17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6106 í B-deild Alþingistíðinda. (5509)

380. mál, utanríkismál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir.skýrslu hans og enn fremur vil ég þakka meðnefndarmönnum mínum í utanrmn. fyrir gott samstarf og greiðar upplýsingar.

Herra forseti. Ég þakka enn fremur hæstv. forsrh. og utanrrh. góð orð um betri tímasetningu næst fyrir þessa skýrslu, en ég vil þó lýsa óánægju minni yfir því að þurfa að fjalla um skýrslu utanrrh. og þau mikilvægu mál sem hún skýrir frá nú mitt í annríki þessara síðustu daga þingsins. Það þýðir, ekki síst hjá litlum þingflokki og trúlega reyndar einnig hjá hinum sem stærri eru, að allt of lítill tími gefst til undirbúnings sem ætti að vera vandaður ef litið er til þess hve mikilvæg þessi mál eru.

Ég vil, áður en ég vík að skýrslunni, nota þetta tækifæri til þess að gagnrýna vinnubrögð Alþingis því að orsakir þeirra eru e. t. v. ekki með öllu óskyldar viðfangsefnum utanríkismála. Fjöldi mála liggur fyrir þessu þingi og kannske var aldrei ætlunin að þau yrðu öll afgreidd, en mörg hver flutt hér til sýnis og kynningar ef svo mætti segja. Samt er þó nokkur fjöldi stjórnarmála sem nú koma fram á síðustu dögum þingsins og ætlað er að sigli hraðbyri í gegnum þingið eins og hér sé stimpilstofnun en ekki ábyrg löggjafarsamkunda. Ég spyr: Er það í raun alveg nægilegt að hagsmunasamtök úti í þjóðfélaginu komi sér saman um eitthvert mál, nái síðan blessun stjórnarflokkanna yfir þau og síðan séu samþykkt um þau lög? Til hvers erum við hin hér sem kosin vorum inn á þetta þing? Eigum við ekki að fá tíma til að velta fyrir okkur hinum ýmsu hliðum málanna og gæta að hagsmunum hinna ýmsu hópa sem væntanleg lög snerta? Er ekki hlutverk löggjafans einmitt að tryggja og vernda réttlæti sem flestra og þarf því ekki að vanda til lagagerðar svo að vel sé að henni staðið? Er það samboðið sjálfsvirðingu og ábyrgðartilfinningu ykkar, hv. alþm., að láta hafa ykkur út í þessa fljótaskrift og óvönduðu vinnubrögð þegar athyglisgáfan og dómgreindin eiga í vök að verjast vegna langra fundaseta, annríkis og þreytu? Enginn er að hafa á móti því að láta hendur standa fram úr ermum og víðar eru vorannir en á þingi, en hvers vegna má ekki skipuleggja vinnu og haga verkefnum þannig að jafnara dreifist.og málum tryggð meiri alúð og íhygli?

Stjórnin heldur því gjarnan fram að stjórnarandstaða haldi uppi málþófi og eyði dýrmætum tíma þingsins í langar ræður. Þarna hef ég engan samanburð og veit ekki hvort sanngjarnt er. Eitt er þó víst: að minni tíma yrði eytt í tefjandi aðgerðir og landamæraerjur en nú er ef meiri sanngirni og réttlæti ríkti gagnvart stjórnarandstöðu og málum hennar. Sá skæruhernaður á tíma þingsins, sem virðist vera eina aðferð stjórnarandstöðu til að heimta rétt sinn og sýna vald sitt, eru frumstæð vinnubrögð og ég sætti mig ekki við það að slík sé eina möguleg birtingarmynd lýðræðisins. Hér láta menn eins og þeir eigi níu líf og ekkert liggi á allan veturinn, en fyrir þinghlé um jól og að vori færast allir í aukana eins og eftir forskrift og málunum er hreinlega rutt í gegn með meiri eða minni fyrirstöðu. Það hlýtur að vera á kostnað þeirrar vandvirkni sem málin eiga skilið.

