17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6096 í B-deild Alþingistíðinda. (5507)

380. mál, utanríkismál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu jafnframt því sem ég læt í ljós þakklæti til annarra nm. í utanrmn. fyrir ágætt samstarf í þeirri n.

Ég verð að segja það fyrst að ég er orðinn svolítið leiður á því, og segi það af tilefni af ræðu síðasta ræðumanns, að menn tali um utanríkismál eins og Keflavíkurflugvöllur sé nafli alheimsins. Utanríkismál eru annað og langtum fleira sem ekki síður þarf að hyggja að. Og þó ég muni víkja frekar að því hér á eftir held ég að við megum ekki gleyma því að það fyrirkomulag, sem við höfum valið á varnar- og öryggismálum okkar, hefur tryggt okkur frið í mjög langan tíma. Þeir, sem tala um það sem stefnumið að við eigum að vera vopnlaus og hlutlaus, hafa ekki gert sér grein fyrir því að hér hefur ríkt ákveðið jafnvægi sem varasamt er að raska. Það er mikilvægt í umr. um öll utanríkismál að menn líti á hvern þátt fyrir sig og kanni hug sinn um það með hvaða hætti við getum staðið að ýmsum þeim markmiðum sem okkur eru ofarlega í huga án þess að flækja okkur sífellt í umr. um það hvernig fyrirkomulag varnarmálanna hjá okkur er í grundvallarþáttum.

Það má skipta veröldinni í marga hluta. Stundum er henni skipt í austur og vestur og stór hluti af umr. um utanríkismál snýst eiginlega um samskipti austurs og vesturs. Það er mikil tilhneiging í veröldinni, einkum meðal stórveldanna, til þess að snúa öllu sem gerist í heiminum upp í umr. um það hvernig átökin séu milli austurs og vesturs.

En það má líka skipta veröldinni eftir öðrum mælikvörðum. Stundum er henni skipt í norður og suður, eða í iðnríki og þróunarríki. Þetta er einföld skipting en hún auðveldar mönnum umræðuna. Hún minnir menn þó a. m. k. á það að veröldinni verður skipt með mismunandi hætti og ekki bara milli austurs og vesturs heldur ekki síður milli norðurs og suðurs. Við getum líka skipt veröldinni í þann hluta þjóðanna sem búa við lýðræði og hinn sem búa við einræði. Ef við lítum á skiptingar af þessu tagi sjáum við að lítill hluti veraldarbúa býr við lýðræði og lítill hluti veraldarbúa býr í rauninni við frelsi. Það eru margir sem svelta og það er stór hluti veraldarbúa sem býr við mikla fátækt. Enn aðrar þjóðir brjótast um í skuldaviðjum á mörkum bjargálna, enn aðrar búa við miklar allsnægtir. Á ótrúlega mörgum stöðum í veröldinni ríkir styrjaldarástand.

En hvernig svo sem við lítum á flokkun af þessu tagi er eitt ljóst: Við Íslendingar erum vel settir, við njótum flestra gæðanna, við njótum friðar og höfum notið friðar, við njótum frelsis, við búum við lýðræði og við erum, þrátt fyrir allt og þrátt fyrir það að hér hafi kreppt að í lífskjörum, í hópi hinna best settu. En einmitt það að búa svona vel miðað við svo marga aðra leggur okkur sérstakar skyldur á herðar. Það óréttlæti sem við horfum upp á í veröldinni er ógnvænlegt, í misskiptingu lífsins gæða, í mannréttindabrotum og í því hvernig fjármunum er í rauninni varið í veröldinni, og þær þjáningar sem við fréttum af, þjáningar í styrjöldum, hungri, fátækt og ófrelsi, eru hörmulegar. Enn er ótalin sú ógn sem vofir yfir mannkyninu af hemjulausu vígbúnaðarkapphlaupi. Sú ógn er hörmuleg og er auðvitað ekki hinum betur settu og jafnframt betur menntuðu til nokkurs sóma heldur til vansæmdar.

