17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6137 í B-deild Alþingistíðinda. (5514)

380. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lengri tími líði án þess að svara þeim fsp. sem til mín hefur verið beint. En ég veit hvað tími þingsins er knappur og þess vegna skal ég reyna að einbeita mér eingöngu að því að svara fsp. og örfáum öðrum atriðum.

Ég er sammála hv. þm. Svavari Gestssyni að það er skylda utanrrn. að meta þær áætlanir sem uppi eru varðandi varnir og öryggi landsins. Það er einmitt þess vegna sem við í utanrrn. gerum okkur meira far um en e. t. v. gert hefur verið að fylgjast með og kynna okkur þær áætlanir sem fyrir eru.

Hv. þm. spurði að því hvort ég kannaðist við áætlun sem bandarísk hernaðaryfirvöld hefðu gert í þessum efnum 1981. Ég hef ekki séð þessa áætlun og hef ekki heyrt hennar sérstaklega getið. Það er svo að til eru ýmsar áætlanir og hugleiðingar, bæði frá opinberum aðilum og einkaaðilum, varðandi mögulegar aðgerðir ef í odda skærist milli þjóða hér á norðanverðu Atlantshafi. En fæst af þessu eru ábyrgar áætlanir, staðfestar eða samþykktar, og því ber ekki að taka þær hátíðlega út af fyrir sig. En hitt er ljóst og um það erum við hv. þm. Svavar Gestsson sammála að íslenskum stjórnvöldum og Íslendingum öllum ber skylda til að fylgjast með hvað þeim má til friðar verða.

Hv. þm. taldi neitunarvald Alþb. hafa verið mikilvægt í síðustu ríkisstj. Ég tel nú ekki svo hafa verið þótt ég hafi haft orð á því að gott væri að því væri aflétt, nema þó í því að þeir stöðvuðu byggingu flugstöðvar um 1–2 ár. Öll þau atriði sem hv. þm. nefndi, margföldun olíugeymarýmis, bygging flugstöðvar, radarstöðvar, bygging flugskýla, neðanjarðarstjórnstöð, eru í raun og veru atriði sem voru komin af stað. Það er kannske ekki rétt að segja öll þessi atriði, eins og t. d. radarstöðvarnar, en flest hin voru komin af stað og um flugstöðina hef ég sérstaklega rætt.

Þá spurði hv. þm. hvort við í utanrrn. hefðum gert eitthvað til að fylgja fram ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem rætt var um nauðsyn þess að fylgjast með vígbúnaði í hafinu og reyna að koma í veg fyrir slíkan vígbúnað og koma af stað afvopnun á því sviði. Við höfum í þessum efnum fylgt þessari ræðu minni eftir með því að gerast meðflm. að till. á þingi Sameinuðu þjóðanna um könnun í þessum efnum, en niðurstaða þessarar könnunar verður lögð fram á þingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1985. Ég hef ítrekað þetta í ræðu á Stokkhólmsráðstefnunni og við höfum fylgst með störfum nefndar sem sett var á fót á vegum Sameinuðu þjóðanna til þess að standa fyrir þessari könnun sem till. fjallaði um. Við hefðum gjarnan viljað eiga fulltrúa í þessari nefnd en það þótti sanngjarnt að Svíar, sem eru aðalflm. þessarar till., hlytu það nefndarsæti sem Norðurlöndum var ætlað. En við munum fylgjast náið með störfum þessarar nefndar.

Þá spurði hv. þm. hvers vegna enginn kafli væri um Alþjóðavinnumálastofnunina. Því er til að svara að þær alþjóðastofnanir, sem við eigum aðild að, eru svo margar að ekki hefur þótt rétt að geta um starfsemi allra þeirra. Á ári hverju eru valdar úr þær stofnanir sem helst hafa eitthvað fréttnæmt til málanna að leggja. Nú er t. d. sérstaklega rætt um Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og UNESCO vegna þess að þannig háttar til um báðar þessar stofnanir, auk þess sem við eigum fulltrúa í framkvæmdastjórn þeirra beggja. En til mála kemur auðvitað að greina frá aðild okkar að öllum alþjóðastofnunum til þess að við getum frá ári til árs gert okkur grein fyrir hvort t. d. þátttökuframlag okkar í þessum stofnunum svari kostnaði.

Þá er rétt að það komi fram að þegar hv. þm. Svavar Gestsson bendir á vaxandi upphæðir, sem varið er til verkframkvæmda á vegum varnarliðsins hér á landi, þá er sá vöxtur einmitt mestur í stjórnartíð Alþb. í ríkisstj. Íslands.

Þá spurði hv. þm. hvort ég gæti svarað því til hvenær hafréttarsamningurinn yrði lagður fram hér á Alþingi til staðfestingar. Ég hef haft mikinn hug á því að flýta framlagningu hafréttarsamningsins hér á Alþingi og að því er stefnt að það verði þegar þing kemur saman að hausti.