Þessi togstreita um réttindi og vald ásamt þeim flokkadráttum, hagsmunaerjum, óvinaímyndum og skörpu andstæðumyndum, sem dregnar eru upp til afmörkunar, eru einmitt meginviðfangsefni utanríkismála. Við erum heppin að því leyti að vopn okkar eru orð og við herjum á tíma hvers annars í því lýðræðisríki þar sem við búum. Aðrar þjóðir eru óheppnari, þær berjast með vopnum og herja á lífið til þess að leita réttar síns eða verja hann.

Ég vík nú máli mínu að skýrslu hæstv. utanrrh. sem var fróðleg lesning. Þar er reyndar tíunduð ófögur lýsing á vopnuðum átökum og stríðum sem orðið hafa og einnig þeim sem nú geisa, og ég vitna, með leyfi forseta: „Síðan 1945 er talið að 105 meiriháttar vopnuð átök og stríð hafi verið háð í 66 löndum og í þeim átökum hafi ekki færri en 16 millj. manna látið lífið.“ Enn fremur segir að tæpast sé hægt að hafa tölu á þeim fjárfúlgum sem farið hafa til vígbúnaðar frá stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1945. Jafnframt segir þar líka að hundruð milljóna manna í heiminum búi við mjög krappan kost eða svelti heilu hungri en að talið sé að 800 milljörðum dollara hafi verið varið til vígbúnaðar í heiminum á s. l. ári.

Það er eins og að ætla að lýsa brunasárum á líkömum mismunandi sjúklinga að fara að fjalla um einstök átök í ýmsum ólíkum löndum. Útlit þeirra og ásigkomulag getur verið mismunandi eftir því hver einstaklingurinn er, hvert ástand hans er þegar hann brennir sig, hvernig komið er ónæmisvörnum hans, næringu, erfðaupplagi, o. s. frv. Þó eru brunasár allra af svipuðum toga spunnin, orsökum eins og hita, kulda eða kemiskum efnum. Þetta er að vísu einfölduð mynd, það veit ég, en styrjöldum og valdbeitingu má líkja við sár á þeim líkama sem kalla má fjölskyldu mannsins, og eins og um brunasár væri að ræða er eina haldgóða vörnin að beita fyrirbyggjandi aðgerðum sem beinast að orsökum ófriðar og valdbeitingar. Þær orsakir eru að vísu margvíslegar en liggja fyrst og fremst í manninum sjálfum, hugmyndaheimi hans og tilfinningalífi. Engin önnur dýrategund fer með einstaklinga og hópa sinnar eigin tegundar eins og við gerum. Þau miklu og skipulögðu dráp og pyntingar sem maðurinn stundar á eigin tegund aðskilja hann frá öllum öðrum dýrum, og þó að sagan hafi sýnt að manninum sé þetta mögulegt þá neita ég að samþykkja það að honum sé það leyfilegt.

Það að göfga manninn og trúa á sigur hins góða þýðir ekki barnaskap og blindni. Það er ekki hægt að líta fram hjá ofbeldishneigð mannsins og þörf hennar fyrir útrás, en það er hægt að viðurkenna tilvist hennar og beina henni í jákvæðan uppbyggilegan farveg. Slík tilraun er friðarfræðsla, sem mikið var rædd á þessu þingi, en því miður heyrðu fáir þá umræðu og ganga því margir trúlega enn um með fyrir fram mótaðar og e. t. v. rangar skoðanir á því um hvað hún fjallar. E. t. v. hefur þó staldrað við í hugskoti sumra bergmál af umræðum á þingi og úr fjölmiðlum og vonandi ekki allt af því tagi að það styðji fordóma þeirra. Við erum öll því markinu brennd að burðast með fordómadrauga í farangrinum frá fyrstu tíð. En ég skora á hv. þm. að kynna sér umræður um friðarfræðslu, bæði í þingtíðindum og dagblöðum, því þar má eygja von til að takast á við orsakir ófriðar og beina sýn að því sem dýpra liggur, en ekki bara að einkennum þess sem niðri fyrir býr.