Einmitt af því að við erum svo vel settir miðað við svo marga aðra ber okkur skylda til að líta til þeirra þjóða sem verr búa og við hljótum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að bæta úr misréttinu og um leið að láta rödd okkar hvarvetna heyrast gegn óréttlæti, gegn frelsissviftingu og gegn manndrápum og láta hana jafnframt heyrast til þess að stuðla að afvopnun og til þess að leggja þróunarlöndunum lið eftir mætti. Sannleikurinn er sá að ofbeldi, kúgun, hungur og fátækt skipta okkur ekki bara máli út frá mannúðarsjónarmiðum þó að þau ein væru vissulega fullgild og þau snerta ekki einungis jafnréttishugsjón okkar og óbeitina á misrétti. Þau varða í rauninni líka framtíð okkar í bráð og í lengd vegna þess að í því ástandi sem ríkir í heiminum og í misskiptingu lífsins gæða getur falist kveikja ófriðar og styrjaldar rétt eins og í spennunni milli austurs og vesturs.

Talið er að um 800 millj. manna búi við algera fátækt og enn er að fjölga í þessum hópi fólks sem býr við svo sára neyð. Fátæktin eykst en minnkar ekki. Þetta ástand varðar ekki síður hinn iðnvædda heim sem við teljumst til heldur en þá sem suðurhvelið byggja og okkur mun ekki duga að senda hinum sveltandi heimi einungis matarsendingar því í þeirri gjá, sem hefur myndast milli fátækra og ríkra þjóða, er fólgin hætta fyrir heimsbyggðina alla. Það er skylda okkar að vinna að því með öllum ráðum að þessir meðbræður okkar og systur þurfi ekki að svelta og sé séð fyrir nauðþurftum, fyrir læknishjálp, fyrir húsaskjóli og lágmarksfræðslu. Þetta verkefni er vitaskuld langtum mikilvægara en svona upptalning gefur til kynna.

Við skulum ekki láta okkur til hugar koma að allsnægtalönd eins og iðnþróuðu ríkin sem við tilheyrum fáist staðist til lengdar umlukin af fátækt og hörmungum annars staðar í veröldinni. Hættan er líka fólgin í síharðnandi baráttu um auðlindir jarðarinnar og í þeirri misskiptingu gæðanna, sem ég gat um áðan, en ekki bara í togstreitunni milli austurs og vesturs. Staðreyndin er sú að þessu verkefni verður ekki valdið nema með sameiginlegu átaki norðurs og suðurs, austurs og vesturs. Ég legg áherslu á norðrið og austrið vegna þess að norðrið hefur ekki staðið sig nógu vel og austrið þaðan af síður. Í æ ríkara mæli verður að beina kröftunum að því að hjálpa hinum vanþróuðu ríkjum til sjálfshjálpar, finna leiðir til þess að þær geti lifað af landi sínu. Ljóst er að þeim muni ekki takast það einum sér heldur þurfi að koma til skilningur og aðstoð þróuðu ríkjanna.

Fyrir ekki löngu síðan var haldin ráðstefna í Lissabon á vegum Evrópuráðsins einmitt um þessi mál, um samskipti norðurs og suðurs, með þátttöku okkar Íslendinga og reyndar fyrir frumkvæði eins af fyrrv. þm. og núv. varaþm. hér, Ólafs Ragnars Grímssonar. Það er von mín að þessi ráðstefna hafi verið spor í rétta átt og af kynnum mínum af henni snúist mér að hún eigi að hafa borið nokkurn árangur. Ég held að svona ráðstefnur séu stundum vanmetnar, ég veit að þær skila ekki peningum á stundinni eða algerri stefnubreytingu á stundinni, en þær undirbúa þó jarðveginn. Ég held að það sé rétt af Íslendingum að taka einmitt þátt í atþjóðastarfi sem beinist að þessu verkefni.

Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá að minnast á hve hlutur okkar Íslendinga í þróunarhjálpinni er vesæll. Það hefur oft verið gert að umræðuefni hér í þinginu en minna hefur orðið um framkvæmdirnar. Ég held að það sé ráð að fara þá leið sem fólst í þáltill. sem.ég flutti fyrir hönd Alþfl. fyrir nokkrum árum, að setja sér markmið um að ná því marki sem þjóðir heims hafa sett sér á tilteknum árafjölda. Að stíga það skref af skrefi að inna af hendi framlag til þróunarhjálparinnar í samræmi við þau markmið sem alþjóðasamtök hafa sett.

