17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6112 í B-deild Alþingistíðinda. (5510)

380. mál, utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá skýrslu sem hér er til umr. Það er lofsvert að hæstv. utanrrh. gefi skýrslu um utanríkismál. Þó er það mikill galli hvað hún er seint á ferð. Utanríkisumræðan gæti sem best farið fram um miðjan vetur, þegar menn eiga ekki svona annríkt í þinginu eins og nú er, og þá gæti hún orðið ítarlegri og markvissari. Það varðar okkur miklu hvernig haldið er á utanríkismálum okkar og samskipti okkar við umheiminn eru náttúrulega ákaflega mikilvæg. Þess vegna er eðlilegt að alþm. gefi sér góðan tíma til að ræða um þessi mál. Ég held að ekki væri nein goðgá að hugsa sér að taka fleiri en einn dag til slíkrar umræðu.

Ég vil einkum taka einn þátt þessarar skýrslu til umræðu, eða auka nokkru við hann, þ. e. um Norðurlandasamvinnuna og samstarf okkar við Norðurlönd. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hefur lagt fram skýrslu um norrænt samstarf árið 1983. Hefur henni verið dreift á þskj. 901. Vil ég, með leyfi forseta, vitna nokkuð til hennar:

„Á fundi Sþ. 18. desember 1982 fór fram kosning fulltrúa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Kosningin gildir þar til ný kosning hefur farið fram á næsta reglulegu Alþingi. Eftirfarandi þm. hlutu kosningu: Páll Pétursson, Matthías Á. Mathiesen, Halldór Ásgrímsson, Sverrir Hermannsson, Eiður Guðnason og Stefán Jónsson. Varamenn voru kosnir Davíð Aðalsteinsson, Geir Hallgrímsson, Guðmundur Bjarnason, Pétur Sigurðsson, Árni Gunnarsson og Guðrún Helgadóttir.

Verkum var skipt þannig að Halldór Ásgrímsson var kjörinn formaður Íslandsdeildar og tók sæti í forsætisnefnd og laganefnd ráðsins. Varamaður hans í forsætisnefnd var kjörinn Matthías Á. Mathiesen. Í menningarmálanefnd, upplýsinganefnd og fjárlaganefnd var kjörinn Eiður Guðnason, í efnahagsmálanefnd voru kjörnir Matthías Á. Mathiesen og Páll Pétursson sem jafnframt var kjörinn í fjárlaganefnd. Í félags- og umhverfismálanefnd var kjörinn Sverrir Hermannsson og í samgöngunefnd Stefán Jónsson sem jafnframt var kjörinn í upplýsinganefnd.

Eftir alþingiskosningar 23. apríl 1983 tók Guðrún Helgadóttir sæti Stefáns Jónssonar í samgöngumálanefnd og upplýsinganefnd og eftir myndun ríkisstjórnar 26. maí 1983 tók Guðmundur Bjarnason sæti Halldórs Ásgrímssonar í laganefnd og Pétur Sigurðsson sæti Sverris Hermannssonar í félags- og umhverfismálanefnd. Til að gegna störfum Matthíasar Á. Mathiesen í efnahagsmálanefnd var tilnefndur Ólafur G. Einarsson. Páll Pétursson var kjörinn formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á fundi deildarinnar 10. júní 1983 og tók þá sæti Halldórs í forsætisnefnd.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt fjóra fundi á tímabitinu frá lokum 31. þings Norðurlandaráðs, sem haldið var í Osló 1983, til upphafs 32. þings ráðsins sem haldið var í Stokkhólmi 1984. Meðan á þessum þingum Norðurlandaráðs stóð hélt Íslandsdeild auk þess fundi hvern dag.

Á fundum deildarinnar var m. a. fjallað um breytingar þær á Helsinki-sáttmálanum sem leiðir af aðild Grænlands að Norðurlandaráði og aukinni aðild Álandseyja og Færeyja að ráðinu, og um samstarf við Norræna félagið um sameiginlegar fyrirlestraferðir, þar sem norrænt samstarf og Norræna félagsins yrði kynnt. Einnig var á fundum Íslandsdeildar rætt um aukið samstarf við Færeyjar og Grænland um tillögur þær að breyttu skipulagi og starfsháttum Norðurlandaráðs sem lagðar voru fram 30. nóvember 1983. Loks voru samþykktar tillögur um kjör fulltrúa og varafulltrúa frá Íslandi í stjórn Norræna menningarmálasjóðsins og tillögur um fulltrúa í endurskoðunarnefnd Norræna menningarmálasjóðsins.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hélt átta fundi á árinu 1983. Auk þeirra hélt hún fund með samstarfsráðherrum Norðurlanda í Reykjavík 16. júní og með forsætisráðherrum landanna 30. nóvember í Stokkhólmi. Forsætisnefndin hélt einnig fund 27. apríl með formönnum nefnda Norðurlandaráðs og 14. nóv. hélt hún fund með formönnum Norrænu félaganna.