Nú mundu ýmsir tala um óraunsæi, nytsama sakleysingja og fáfræði þeirra sem skilja ekki völundarhús alþjóðastjórnmála. En sannleikurinn í þessum efnum er í reynd ekki svo flókinn, og það er ekki síður lífvænlegt raunsæi þeirra sem hugsa líka með hjartanu en hinna sem ferðast í tæknidraumi rökhyggjunnar og eru löngu gengnir í baklás með lausnir á ófriði heimsins. Albert Einstein sagði, með leyfi forseta, og honum er málið skylt: „Þegar atómið var klofið breyttist allt nema hugsunarháttur mannsins.“ Hann sagði enn fremur: „Ef mannkynið á að lifa af verðum við að byrja að hugsa á nýjan hátt.“

Þess vegna vil ég hvetja þm. til að opna hugskot sitt til að hleypa þangað inn nýjum hugmyndum til hugleiðinga. Ef stjórnmálamenn heimsins gerðu það kynni að fara að glæðast sá pólitíski vilji sem vantað hefur til þess að afvopnunar- og samningaviðræður verði annað en lýsing hæstv. utanrrh. á hugmyndum sumra um norræna samvinnu og ég vitna, með leyfi forseta: „Orðagjálfur, fundahöld, veislur, skriffinnska og pappírsflóð.“

Á dögum Rómverja treystu menn friðinn með því að búa sig undir stríð. Nú er öldin önnur og vopnin líka. Því er okkar eina von til að treysta friðinn að búa okkur undir frið. Til þess hvet ég þá sem fara með utanríkismál okkar þjóðar og brýni fyrir þeim það sem stendur í skýrslu hæstv. utanrrh., með leyfi forseta: „Að vinna á alþjóðavettvangi að aukinni mannúð, mannréttindum og friði.“ Fyrir þessu þingi liggja fjórar þáltill. um afvopnunarmál. Þ. á m. er tillaga Kvennalista um frystingu kjarnorkuvopna. Þessar tillögur hafa verið til umfjöllunar í undirnefnd utanrmn. þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti. Sú nefnd hefur haft það verkefni að reyna að samræma tillögur þannig að úr verði ein tillaga sem Alþingi gæti staðið að. Nefndin mun væntanlega komast að niðurstöðu fyrir þinglok.

Miklu varðar að Íslendingar leggi sitt af mörkum til að stuðla að afvopnun og hafi þar um skýra og afdráttarlausa stefnu. Í kaflanum um afvopnunarmál á bls. 9 í skýrslunni er rætt um bann við kjarnorkutilraunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eitt meginágreiningsefnið er hversu víðtækt slíkt bann skuli vera. Flest Vesturlönd vilja að bannið nái jafnt til tilrauna með kjarnorkuvopn og kjarnorkusprenginga í friðsamlegum tilgangi“ — ég endurtek: í friðsamlegum tilgangi — „en nokkur önnur ríki vilja leyfa slíkar sprengingar í friðsamlegum tilgangi þótt mjög erfitt sé að greina þar á milli.“

Ég er ekki að reyna að snúa út úr fyrir hæstv. utanrrh., en ég verð að leggja áherslu á það að kjarnorkusprengingar geta aldrei verið í friðsamlegum tilgangi, en eru alltaf ófriður, mengun og ógn við lífið. Nægir þar að minna á vansköpuð börn og hækkaða tíðni illkynjaðra sjúkdóma í þeim eylöndum Kyrrahafs þar sem Frakkar gera sínar kjarnorkuvopnatilraunir. Líka má nefna almenna mengun lofts og sjávar og hún er ekki stundarfyrirbrigði þegar litið er til þess hve langur helmingunartími hinna geislavirku efna er sem þar leysast úr læðingi.

Mig langar nú að víkja nokkrum orðum að þróunaraðstoð þeirri sem við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til og því hve illa við höfum staðið við þær skuldbindingar. Og ég vitna til skýrslunnar, með leyfi forseta, á bls. 24:

„Mjög skortir á að Íslendingar hafi náð því marki sem velmegunarríki Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér um þróunaraðstoð, þ. e. að hún verði 0,7% af opinberri hálfu af þjóðarframleiðslu og frjáls framlög annarra 0.3%–eða 1% alls.

