkert nýtt í því að menn hafa haft í huga að reyna að byggja og fá til þess erlenda aðila að byggja álver við Eyjafjörð. Það er á könnunarstigi, rannsóknum ekki lokið og ótal, ótal atriði til athugunar áður en það er komið á það stig að það verði borið upp í ríkisstj. eða fyrir hið háa Alþingi. Sama er auðvitað og enn fremur að segja af þeirri hugmynd að svo kynni til að bera að einhvern tíma í framtíðinni yrði staðsett eða byggt álver í Þorlákshöfn. Allt þetta vita þessir æsingamenn sem haga sér eins og þeir hafi étið óðs manns skít. (Gripið fram í.) Ég þarf ekkert að lýsa fyrir hinu háa Alþingi hvernig hv. 5. þm. Austurl. hefur staðið hér eins og strengdur köttur í dag og talað um þessi mál.

Það þarf einkennilegan húmor til þess að skilja hv. 2. þm. Norðurl. v. á þann veg sem þessir hv. þm. skildu hann í dag. En ef menn ætla að taka undir þessum dagskrárlið, járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, upp almennan eldhúsdag um þessi mál held ég að þeir verði þá að athuga að fá það tekið upp utan dagskrár eða bera fram fsp. með eðlilegum hætti. En ég vona að ég hafi talað alveg skýrt í þessu máli og þurfi ekki neinu við það að bæta. Hins vegar er mönnum ekkert of gott að skemmta sér við slíkar umr. fram eftir nóttum ef mönnum svo sýnist.