Þann 28. janúar 1984 gengu í gildi breytingar á Helsinki-sáttmálanum sem heimiluðu fjölgun fulltrúa í Norðurlandaráði úr 78 í 87. Grænland, Færeyjar og Álandseyjar fengu þá heimild til stofnunar landsdeilda og tvo fulltrúa hvert í Norðurlandaráði. Starfa landsdeildir Grænlands og Færeyja innan landsdeildar Danmerkur, en landsdeild Álandseyja innan landsdeildar Finnlands.

Við þessa breytingu fjölgaði fulltrúum Íslands í Norðurlandaráði úr sex í sjö.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs og forsætisráðherrar Norðurlanda ákváðu á fundi 30. nóv. 1982 að skipa nefnd til könnunar á því hvort endurskoða þyrfti starfshætti og skipulag Norðurlandaráðs og leggja fram tillögur til úrbóta ef nefndin teldi þess þörf. Af Íslands hálfu átti sæti í nefndinni Matthías A. Mathiesen. Nefnd þessi hefur verið kölluð fimmmannanefndin. Hún skilaði áliti 30. nóv. 1983 og var það gefið út í tímaritaflokki Norðurlandaráðs.

Að mati fimm-mannanefndarinnar ber að styrkja stöðu Norðurlandaráðs og norrænu samstarfsráðherranna. Nefndin taldi nauðsyn bera til að forsætisnefnd Norðurlandaráðs og norrænu samstarfsráðherrarnir bæru aukna ábyrgð á gangi samstarfsins og að norrænu samstarfsráðherrarnir fengju heimild til að samræma nauðsynlegar aðgerðir í heimalöndunum í því skyni. Nefndin lagði einnig áherslu á að uppbygging embættismannakerfa Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar yrði samræmd, og eins að ákvarðanir Norðurlandaráðs yrðu undirbúnar betur og þeim fylgt betur eftir í heimalöndunum. Nefndin lagði til að fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar og norrænu menningarmálafjárlögin yrðu sameinuð og skrifstofur ráðherranefndarinnar, sem nú er í Osló, og menningarmálaskrifstofan, sem nú er í Kaupmannahöfn, yrðu sameinaðar.

Samkomulag var í fimm-mannanefndinni um flest atriði skýrslunnar. Fulltrúi Íslands skilaði þó séráliti um þann hluta skýrslunnar sem fjallar um sambandið milli ritara forsætisnefndar og nefndar þeirrar sem í eiga sæti aðalritarar landsdeildanna ásamt ritara forsætisnefndar. Nefnd þessi hefur skv. núgildandi reglum m. a. það hlutverk að undirbúa fundi forsætisnefndar. Skv. tillögum fimm-mannanefndarinnar skal ritari forsætisnefndar undirbúa fundi forsætisnefndar, en nefnd sú, sem áður hafði það hlutverk, vera honum til ráðuneytis. Fulltrúi Íslands taldi að með þessum breytingum og öðrum, sem lagðar voru fram og ganga í sömu átt, yrðu of mikil völd færð í hendur ritara forsætisnefndar frá deildum landanna og starfsfólki þeirra.

Íslandsdeild, sem fjallaði um skýrslu fimm-mannanefndarinnar á fundi sínum 22. nóv. 1983, studdi tillögur fulltrúa Íslands í fimm-mannanefndinni.

Fulltrúar landanna í forsætisnefnd lögðu fram þingmannatillögu skömmu eftir að skýrsla fimm-manna nefndarinnar lá fyrir þar sem þeim tilmælum var beint til Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar að leggja fram tillögur þær að breyttum starfsháttum ráðsins og ráðherranefndarinnar, sem leiddi af skýrslunni, eigi síðar en fyrir 33. þing Norðurlandaráðs 1985. Lögð var á það áhersla í þingmannatillögunni að við það starf skyldi höfð hliðsjón af könnunum þeim og tillögum að breyttum starfsháttum forsætisnefndarskrifstofunnar og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar sem áður hafa verið gerðar. Sú fyrri var birt í tímaritaflokki Norðurlandaráðs og sú síðari einnig. Þingmannatillögu þessari var vísað til laganefndar.