Fyrir utan þetta sem ég minntist á, um hinar alfátækustu þjóðir, hefur komið upp annað vandamál með sívaxandi þunga á undanförnum árum varðandi þróunarþjóðir, sem þó verða að teljast bjargálna, en getur líka orðið kveikja að miklum hörmungum. Ýmsar þessara þjóða hafa hleypt sér í miklar skuldir. Ég skal ekki rekja með hvaða hætti þær skuldir hafa orðið til, en þær skuldir eru nú slíkar viðjar á þessum þjóðum að þær ráða í rauninni ekki lengur yfir efnahagsmálum sínum og þeim eru sett svo ströng skilyrði um stjórn efnahagsmála af alþjóðlegum stofnunum að enn er að þeim hert og verður þó ekki talið ríkidæmi hjá almenningi meðal þessara þjóða.

Ég held að við Íslendingar eigum að beina áhrifum okkar eftir því sem við getum til þess að vekja skilning á þessu vandamáli, að þessar þjóðir geta ekki komist til raunverulegrar framþróunar nema þær fái aðstoð til þess að létta þessa skuldabyrði, einkum og sér í lagi með því að lengja lánstímann. Sannleikurinn er sá að í þeirri kreppu sem er meðal margra þessara þjóða er fólgin hætta á uppreisnum, einræði og vopnuðum átökum.

Ég sagði áðan að jöfnun lífskjara í veröldinni væri meðal mikilvægra verkefna sem mannkynið stæði frammi fyrir. Ég sagði líka að það dygði okkur ekki að senda matargjafir til þeirra sem svelta. En þegar við horfum á þessi verkefni hlýtur að koma í hugann hversu gífurlegum fjármunum er varið í vígbúnaðarkapphlaupið. Þess er getið í skýrslu utanrrh. hverjar ógnvekjandi upphæðir þar sé um að ræða. Það hefur oft verið gert að umtalsefni hér í þessum ræðustól og ég hef m. a. gert það að umtalsefni hvað mætti gera fyrir lítið brot af þessum fjármunum. Ég ætla að sleppa því núna, en það er vitaskuld óviðunandi með öllu að horfa á þá gífurlegu fjármuni sem er varið í vígbúnaðarkapphlaupið meðan stór hluti mannkyns sveltur og við búum við misrétti í aðstöðu af því tagi sem ég hef rakið hér.

Sjálfsagt er óraunhæft að gera því skóna að vígbúnaði verði skyndilega hætt í veröldinni eða samkomulag náist um mikla afvopnun þegar í stað. En það verður að teljast raunhæft markmið að þegar í stað verði dregið úr aukningunni og sjálfsagt er nær sanni að setja sér slík nærtæk markmið sem kleift er að ná og líta frekar á það sem fyrsta skref en að ætlast til um of.

Það er rétt, sem kemur fram í skýrslu utanrrh., að vígbúnaður á sér ekki einungis stað í hinum iðnvædda heimi heldur er ástand mála svo hörmulegt að fátækar, vanþróaðar þjóðir verja einnig miklum fjármunum í vopnakaup og herbúnað. Það er sérstakt umhugsunarefni með hvaða hætti verði dregið úr þessari tilhneigingu. En hitt er ljóst að langstærstu fjármunirnir og langmesta hættan á allsherjarstyrjöld er í höndum stórveldanna og þetta kapphlaup þeirra er orðið geigvænlegt. Geigvænlegast af því öllu er það kapphlaup sem nú á sér stað í kjarnorkuvopnavígbúnaði. Það getur ekki talist nokkur skynsemi fyrir því, hvaða stefnu svo sem menn fylgja í vígbúnaðarmálum, með hvaða hætti menn telja öryggi sínu best búið, að auka enn við kjarnorkuvopnabirgðir þegar vitað er að menn geta þegar drepið mannkynið mörgum sinnum. Slík stefna hlýtur að vera tilgangslaus með öllu. Fyrsta skrefið hlýtur þess vegna að vera að draga úr viðbót sem er gersamlega tilgangslaus.