Á undanförnum árum fram til 1983 hafa opinber framlög vegna þróunaraðstoðar og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi aðeins tvívegis verið yfir 1/10 af áðurnefndu hlutfalli þjóðarframleiðslu en að jafnaði mun lægri. Meðalhlutfall opinberu framlaganna á fimm ára tímabili 1978–1982 er 0.0585% af þjóðarframleiðslu, en meðaltal ársins í fyrra og nú í ár 0.1145%, þ. e. nær helmingi hærra en á fyrrnefndu tímabili. Þrátt fyrir þessa breytingu í rétta átt verður framlagið nú sjöfalt lægra en að er stefnt.“

Og ég vil bæta því við, sem heyrðist í fréttum nú nýlega, að Efnahags- og þróunarstofnun Evrópu hafði gert sér til gamans að reikna út að Ísland er sjötta ríkasta land í heimi.

Þarna þurfum við verulega að bæta úr. Ég verð að segja að ég skammaðist mín þegar nafnakall og atkvgr. um fjárlög fór fram hér í þinginu fyrir jól og brtt. um aukin framlög til þróunaraðstoðar var felld; það var okkur ekki sæmandi. Í þeim kafla þar sem greinir frá þátttöku Íslendinga í starfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á bls. 16 er hvergi nefnt að á s. l. ári kom upp tillaga, sem var samþykkt á þingi stofnunarinnar í Genf, þess efnis að kjarnorkuváin væri stærsta ógn við heilbrigði og heilbrigðisþjónustu heimsins. Við þessa atkvgr. sátu Íslendingar hjá. Það þótti mér og öðrum furðulegt og leið ráðstöfun og þætti mér vænt um að hæstv. utanrrh. upplýsti þingheim um hvers vegna. Enn fremur kemur fram í kaflanum um Alþjóðaheilbrigðisstofnunina að við erum nú aðilar að sérstökum samvinnuverkefnum um forvarnir og var sá samningur undirritaður 10. febrúar s. l. Ég fagna því, en ég minni jafnframt á það og hvet til þess að þetta verði ekki pappírinn tómur, þar sem mjög litlu fé var varið af síðustu fjárlögum til fyrirbyggjandi heilsugæslu og heilbrigðisfræðslu.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. finnst mér gæta mikillar einföldunar á eðli og atferli stórveldanna. Það er eins og hæstv. ráðh. sjái annað stórveldið algott og hitt alvont. Ég trúi því ekki að neinn sé algóður eða alvondur og allra síst stórveldin. Þvert á móti tel ég þau bæði jafnsek að því að fylla vopnabúr heimsins með kjarnorkuvopnum sem ógna öllu lífi á þessari jörð. Slíkt er ófyrirgefanlegt, óleyfilegt og ekki hægt að sætta sig við. Ég tel þau bæði sælast til áhrifa um heiminn, hvort með sínum hætti, og þau reyna að skipta heiminum á milli sín í áhrifasvæði og skapa og viðhalda óvinaímyndum hvort um annað til að tryggja sig í sessi og réttlæta vígbúnað sinn. Innan beggja stórvelda eru svo umsvifamiklir hagsmunir vopnaframleiðenda sem tengjast gífurlegu fjármagni og valdastöðu innan þjóðfélaganna og ráða líklega meiru um gang heimsmála en nokkur stjórnmálamaður þorir eða vill viðurkenna. Ég hef haft uppi mörg orð á þessu þingi í nafni Kvennalistans s. l. vetur um vígbúnað, afvopnun og friðarmál. Ég vil ekki tefja þingtíma nú með því að endurtaka það hér en vísa til þingtíðinda.