Á 31. þingi Norðurlandaráðs var annað árið í röð tekið tillit bæði til þjóðernis og stjórnmálastefna við kosningar í trúnaðarstöður skv. tillögum forsætisnefndar.

Vorið 1983 lét forsætisnefnd Norðurlandaráðs gera skoðanakönnun á Norðurlöndum um þekkingu almennings á norrænu samstarfi og störfum Norðurlandaráðs. Skoðanakönnun, sem að nokkru leyti var samsvarandi, hafði verið gerð 10 árum áður, en án þátttöku Íslands.

Skoðanakönnunin leiddi í ljós að almenningur á Norðurlöndum hefur jákvæða afstöðu til samstarfsins og áhuga á að það sé rækt. Þau svið sem þóttu mikilvægust voru samstarf um umhverfisvernd, orkumál og samstarf Norðurlanda á alþjóðlegum vettvangi. Á Íslandi og í Finnlandi voru hópar sem mátu enn meira þá hlið samstarfsins sem snýr að möguleikum á menntun hvar sem er á Norðurlöndum. Á Íslandi var almennur áhugi á norrænu samstarfi meiri en á hinum löndunum, en 72% þeirra Íslendinga, sem spurðir voru hvaða lönd þeir teldu mikilvægast að eiga samstarf við, svöruðu Norðurlönd. Í hinum löndunum svöruðu að meðaltali 43% að Norðurlönd væru mikilvægasti samstarfsaðilinn.

Í ljós kom við skoðanakönnunina að ungt fólk hafði minnsta þekkingu á samstarfi landanna. Því ákvað forsætisnefndin, að tillögu upplýsinganefndar, að hefja upplýsingaherferð sem beinast skyldi að ungu fólki og hafa að markmiði að auka þekkingu þess og áhuga á samstarfinu. Áætlað er að upplýsingaherferðin standi í ár frá hausti 1984.

Á 31. þingi Norðurlandaráðs árið 1983 lágu fyrir 43 tillögur og voru 37 þeirra þingmannatillögur en 6 frá Norrænu ráðherranefndinni eða ríkisstjórnum landanna. Af þingmannatillögunum voru 34 samþykktar en 3 afskrifaðar.

Laganefnd hélt fjóra fundi á árinu og einn fund með Norrænu ráðherranefndinni og dómsmálaráðherrunum. Á þeim fundi var m. a. rætt um ættleiðingu barna erlendis frá og ólöglega notkun tölva, eiturlyfjaneyslu og lögbrot henni tengd, réttarstöðu Sama, norrænan málasáttmála, vinnurétt og kosningarrétt Norðurlandabúa við þingkosningar í öðrum norrænum löndum en heimalandi sínu.

Á dagskrá nefndarinnar hafa enn fremur verið áðurnefnd skýrsla fimm-mannanefndarinnar, breytingar á þingsköpum Norðurlandaráðs vegna aðildar Grænlands og aukinna réttinda og fjölgunar fulltrúa Álandseyja og Færeyja í Norðurlandaráði, auk neytendamála sem nýverið hafa verið færð til laganefndar frá efnahagsnefnd.

Varaformaður nefndarinnar var Halldór Ásgrímsson, en á síðasta ári tók hv. þm. Friðjón Þórðarson við sæti í nefndinni og varaformennskunni einnig.

Menningarmálanefnd hélt sex fundi á árinu og var einn þeirra með Norrænu ráðherranefndinni og menntamálaráðherrunum. Á þeim fundi var að venju fjallað um norrænu menningarmálafjárlögin og óskir nefndarinnar um það hvaða samstarfsverkefnum bæri að veita forgang. Á fundi þessum var og rædd stefna landanna og samvinna í menntamálum og fjarskiptamálum.

Á dagskrá nefndarinnar var m. a. þingmannatillaga um móttöku sjónvarpsefnis frá sjónvarpshnöttum ríkja utan Norðurlanda. Af umræðum um þingmannatillögu þessa spannst umræða um sjónvarpsauglýsingar. Taldi nefndin það æskilegt að löndin hefðu líka stefnu um það hvort leyfa ætti sjónvarpsauglýsingar og skilyrði þess væru sem líkust.