Það veldur okkur vitaskuld vonbrigðum hvernig samningaumleitanir milli stórveldanna um takmörkun kjarnorkuvopna fóru út um þúfur og við verðum að leggja lóð okkar á vogarskálarnar til þess að þær samningaumleitanir fari í gang aftur. Við verðum að þrýsta Sovétmönnum til þess að ganga til samninga, setjast aftur við samningaborðið. En við skulum líka ræða það við bandamenn okkar hér í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum að þeir þurfi að sýna skilning og lipurð því hér sé mikið í húfi. Við verðum að stefna að fækkun kjarnorkuvopna fyrst í Evrópu í stað þeirrar fjölgunar sem nú á sér stað en langtímamarkmiðið hlýtur að vera að Evrópa geti verið kjarnorkuvopnalaus og reyndar mannkynið allt. Hitt er ljóst að þessi skref verða ekki stigin nema að það takist að draga úr tortryggni milli stórveldanna og þau verða heldur ekki stigin nema gagnkvæmni fylgi og eftirlit sem báðir aðilar telja að dugi sér með því að samkomulag sé haldið. Ef gagnkvæmni ríkir ekki mun tortryggnin blossa upp áður en varir og árangur samkomulagsins fara út um þúfur. Ef hvort stórveldanna um sig er ekki sannfært um að hinn aðilinn sé ekki að svíkjast undan merkjum þá getur líka allt sem áður var samið um farið út um þúfur. Það er af þessum sökum sem gagnkvæmnin og það eftirlit, sem báðir aðilar eða hvor aðili um sig getur sætt sig við, eru svo mikilvægir þættir í svona samkomulagi. En grundvallarforsendan sjálf er að eyða tortryggninni sem er ríkjandi milli stórveldanna sérstaklega og milli austur- og vesturhluta Evrópu í öðru lagi. Það er fagnaðarefni að efnt skuli hafa verið til ráðstefnu einmitt um þetta atriði þar sem Stokkhólmsráðstefnan er og við hljótum að binda sérstakar vonir við árangur af henni.

Ég rak reyndar augun í það hér í skýrslu hæstv. utanrrh. að hann segir að Ísland hafi tekið þátt í hinni tvíþættu ákvörðun Atlantshafsbandalagsríkjanna frá 12. desember 1979. Þetta er hin margfræga tvíþætta ákvörðun. Mér þykir heldur ofsagt í skýrslu utanrrh. að Íslendingar hafi tekið þátt í þessari ákvörðun vegna þess að þegar þessi ákvörðun var tekin var lesin sérstök yfirlýsing af hálfu fulltrúa utanrrh. Íslands hinn 12. desember 1979 í Brüssel. Í tilefni af þessari setningu í skýrslu utanrrh. tel ég rétt að gera grein fyrir aðalatriðunum í þessari yfirlýsingu sem reyndar var mjög stutt.