Það olli mér vonbrigðum að í skýrslu hæstv. utanrrh. er ekki tekið beint á hinu gífurlega og vaxandi vandamáli sem misrétti norðurs er gagnvart suðri á þessari jörð. Þó segir þar á bls. 25, með leyfi forseta:

„Enda þótt horfur þyki nú fara batnandi í iðnríkjum gegnir allt öðru máli um flest þróunarríki, einkum ríkja sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Stöðnun, skuldir og skortur þ. á m. helstu lífsnauðsynja setja mark sitt á þjóðlífið; sum þeirra verða að öllu óbreyttu verr sett í lok þessa áratugs en þau voru í lok sjöunda áratugarins. Þetta verður að sjálfsögðu að breytast.“

Þarna er nefnilega beint samband á milli. Velferð iðnríkjanna og bág staða þróunarríkjanna eru í beinu samhengi hvor við aðra. Og ljóst er að þessi vandamál verða heimsbyggðinni að fjörtjóni áður en langt um líður ef togstreita austurs og vesturs verður ekki búin að ljúka við okkur áður. Vandamál vegna fólksfjölgunar, auðlindaþurrðar og mengunar munu vaxa okkur yfir höfuð ef stefna þjóðanna helst óbreytt. Nægir að vitna í þá skýrslu sem Carter Bandaríkjaforseti lét gera og nefnist „Global 2000 Report“. Ber að fagna því frumkvæði sem Evrópuráðið hefur tekið um þessi mál.

Ég fagna því frumkvæði sem greint er frá í skýrslunni á bls. 5. Ég vitna, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnir Norðurlanda stóðu á s. l. ári sameiginlega að skýrslu og tillögu um eflingu Sameinuðu þjóðanna til að setja niður deilur og vopnuð átök þjóða í milli. Er þar m. a. gert ráð fyrir að auka afskipti Öryggisráðsins af deilumálum áður en til valdbeitingar og vopnaðra átaka kemur og í því sambandi vakin athygli á nauðsyn þess að styrkja stöðu og hlutverk aðalframkvæmdastjóra samtakanna. Hingað til hafa friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna eingöngu verið sendar á vettvang eftir að vopnuð átök hafa átt sér stað. Enn þá mikilvægara er að samtökin öðlist aukinn mátt til að koma í veg fyrir átök.“

Þetta styð ég eindregið. Sömuleiðis tek ég undir orð utanrrh. í ræðu hans við upphaf Allsherjarþings Sameinuðu þ)óðanna sem vitnað er til á bls. 10:

„Við Íslendingar byggjum afkomu okkar fyrst og fremst á auðlindum sjávarins. Við höfum því miklar áhyggjur af vígbúnaði í hafinu. Lítils háttar óhapp, að ekki sé talað um meiri háttar slys, getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fiskstofna okkar og þar með allan efnahag. Þetta skiptir ekki eingöngu Íslendinga heldur og okkur öll máli. Verndun hafsins sem matarkistu fyrir milljónir sveltandi manna er lífsnauðsyn og okkur er öllum skylt að vinna saman að því að koma í veg fyrir hvers konar mengun hafsins. Okkur ber sífellt að hafa þetta í huga og haga gerðum okkar samkvæmt því.“

Þarna styðja Kvennalistakonur við bakið á utanrrh. heilshugar.

Ég vil enn fremur leggja ríka áherslu á það að Ísland haldi áfram og efli samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar og enn fremur að aukið verði samstarf milli eyþjóðanna í Norður-Atlantshafi, sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta á mörgum sviðum, ekki síst hvað varðar meginlífsbjörg sína.

Margt fleira væri vert að ræða í skýrslu þessari. En ég vil nú samt taka fyrir síðasta atriðið til umfjöllunar. Hvað viðvíkur þeim framkvæmdum sem nú aukast í herstöð Bandaríkjanna í Keflavík þá er afstaða Kvennalistans til þeirra hin sama og til annarra hernaðarframkvæmda, hvar sem þær eru. Við trúum því ekki að hernaðarlausnir séu viðunandi eða mögulegar á samskiptavandamálum mannanna. Þess vegna höfnum við hernaðarhyggju og hernaðarlausnum. Hagmunir Ís- lands í þessum efnum eru órjúfanlegir frá hagsmunum alls heimsins. Ég vil ljúka máli mínu með því að lesa úr stefnuskrá Kvennalistans, kafla um friðar- og utanríkismál:

„Ísland er hluti af samfélagi þjóðanna og okkur ber að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Í því samfélagi er gæðum jarðarinnar misskipt og réttlæti fótum troðið. Íslendingum ber að taka afstöðu á alþjóðavettvangi gegn misrétti og kúgun í hvaða mynd sem er. Við viljum að Íslendingar veiti þá þróunaraðstoð sem þeim ber samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna og hagi ávallt aðstoð sinni í samræmi við þarfir og aðstæður íbúa á hverjum stað. Vinna verður sérstaklega að úrbótum og aðstæðum kvenna og barna í þriðja heiminum. Það er staðreynd að auðæfi jarðarbúa nægja til að útrýma skorti ef þau eru réttilega notuð.