Þá gerði hv. þm. athugasemd við það að ekki væri minnst á það af minni hálfu að rétt væri að leggja viðskrn. niður og spurði um hver afstaða mín væri í þeim efnum, en hann kvaðst vera á móti því. Nú tel ég ekki rétt að orða þessa spurningu svo vegna þess að ég held að enginn hafi lagt til að leggja viðskrn. niður. Það sem um er að ræða er að utanríkisviðskipti heyri undir utanrrn. og því er ég fylgjandi. Ástæðan til þess að á þetta er ekki minnst er að málið er ekki útrætt og stefnumótun liggur ekki fyrir hendi. Nefnd hefur starfað að því að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands og raunar skilað áliti sem ekki hefur enn hlotið meðferð í ríkisstj.

Þá hygg ég að næst sé rétt að svara fsp. hv. þm. Steingríms Sigfússonar. Hann spyr hver afstaða mín sé til kjarnorkuvopnalausra Norðurlanda. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni á opinberum vettvangi og raunar á fundum okkar utanrrh. Norðurlanda. Ég hef sagt að ég teldi sjálfsagt að Ísland væri aðili að umr. um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Ég hef enn fremur sagt að það væri að mínu mati ekki raunsætt að tala um kjarnorkuvopnataus Norðurlönd án þess að það væri gert í víðara samhengi, þ. e. stærra svæði væri tekið undir og þá fengin fullvissa t. d. af hálfu Sovétríkjanna að kjarnorkueldflaugum væri ekki stefnt að skotmörkum á Norðurlöndum frá Kólaskaga, Eystrasalti eða Eystrasaltsríkjunum og í vesturhluta Sovétríkjanna. Þá hef ég og enn fremur sagt að ég teldi e. t. v. nær að ræða um kjarnorkuvopnalaus svæði annars staðar en á Norðurlöndum því að Norðurlöndin eru kjarnorkuvopnalaus og engin þeirra hafa í hyggju að leyfa kjarnorkuvopn á sínum svæðum. Ég hef þá varað við því að einblína á kjarnorkuvopnalaus svæði sem bjargráð ef kjarnorkuvopnum væri ekki fækkað eða raunveruleg afvopnun ætti sér ekki stað um leið vegna þess að yfirlýsing um kjarnorkuvopnataus svæði þýddi þá ekkert annað en meiri samþjöppun kjarnorkuvopna á minna landssvæði sem síðan gæti leitt til þess að þeim yrði ýtt út í sjóinn og þar teldi ég að hagsmunum Íslands væri verst borgið ef sú yrði raunin.

Þá spurði hv. þm. hver afstaða mín væri til úrsagnar Bandaríkjanna úr UNESCO. Ég hef eins og aðrir, sem um þessi mál hafa að einhverju leyti hugsað, harmað úrsögn Bandaríkjanna. En ég eins og margir aðrir skiljum úrsögn Bandaríkjanna vegna þess að það er almenn gagnrýni á starfsemi UNESCO og eyðslusemi og óhagkvæman rekstur. Þessi stofnun hefur haft yfir miklum fjármunum að ráða en þeir hafa ekki nýst stofnuninni til þess starfs sem hún er kjörin til að vinna á vegum Sameinuðu þjóðanna. En auðvitað er það áfall fyrir stofnunina að Bandaríkin ganga úr henni þar sem Bandaríkin hafa lagt fjórðung þess fjár fram sem stofnunin hefur yfir að ráða.

Þá spurði hv. þm. Steingrímur Sigfússon hvort ég væri ekki til með að mótmæla því að Bandaríkin viðurkenndu ekki lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag í deilumálum í Mið-Ameríku. Ég verð að segja það eins og er að ég held að við Íslendingar ættum að fara varlega í það að áfellast aðrar þjóðir um að vilja ekki hlíta lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag. Það var afstaða þáv. ríkisstj. Íslands að vilja ekki viðurkenna lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag í fiskveiðideilu okkar og Breta. Ég hef sagt það áður og ég get vel ítrekað það nú að ég taldi þá að við hefðum átt að flytja mál okkar fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Ég hygg að það hefði getað ráðið úrslitum að dómurinn hefði fallið öðruvísi en raun bar vitni og féll hann þó ekki „prinsippíelt“ gegn hagsmunum okkar þótt hann gengi okkur í mót í bráð eins og þá stóðu sakir.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, herra forseti, þá hef ég aðeins svarað hér þeim fsp. sem til mín var beint. En ég tek undir með öðrum hv. þm. að æskilegt hefði verið að hafa meiri tíma til umr. og fjalla um efni málsins betur. En um leið hlýt ég að láta í ljós þá skoðun mína að unnt hefði verið að flytja mál sitt í styttri ræðum og sömuleiðis sýnist nú áhugi þm. ekki vera verulega mikill miðað við tölu þeirra sem hér eru staddir í salnum að þessu sinni.