Þess er getið í upphafi yfirlýsingarinnar að þá hafi nýlega farið fram kosningar, þingið sé að koma saman, ný ríkisstj. hafi ekki verið mynduð og utanrrh. geti þess vegna ekki mætt á fundinn. Síðan er minnt á hina sérstöku stöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins, nefnilega þá að Ísland hvorki hafi né hafi haft her á eigin vegum. Hins vegar höfum við gert varnarsamning við Bandaríkin í samvinnu við Atlantshafsbandatagið. Í framhaldi af því er minnt á það að utanrrh. og forverar hans í starfi hafi oft haft á orði að eitt aðalatriðið í varnarstefnu Íslands sé að hér séu engin kjarnorkuvopn og óhugsandi sé að þeirri stefnu verði nokkurn tíma breytt. En þá segir að það sé afleiðing af þessari sérstöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins að við höfum ekki tekið neinn þátt í undirbúningi þessarar ákvörðunar sem hér er til umfjöllunar, þ. e. þessarar svokölluðu TNF-modernisation-ákvörðunar, og við höfum ekki aðstöðu til þess að hafa áhrif á þessa þróun sem fyrst og fremst snertir önnur meðlimalönd. Þetta er efnispunktur yfirlýsingarinnar. Mér þykir heldur sterklega til orða tekið á grundvelli þessarar yfirlýsingar utanrrh. að staðhæfa að Ísland hafa verið þátttakandi í þessari ákvörðun því þessi yfirlýsing verður ekki skilin öðruvísi en svo að Ísland skipti sér ekki af ákvörðuninni. Ég taldi nauðsynlegt að láta þetta koma fram í tilefni af þessum orðum í skýrslu utanrrh.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég mundi víkja að öryggismálum Íslands síðar í ræðu minni. Ég tel að nauðsynlegt sé fyrir okkur að rifja upp nokkur grundvallaratriði varðandi öryggismál Íslands. Oft er minnst á legu landsins og telja má hana meðal fyrstu grundvallaratriðanna. Legu landsins er svo háttað að hvort heldur er í friði eða ófriði er Ísland eftirsóknarvert frá sjónarmiði deiluaðila, í friði til þess að fylgjast með umferð og samgöngum og í ófriði til þess að tryggja eigin samgöngur eða hindra umferð sem telst óæskileg. En meginkjarni þessa máls held ég þó að sé sá að í þeim tilvikum að tveir eða fleiri keppa um áhrif og yfirráð í heimshluta eins og þessum hér, þá sé hvorum aðila um sig keppikefli að hinn njóti ekki aðstöðunnar. Af þessu dreg ég þá einföldu ályktun að hlutleysi geti ekki gagnast Íslandi vegna þess að það mundi auka á togstreitu og samkeppni um áhrif og aðstöðu hér á landi.

Í öðru lagi held ég að það liggi ljóst fyrir að Íslendingar geti ekki ætlað sér að tryggja öryggi sitt einir. Við hljótum að gera það í samstarfi við aðra og þá fyrst og fremst þá sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta með okkur og reyndar helst einnig þá sem eiga fleira sameiginlegt með okkur, t. d. í stjórnarfari og hugsjónum. Þetta er reyndar hornsteinninn í því fyrirkomulagi sem hefur verið valinn varðandi varnir Íslands.

Þriðja atriðið, sem ég tel mjög mikilvægt að menn hafi í huga, er það að friður og öryggi felst í sjálfu sér ekki í því að geta varið eitthvert land heldur í hinu að halda svo á málum að ekki komi til árásar á landið. En það er einmitt þetta sem hefur tekist að því er okkur Íslendinga varðar. Þetta skulum við ekki vanmeta og einmitt þetta að við höfum notið friðar, það er hið mikilvægasta í þessum efnum. Þess vegna eiga menn ekki að raska því fyrirkomulagi sem hér hefur verið valið nema annað betra verði fundið. Hugmyndir um hlutleysi hljóta að teljast fánýtar vegna þess að þær mundu fyrst og fremst auka spennuna á okkar slóðum.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að því sem kalla mætti aðbúnað eða aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Ég vil segja það fyrst að Keflavíkurflugvöllur á vitaskuld ekki að líta út eins og ruslahaugur. Mér finnst að því hafi ekki verið nægilega sinnt að hafa aðbúnað þar allan í hinu besta horfi og þannig að hann sé okkur ekki til vansæmdar. Þegar menn tala um þær framkvæmdir sem nú eru í gangi vil ég að menn hafi þetta í huga. Það hafa nefnilega átt sér stað eða eru í bígerð ýmsar framfarir í þessum efnum. Ég fagna því að það skuli hafa verið afráðið að byggja flugstöð sem gerir mögulegt að aðskilja farþegaumferð frá öðrum umsvifum á vellinum og að við getum komist úr þessu hreysi sem nefnt er flugstöð og er þjóðinni til vansæmdar.

Ég lýsi líka yfir ánægju minni með það að framkvæmdirnar í Helguvík skuli loksins vera komnar á svolítinn rekspöl því að það hefur ekki einasta verið hörmulegt að horfa á það tankarusl sem olía hefur verið geymd í á þessum stað heldur hefur líka stafað af því veruleg hætta fyrir byggðarlögin þarna í grenndinni. Ég legg áherslu á það að haldið verði þannig á þeim málum að sem fyrst reynist unnt að dæla olíunni í land í Helguvík og í þessa tanka en ekki haldið áfram að dæla henni í land í Keflavík eftir að tankarnir hafa risið eins og maður hefur heyrt hugmyndir um. Þetta vil ég ítreka, að á þessum málum verði haldið þannig að þessir tankar nýtist sem fyrst með eðlilegum hætti.