Nú er svo komið að lífi og umhverfi er ógnað af vígbúnaði sem á engan sinn líka í veraldarsögunni. Gereyðingarhættan er raunveruleg og vofir yfir okkur öllum. Fjármunum er sóað í vígbúnað meðan hungruð börn hrópa á mat. Konur vernda líf og viðhalda því og þess vegna höfum við næma skynjun á þeirri ógn sem mannlífinu stafar af síaukinni söfnun tortímingarvopna. Okkur konum ber því frumskylda til að sporna við þessari geigvænlegu þróun.

Í áratugi hefur Íslendingum verið skipt í tvær andstæðar fylkingar með og á móti aðild að hernaðarbandalagi, með og á móti veru erlends hers í landinu. Stjórnmálaflokkar hafa notað það blygðunarlaust sér til framdráttar. Á sama tíma hefur vígbúnaður stórveldanna margfaldast og ógnar nú öllu lífi á jörðinni. Spurningin er ekki eingöngu um þátttöku okkar í hernaðarbandalagi eða dvöl hers hér á landi. Spurningin er um líf eða dauða. Íslenskar konur verða því að sameinast í baráttu fyrir afnámi allra hernaðarbandalaga, afvopnun og friði.

Við viljum að íslensk stjórnvöld taki afstöðu gegn vígbúnaði bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi, því ógnarjafnvægi leiðir ekki til öryggis. Við viljum að stjórnvöld beiti áhrifum sínum hjá alþjóðasamtökum til eflingar friði og alþjóðlegri réttarvernd. Við viljum tryggja að kjarnorkuvopn verði aldrei leyfð á Íslandi. Við viljum að íslensk efnahagslögsaga verði friðuð fyrir kjarnorkuvopnum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Við mótmælum harðlega losun kjarnorkuúrgangs og eiturefna í hafið vegna þeirrar hættu sem öllu lífríki og þar með fiskistofnum er búin með slíku athæfi. Við viljum draga úr umsvifum erlends hers meðan hann er hér á landi því aukin hernaðarumsvif, hvar sem er í heiminum, auka á vígbúnaðarkapphlaupið. Við viljum strangt eftirlit með starfsemi hersins. Við viljum að stjórnvöld skýri undanbragðalaust frá framkvæmdum og herbúnaði Bandaríkjahers hér. Við viljum minnka áhrif hersins í íslensku efnahagslífi svo tryggt verði að afstaða til hans mótist ekki af efnahagshagsmunum. Við viljum að íslenskt atvinnulíf sé óháð veru hersins.

Við styðjum hugmyndir um að ákveðin svæði verði lýst kjarnorkuvopnalaus og njóti alþjóðlegrar viðurkenningar því við teljum það viðleitni til afvopnunar á jörðinni allri. Á þeim grundvelli viljum við að íslensk stjórnvöld stuðli að því að Norðurlöndin í heild verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Við styðjum friðar- og mannréttindabaráttu hvar sem er í heiminum. Rödd Íslands á að hljóma í þágu friðarins. Það eitt er í samræmi við sögu þjóðarinnar og þannig teljum við að framtíð barna okkar sé best tryggð. Við viljum vinna með öllum þeim konum og körlum sem telja vitfirrt vígbúnaðarkapphlaup og ábyrgðarlausa umgengni við lífríki og náttúruauðlindir jarðar vera mestu ógnir sem steðja að mannkyninu í dag. Hvort tveggja er af mannavöldum og hvort tveggja má stöðva. Að þessu viljum við vinna.“