Við umfjöllun um þingmannatillögur um fjárstuðning til norrænna listsýninga og til norræns íþróttasamstarfs kom fram það álit nefndarinnar að æskilegt væri að stuðningur við norrænar listsýningar yrði tekinn upp sem sérstakur liður á norrænu menningarmálafjárlögunum og einnig að æskilegt væri að fjárstuðningur til íþróttasamstarfsins yrði forgangsverkefni á sviði menningarmála. Nefndin hafði einnig til meðferðar þingmannatillögur um norræna samvinnu um menntun á Montessori-kennurum, um vísindakannanir og spár um framtíðarþróun þjóðfélagsins á Norðurlöndum, og um fjárstuðning við svæðaskrifstofur norrænu félaganna.

Formaður menningarmálanefndarinnar er Eiður Guðnason. Við það að fulltrúum Íslands í Norðurlandaráði fjölgaði fengum við annað sæti í þeirri nefnd. Það sæti skipar nú hv. þm. Stefán Benediktsson.

Umhverfis- og félagsmálanefnd hélt sjö fundi á árinu og var einn þeirra haldinn á Grænlandi. Markmið Grænlandsfundarins var að kynna nefndinni atvinnu-, félags- og heilbrigðismál á Grænlandi.

Auk þess sem Grænlandsfundurinn gaf tilefni til mótuðust störf nefndarinnar af vinnu við ráðstefnu þá sem nefndin hélt í sept. 1983 um vinnumál á Norðurlöndum.

Margar þingmannatillögur voru á dagskrá nefndarinnar auk einnar ráðherranefndartillögu um umhverfi og aðbúnað á vinnustöðum. Þingmannatillögurnar vörðuðu m. a. stofnun norrænnar miðstöðvar fyrir hjartaflutninga, könnun á aðstæðum þeirra sem hlotið hafa heilaskemmdir við umferðarslys, félagslækningar, samstarfsáætlun um lyfjaskráningu og sjónvarps- og hljóðvarpsdagskrár um krabbamein og krabbameinsvarnir.

Nefndin hélt svo fundi með Norrænu ráðherranefndinni og voru á þeim rædd atvinnumál, félagsmál, umhverfismál og mál er varða aðbúnað á vinnustöðum. Fulltrúi Íslands í umhverfis- og félagsmálanefnd á síðasta ári eða eftir kosningar hefur verið hv. þm. Pétur Sigurðsson.

Samgöngumálanefnd hélt fundi á árinu.

Í júní 1982 ákvað nefndin að stofna vinnuhóp til að endurskoða þá starfsáætlun sem nefndin hefur unnið eftir s. l. fimm ár og athuga möguleikana á að beina starfi nefndarinnar í auknum mæli að fjarskiptamálum. Nefndin fjallaði á árinu um skýrslu vinnuhópsins.

Á árinu fjallaði nefndin einnig um skýrslu sem vinnuhópur innan nefndarinnar hafði lagt fram um tölvutækni og fjarskiptamál. Þessar umræður leiddu m. a. til að allir nefndarmenn lögðu fram þingmannatillögu um að nafni samgöngumálanefndar yrði breytt í samgöngu- og tækninefnd og starfsvettvangi nefndarinnar breytt að sama skapi. Þingmannatillögu þessari vísaði forsætisnefnd til laganefndar.

Á dagskrá nefndarinnar voru þingmannatillögur um samræmingu á samgöngumálastefnu Norðurlanda, um járnbraut undir Eystrasalt og um orkusparnað í samgöngum.

Á hinum árlega fundi nefndarinnar með Norrænu ráðherranefndinni, samgönguráðherrunum, voru fjarskiptamál og tækni- og samgönguhlið tölvutæknisamstarfsins aðalumræðuefnið. Kom þar fram sú ósk nefndarinnar að of lítið hefði verið hugað að þessari hlið tölvutæknisamstarfsins í samstarfsáætlun ráðherranefndar um tölvutæknimál sem send hefði verið til forsætisnefndar. Óskaði nefndin eftir því að í ráðherranefndartillögu þeirri um tölvutæknimál, sem von væri á, yrði farið að þessum tilmælum nefndarinnar.