Ég sagði áðan að þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi, eins og t. d. Lissabon-ráðstefnunni, væri mikilvæg. Ég vil ítreka þá skoðun mína. Mér finnst gæta mjög ríkrar tilhneigingar hjá Íslendingum að vanmeta mikilvægi þess að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi. Oft er talað illa um Norðurlandasamvinnuna, menn tala um það sem skriffinnskubákn og þar fram eftir götunum. Menn tala um fánýti þess að sitja fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þetta er hvort tveggja óréttlátt og rangt. Norðurlandasamvinnan er einstök í sinni röð og hún er okkur Íslendingum mjög mikils virði. Við hana eigum við að leggja sérstaka rækt.

Að því er Sameinuðu þjóðirnar varðar standa þær vissulega veikar nú en áður. En það ætti þó frekar að vera okkur smáþjóðum hvatning til þess að styðja við bakið á Sameinuðu þjóðunum og taka eins ríkan þátt í starfinu þar og okkur er mögulegt. Engar þjóðir eiga meira undir alþjóðastofnunum en einmitt smáþjóðir eins og Íslendingar. Einmitt á slíkum vettvangi sitjum við oft næstum því á jafnréttisgrundvelli eða á algerum jafnréttisgrundvelli við langtum stærri þjóðir og getum látið rödd okkar heyrast og áhrif okkar koma fram næstum því með sama hætti og þeirra. Þessar fjölþjóðlegu og alþjóðlegu stofnanir eru auk þess viðleitni til þess að skapa aukið öryggi í heiminum og þá ekki síst öryggi fyrir smáþjóðir eins og Íslendinga. Við eigum þess vegna að vera eins virkir í slíku fjölþjóðasamstarfi og við teljum mögulegt. Ég skal ekki tíunda fleiri stofnanir en þær þrjár sem ég hef þegar nefnt, en þeim eru ýmsum gerð allítarleg skil í skýrslu utanrrh.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um fáein önnur málefni sem ég tel að skipti verulegu máli fyrir okkur Íslendinga að því er utanríkismál varðar. Ég vil nefna fyrst landgrunnsmálin sem hafa verið til umfjöllunar hér á Alþingi. Ég legg áherslu á að haldið verði á þeim af fyllstu festu af hálfu Íslendinga og að bestu manna yfirsýn. Þessi mál hafa oft verið til umfjöllunar í utanrmn. og náðst hefur mjög góð samstaða í n. um málsmeðferð. Þessi hafsbotnsmálefni eru vandasöm mál að ýmsu leyti. Við þurfum að hyggja vel að hvaða aðferð henti Íslandi best til þess að tryggja hagsmuni sína í þeim efnum.

Í annan stað vil ég minnast á laxverndunarmál sem reyndar hafa líka oft komið til umræðu í utanrmn. og hér á Alþingi. Hér er að ýmsu leyti um erfitt mál að ræða vegna þess kannske fyrst og fremst að menn vita ekki nægilega mikið um laxinn. Þess vegna verður að efla rannsóknir. Og við verðum að ganga úr skugga um það og tryggja það eftir því sem mögulegt er að farið sé eftir þeim ákvæðum sem þjóðir heims hafa þó í rauninni komið sér saman um, um það að upprunaland laxins hafi á hverjum tíma ábyrgð og forsjá yfir þessum stofni. Við óttumst það að einmitt þetta hafi alls ekki verið haldið og gengið hafi verið á laxastofn okkar á veiðislóðum á úthafinu. En ég vara við því í þessu sambandi að íslenskir ráðh. eða ráðamenn hafi á sama tíma uppi hugmyndir um það að við förum að stunda laxveiðar í sjó. Með því geta þeir eyðilagt málið fyrir okkur. Þetta segi ég því miður að gefnu tilefni.

