16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6076 í B-deild Alþingistíðinda. (5488)

25. mál, lántaka Áburðarverksmiðju ríkisins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Frv. til l. um lántöku Áburðarverksmiðju ríkisins á þskj. 25 er flutt til að leita staðfestingar á brbl. sem sett voru 30. mars s. l. í tíð forvera míns í embætti fjmrh. Í fjárlögum fyrir árið 1983 var gert ráð fyrir að aflað yrði 80 millj. kr. innlends láns til Áburðarverksmiðju ríkisins. Sú leið mun þó ekki hafa þótt fær og var því heimildar til töku erlends láns aflað með brbl. Í brbl. er að finna heimild til að greiða helming hverrar afborgunar og vaxta af láni þessu og segir að greiðslur þessar skuli metnar sem stofnframlag ríkisins í Áburðarverksmiðjuna vegna byggingar saltpéturssýruverksmiðju. Fyrrv. fjmrh. ákvað að nýta þessa heimild.

Frv. þetta hefur hlotið hefðbundna afgreiðslu í hv. Ed. og virðuleg fjh.- og viðskn. Ed. mælir einróma með samþykkt frv.

Ég vil gera að tillögu minni að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.