Efnahagsmálanefnd hélt sex fundi á árinu. Var á þessum fundum m. a. fjallað um fimm þingmannatillögur og fjórar ráðherranefndartillögur. Umræður um efnahagsástandið á Norðurlöndum og í öðrum hlutum heimsins eru fastir liðir á fundum nefndarinnar.

Nefndin hélt fundi með fjármálaráðherrum Norðurlanda, með aðilum vinnumarkaðarins og með fulltrúum frá Efnahagsbandalaginu og Fríverslunarbandalagi Evrópu.

Ráðherranefndartillaga um efnahagsmál og norrænt efnahagssamstarf var lögð fyrir nefndina í des. Nefndin taldi ráðherranefndartillöguna ekki uppfylla þær vonir sem bundnar hefðu verið við tillögu þessa hvað varðaði væntanlegar aðgerðir ríkisstjórnanna og ráðherranefndarinnar á þessu sviði.

Ráðherranefndartillaga um tölvutæknimál var lögð fyrir nefndina. Þar sem ekki kom fram í tillögunni hvernig ráðherranefndin hygðist kosta það starf sem gert var ráð fyrir ákvað nefndin að leggja til við forsætisnefnd að hún yrði endursend ráðherranefndinni með beiðni um nýja tillögu fyrir 32. þing ráðsins. Forsætisnefnd fór að óskum efnahagsnefndar.

Nefndin hafði einnig til meðferðar ráðherranefndartillögu um aukningu á hlutafé Norræna fjárfestingarbankans. Nefndin studdi tillögu þessa.“

Herra forseti. Eins og á þeirri skýrslu sést sem ég hef nú vitnað til þá er það býsna fjölbreytt og umfangsmikið starf sem þarna er unnið. Ég tel að samskipti okkar við Norðurlönd séu tvímælalaust mikilvægust af erlendum samskiptum okkar. Norðurlönd hafa þróast þannig að til þeirra er litið sem sælureits menningar og mannréttinda í veröldinni. Við Íslendingar eigum að rækja þessi samskipti sem best. Þetta eru þær þjóðir sem okkur eru skyldastar að tungu og menningu og við eigum heima í þessum hópi og við eigum að halda okkur í þessum hópi. Á þessu ári og því næsta verða þessi samskipti við Norðurlandaþjóðirnar nánari eða nær okkur en ella vegna þess að hæstv. viðskrh., sem einnig er samstarfsráðherra, hefur tekið við forustu í Norrænu ráðherranefndinni og verður formaður þar þar til næsta Norðurlandaráðsþing verður haldið. Íslendingar hafa jafnframt tekið við forustu í hinum fjölmörgu embættismannanefndum á vegum Norðurlandaráðs, þeirra sem við eigum aðild að. Og fullur vilji er til samstillingar meðal ráðherra, samstarfsráðherra og fulltrúa Alþingis í Norðurlandaráði, svo sem hv. þm. Svavar Gestsson taldi að vantaði, hér fyrr í umr.

Næsta þing Norðurlandaráðs verður haldið hér á Íslandi á næsta vetri í byrjun mars. Þá ber okkur að taka við forsetastarfi í Norðurlandaráði. Innan Norðurlandaráðs höfum við kappkostað að rækja vinskap við næstu granna okkar, Færeyinga og Grænlendinga. Þingmannanefnd hefur verið kjörin til þessa og skal starfa ásamt hliðstæðum nefndum frá þingum Grænlands og Færeyja. Störf þessara þingmannanefnda hafa gengið of hægt til þessa, einkum vegna þess að Grænlendingar hafa verið uppteknir vegna eigin mála og skilnaðarins við Efnahagsbandalag Evrópu, en nú standa vonir til þess að starf nefndarinnar fari að bera meiri árangur.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið með því að leggja sérstaka áherslu á það að í hópi Norðurlanda eigum við fyrst og fremst heima, en ekki í hinum engilsaxneska heimi. Ég vil leyfa mér að vitna til skýrslu hæstv. utanrrh. og gera klausu úr henni að mínum lokaorðum:

„Norræn samvinna er svo náin, mikilvæg og árangursrík að gjarna er til hennar vitnað sem fyrirmynd fyrir frjáls og fullvalda ríki sem vilja eða hafa myndað svæðasamtök til að stuðla að friði og vináttu milli nágranna og vinna að sameiginlegum hagsmunum. Norræn samvinna er talandi dæmi þjóðum heims til hvatningar að búa saman í sátt og samlyndi.“