Ég skal ekki gera hvalveiðimálin sérstaklega að umræðuefni þó að þau séu hér í skýrslunni. Ég lét á sínum tíma í ljós þá skoðun mína að við ættum að halda áfram hvalveiðum. Sú skoðun mín er óbreytt og ég vænti þess að utanrmn. og hæstv. utanrrh. leitist við áf fremsta megni að koma málum svo fyrir að við þurfum ekki að leggja þessa atvinnugrein niður.

Varðandi veiðar annarra þjóða við Ísland ber vitaskuld hæst það ósætti sem uppi er milli Efnahagsbandalags Evrópu fyrir hönd Grænlands annars vegar og Íslendinga og Norðmanna hins vegar varðandi veiðar úr íslenska loðnustofninum. Aðrir ræðumenn hafa gert þetta að umræðuefni hér á undan mér, en hér er um vandasamt mál að ræða. Í þessu sambandi vil ég ítreka það að samkomulagið um Jan Mayen fól að mínu mati í sér einn þátt sem var kannske hvað veigamestur og sem um leið mun skipta okkur mjög miklu máli að því er þessar samningaumleitanir varðar. Það er sú viðurkenning á sérstökum rétti Íslands og yfirráðum yfir þessum loðnustofni sem er fólgin í því að Íslendingar hafi lokaorð um veiðimagn úr stofninum. Ég tel að það verði að halda svo á þessu máli að meginþættirnir úr Jan Mayen-samkomulaginu komi óskaddaðir úr þeim samningaumleitunum sem þarna eru í gangi.

Um fiskveiðar Íslendinga í lögsögu annarra ríkja vil ég segja það fyrst að ég læt í ljós ánægju mína með það að samþykkt skyldi verða þáltill. okkar Alþfl.-manna um könnun á slíkum fiskveiðimöguleikum. Ég vil ítreka áskorun mína til hæstv. utanrrh. um það að utanrrn. verji verulegum starfskröftum í könnun þessa máls. Ég hef áður gagnrýnt það að utanrrn. sinnti þessu máli ekki af þeim þunga sem mér finnst að þurfi miðað við aðstæður í okkar þjóðfélagi nú í dag. g veit að hæstv. utanrrh. er kunnugt um þá gagnrýni mína og ég vona að hún virki sem hvatning til þess að gera betur.

Þá vil ég — og einmitt í sambandi við fiskveiðarnar — minna á alvarlegt mál sem uppi er meðal ýmissa samkeppnisþjóða okkar, þar sem er styrkur þeirra til sjávarútvegs og sjávarútvegsfyrirtækja, eins konar niðurgreiðsla á kostnaðinum við að veiða fisk og verka hann. Þetta er okkur Íslendingum mjög hættulegt. Ég veit að hæstv. utanrrh. er þetta ljóst og ég vil vekja athygli þingsins á þessu og jafnframt hvetja hæstv. utanrrh. til þess að halda áfram því starfi sem ég veit að hann hefur hafið í því að hamla gegn þessu og mótmæla því hvarvetna þar sem það kemur fyrir að samkeppnisþjóðir okkar noti ríkidæmi sitt til þess að greiða með sjávarútvegi og gera okkur þar með lífið erfiðara. Þetta er reyndar alls ekki í anda þess frjálsræðis í viðskiptum og viðskiptaháttum sem þessar þjóðir tala gjarnan um og hafa undirritað samkomulag um.

Í sambandi við sjávarútvegsmálin vil ég minna á samskipti okkar við Grænland. Ég varð nýlega var við það, þar sem ég hitti framámann frá Grænlandi, að þeir höfðu áhuga á auknu samstarfi við okkur en vissu ákaflega lítið um það hvaða umr. hefðu farið fram um slíkt samstarf hér á Íslandi og þekktu t. d. ekki þann Grænlandssjóð sem hér hefur verið stofnaður. Ég held að sú skylda hvíli á okkur Íslendingum að hafa frumkvæði um þetta samstarf og það er alveg ljóst að við höfum ekki rækt þetta hlutverk sem skyldi að undanförnu.

