16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6073 í B-deild Alþingistíðinda. (5484)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir það sem fram kom í máli hans áðan þó ég taki vissulega undir það með hv. 3. þm. Reykv. að nokkuð voru svörin loðin. En ummæli hans hér fyrr í þessari umr. voru þó mun skýrari hvað þetta snerti og af tilefni minna fsp. til hans um þessi efni.

Það er minni ástæða til að ræða þessi mál frekar undir þessum dagskrárlið þar sem hæstv. iðnrh. hefur vísað til þess að rétt sé að hans mati að þessi mál verði rædd utan dagskrár ef áhugi er á því, og víst er um það að full ástæða er til að fá skýr svör við þeim atriðum sem hæstv. ráðh. hefur verið að setja fram undanfarin dægur um þau stórmál sem hér hafa verið rædd, hugmyndir sem eru mótsagnakenndar frá degi til dags og frá stund til stundar. Við hljótum að spyrja: Hvers konar ráðamenn eru það sem sitja í stólunum hér nú? Hvers konar ráðherrar eru það sem kasta fram hugmyndum upp á hundruð milljóna dollara í síðdegisblöðunum, ef slegið er á það tölum, en koma svo um miðnætti sama dag og segja: Það er nú ekkert að marka það sem haft var eftir mér með orðréttri tilvitnun í viðkomandi blaði? Svo vill til að það var ekki bara í síðdegisblaðinu í dag sem vitnað var til hæstv. ráðh. orðrétt, heldur stóð hann hér í þessum ræðustól í gærkveldi og talaði til allrar þjóðarinnar um sömu atriði: þrjú álver í eigu útlendinga. Var þetta líka fleipur eitt? Við fáum kannske svör við því á morgun eða þegar færi gefst hér til að hefja þær umr. um þetta utan dagskrár sem hæstv. ráðh. hefur þegar fallist á að fram fari. Það er ekki hægt að ljúka þessu þinghaldi með þessi mál jafnóskýr af hálfu ríkisstj. og fyrir liggur og með þær yfirlýsingar hæstv. ráðh. til þjóðarinnar sem hann er nú að reyna að draga í land með einum sólarhring síðar. (Iðnrh.: Ég hef ekkert dregið í land núna, ekki nokkurn skapaðan hlut.) Nei, hann hefur einmitt ekkert dregið í land. Nú hefur liðið um hálftími síðan hæstv. ráðh. var að lýsa ummæli sín í DV dauð og ómerk. (Gripið fram í.) En nú vill hæstv. ráðh. draga þau ummæli til baka hálftíma síðar og segist ekki hafa viðhaft þessi ummæli við Dagblaðið um orkuver í eigu útlendinga. En hann talar um það í þessu blaði:

„„En það má þó hugsa sér að hraða þessu, það kæmi jafnvel til greina að semja við þá um allt saman, bæði orkuframkvæmdirnar og álverin, þótt við höfum ekki hugsað okkur þann hátt á hingað til“, segir ráðh.“

Þetta eru ummæli hæstv. ráðh. Það er ekki auðvelt að taka gildar yfirlýsingar hér um að hann eigi ekki við að útlendingar eigi orkuverin eða eigi hlutdeild í þeim þó að hann vilji staðhæfa annað. En þetta skýrist væntanlega, hæstv. ráðh., þegar málin verða lögð hér fyrir með skipulegum fsp. við aðrar og rýmri aðstæður, í væntanlegum umræðum utan dagskrár. Ég get vel beðið með að fá frekari svör frá hæstv. ráðh., enda kann að vera að honum hafi þá tekist að koma einhverri reiðu á yfirlýsingarnar og færi kannske yfir það sem hann hefur látið frá sér fara til alþjóðar í gærkvöld og í dag því að ég heyrði að hæstv. ráðh. átti sérstakt viðtal við Ríkisútvarpið um hugmyndir sínar varðandi álver í Þorlákshöfn þó að mér gæfist ekki kostur á að hlusta á það viðtal. En það verður forvitnilegt að athuga hvað þar hefur komið fram.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, virðulegi forseti, eru hér því miður ekki nýir órar á ferð, ekki jafnsplunkunýir og hæstv. ráðh. kannske heldur. Þó geri ég ráð fyrir að hann kannist við það sem á ferðinni var á vegum Sjálfstfl. á árunum 1974–1976 og ég vænti þess að hann hafi kynnt sér efni þeirrar skýrslu sem ég gat um í ræðunni áðan og ber heitið „Hydroelectric Power Potential of Eastern Icetand. Reconnaissance Report. The Team for Assessment of the Hydropower Potential of Eastern Iceland.“ Reykjavík. Nóvember 1975. Þessi skýrsla er sameiginleg úttekt viðræðunefndar um orkufrekan iðnað sem þá starfaði og Alusuisse, úttekt á vatnsaflinu á Austurtandi sem liður í að þoka fram áætlun INTEGRAL.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. nú þar sem færi gefst á því að taka á þessu máli væntanlega á morgun.