Varðandi utanríkisviðskipti skal ég vera heldur fáorður og ekki gera í rauninni neitt í skýrslu hæstv. utanrrh. um þetta mál að umtalsefni, einungis minna á það að sölustarf á erlendum vettvangi er mikilvægur þáttur hins íslenska efnahagslífs, þáttur sem ég tel að hafi orðið út undan og Íslendingar hafi vanrækt. Ég vil að utanrrn. taki það sérstaklega til umfjöllunar hvernig leggja megi aukna rækt við sölustarfsemi íslenskra aðila á erlendum vettvangi.

Herra forseti. Einn hluti í skýrslu utanrrh. fjallar um ástand í ýmsum heimshlutum. Ég gat þess í upphafi ræðu minnar að víða ríkti styrjaldarástand, annaðhvort milli þjóða eða borgarastyrjaldir eða þá að innrásir hefðu verið gerðar í lönd. Ég skal ekki rekja alla þá þætti sem gerðir eru að umtalsefni í þessum þætti skýrslunnar en ég hlýt að hnjóta um það þegar rætt er um ástandið í Mið- og Suður-Ameríku að utanrrh. skuli ekki gera það að umtalsefni að Bandaríkjamenn lögðu tundurdufl fyrir utan strendur eins Mið-Ameríkuríkis, Nicaragua, fyrir skömmu. Þetta var vitaskuld algjört brot á alþjóðalögum og það sem meira var, Bandaríkjastjórn neitaði að hlíta Alþjóðadómstólnum í Haag að því er varðaði úrskurð í þessu máli eða neinu því máli sem gerðist í þessum heimshluta.

Smáþjóð eins og Íslendingar hlýtur að byggja utanríkisstefnu sína á því að alþjóðalög séu haldin. Það hlýtur að vera fordæmanlegt að stórþjóð skuli setja sig yfir alþjóðalög með þeim hætti sem Bandaríkjastjórn gerði í þessum efnum. Óhætt er að rifja það upp að ýmsir af hægrisinnuðustu þm. Bandaríkjamannanna fordæmdu þetta athæfi líka hvað harðlegast, þ. á m. Goldwater sem telst vel til hægri í bandarískri pólitík. Mér hefði fundist að hæstv. utanrrh. hefði vel getað minnst á þennan alvarlega atburð í skýrslu sinni og þá skoðun okkar Íslendinga að hér hafi verið um að ræða brot á alþjóðalögum sem væri ómögulegt að líða.

Annars held ég að þróunin í Mið- og Suður-Ameríku gæti gefið tilefni til þess að flytja hér langa ræðu um það efni eitt en ég ætla ekki að gera það núna. Hins vegar er það nú svo, þrátt fyrir þær hörmungar sem þar eru, að það eru þó líka ýmsir ljósir punktar innan um og við verðum að vera bjartsýn um það að þessi þróun verði þó í rétta átt.

Herra forseti. Ég hef hér drepið á nokkur atriði úr skýrslu utanrrh. og gert að umtalsefni ýmislegt það sem ég tel mikilvægt að því er utanríkismál varðar. Ég hef rætt sérstaklega um spennuna milli austurs og vesturs, um nauðsyn þess að dregið verði úr vígbúnaði. Ég hef rætt um hungrið og fátæktina í heiminum og það misrétti sem í því felst. Ég hef minnst á öryggismál okkar lands og grundvallarþætti í því sambandi og nokkur þau atriði sem varða aðbúnað og aðstöðu í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Ég hef hins vegar ekki gert að umtalsefni þá verktakastarfsemi sem þar fer fram þó að til þess gæti verið fyllsta ástæða, en ég vænti þess að þau mál verði skoðuð gaumgæfilegar í framhaldi af þeirri skýrslu og væntanlega tekin til endurskoðunar.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja áherslu á það að við Alþfl.-menn teljum bæði rétt og sjálfsagt að gildandi fyrirkomulag í vörnum landsins verði einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu hér eftir sem hingað til. Við teljum þátttöku okkar í norrænni samvinnu og Sameinuðu þjóðunum mjög mikilvægan þátt í okkar utanríkisstefnu sem við teljum að eigi að leggja rækt við. Við teljum síðast en ekki síst mikilvægt að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi að því er varðar málefni eins og slökun spennu og stuðning við hinar vanþróuðu þjóðir. Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, herra forseti, þó að kannske hefði verið ástæða til, enda er tími hér takmarkaður.