17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6139 í B-deild Alþingistíðinda. (5516)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur fjallað um till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1983–1986 og naut við umfjöllun sína aðstoðar vegamálastjóra, Snæbjarnar Jónassonar, og starfsliðs hans.

Nefndin leggur einróma til að þáltill. verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 904. Eins og kunnugt er lágu fyrir brtt. fjvn. við till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1983–86 á síðasta þingi, en hlutu ekki afgreiðslu vegna þingrofs. Skv. bréfi samgrh. var fylgt þeirri stefnu á s. l. ári í framkvæmd vegamála sem fram kom í till. fjvn. Þó þykir rétt að æskja formlegrar staðfestingar Alþingis nú á vegáætlun fyrir árið 1983.

Fjvn. hafði einnig lagt fram tillögur um skiptingu á nýbyggingarfjármagni milli kjördæma fyrir árin 1984–1986. Sömu sögu er að segja að því er varðar sérstök verkefni, bundin slitlög og svonefnda Ó-vegi. Að þessu sinni var litið svo á að sú ákvörðun stæði óhögguð, en við aðalendurskoðun vegáætlunar á næsta ári kæmi til álita að breyta þeirri meginstefnu sem og öðru því sem ástæða þætti til að breyta í vegáætlun fyrir árin 1985 og 1986.

Brtt. n. miðast við forsendur fjárlaga að því er varðar innheimtu markaðra tekjustofna, verðlag og gengi. Niðurstöðutölur útgjalda lækka þó um 28 millj. kr. frá þáltill. sem ráðh. lagði fram fyrr í vetur. Munar þar mestu um halla vegna vetrarviðhalds á árinu 1983, en sá halli greiðist að hluta af fjárveitingum á yfirstandandi ári. Í fjáröflun kemur þessi fjárhæð til hækkunar á lántökum.

Nú hefur verið ákveðið, svo sem kunnugt er, að lækka framlög til vegamála um 20 millj. kr. í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum. Tillögum n. er ekki breytt vegna þessa, en samgrh. mun fá heimild til þessarar lækkunar skv. sérstökum lögum. Þessi lækkun mun verða framkvæmd eins og fram kemur á sérstöku fskj. með nál. fjvn. Það skal tekið fram að töluleg lækkun á framkvæmdafé í einstökum kjördæmum mun framkvæmd að höfðu samráði við þm. hvers kjördæmis.

Verðlagsforsendur fjárlaga miðast við 22–23% hækkun verðlags að meðaltali milli áranna 1983 og 1984. Þetta jafngildir því að vísitala vegagerðar verði 1270 á miðju árinu.

Verðlagsforsendur fjárlaga miðast mikið til við hækkun framfærsluvísitölu, en vísitala vegagerðar er hins vegar mjög háð töxtum véla sem hafa ekki sama hækkunarferil. Gerð hefur verið áætlun um þróun vísitölu vegagerðar fram til sumars þar sem tekið er mið af töxtum véla í dag, líktegri hækkun þeirra miðað við markmið ríkisstj. í gengismálum, svo og nýgerða kjarasamninga. Niðurstöður þessara athugana benda til þess að vísitala vegagerðar geti orðið eitthvað undir 1270, en hversu miklu minni hækkunin verður ræðst mjög af þróun gengis. Miðað við fyrrgreinda forsendu gæti hækkun vísitölu vegagerðar orðið 2–4% minni en ráð var fyrir gert í fjárlagaforsendum.

Lækkun fjárveitinga til framkvæmda vegna 20 millj. kr. niðurskurðarins er á hinn bóginn einungis sem svarar 1.6%. Standa því vonir til að raungildi framkvæmdafjár haldist í því marki sem gert var ráð fyrir við framlagningu vegáætlunar vegna hagstæðrar verðtagsþróunar.

Á síðasta þingi var lögð fram till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð. Fjármagn í langtímaáætlun er ákveðinn hundraðshluti af þjóðarframleiðslu, svo sem Alþingi hafði ákveðið 1981. Þetta hlutfall skyldi vera 2.2% 1983, 2.3% 1984, en 2.4% úr því. Í áætluninni er fjármagni skipt á höfuðliði, auk þess sem fé til stofnbrauta er skipt á einstök verkefni.

Langtímaáætlun skiptist í þrjú fjögurra ára tímabil og er skipting fjármagns á liði og verkefni miðuð við þau. Till. sú að vegáætlun fyrir árin 1983–1986, sem nú er lögð fram, tekur til fyrsta tímabils langtímaáætlunarinnar. Till. er í samræmi við langtímaáætlun að því er varðar skiptingu á höfuðliði.

Minnkandi þjóðarframleiðsla og lægra hlutfall til vegamála árin 1983 og 1984 veldur því að nokkuð vantar upp á að markmið langtímaáætlunarinnar náist. Á það bæði við um nýjar framkvæmdir og sumarviðhald. Rétt er að undirstrika þá staðreynd að sumarviðhald á langt í land að mæta þörf og bitnar minnkun fjármagns ekki síður á því en nýjum framkvæmdum.

Sé gerður samanburður á raunframkvæmdum í vegagerð milli fyrra árs og vegáætlunar fyrir árið 1984 kemur í ljós að aukning verður 7% ef verðlag fjárlaga er lagt til grundvallar, en allt að tæp 11% ef svo fer að verðlagsþróun verði í raun hagstæðari á þessu sviði en ráð var fyrir gert. Raunverulegar vegaframkvæmdir munu því aukast í sumar miðað við árið í fyrra.

Skv. þessari þáltill., sem hér er um fjallað, verður mikil breyting á fjármögnun nýrra vega og brúarframkvæmda frá því sem verið hefur. Þetta kemur glöggt fram á myndriti sem fylgir nál. fjvn. Skattar á bensíni hækkuðu um 440 millj. kr. að raungildi milli áranna 1978 og 1979 á verðlagi nú í ár í kjölfar hækkunar sem þá varð á heimsmarkaðsverði á olíu. Á því ári voru þó tekin meiri lán en fyrr til vegagerðar og hefur þetta enn aukist árið 1980 og síðar, þar til í fyrra að gert er ráð fyrir mun minni lántöku og er þeirri stefnu haldið áfram á yfirstandandi ári. Þetta stafar m. a. af því að ríkisstj. hefur ákveðið að um 50% af skatttekjum af bensíni renni til vegagerðar, en þetta hlutfall lækkaði mjög undanfarin ár.

Lántökur til vegagerðar hafa undanfarið numið eftirfarandi fjárhæðum á föstu verðtagi ársins í ár: 1978 279 millj. kr. eða 47.9% af nýbyggingum vega og brúa. 1979 327 millj. kr. eða 64.9% af fjárveitingum til nýbygginga vega og brúa. 1980 544 millj. kr. eða 71.4%. 1981 504 millj. kr. eða 62.8%. 1982 511 millj. kr. eða 71.8% af fjárveitingum til nýbygginga vega og brúa. En síðustu árin hefur þetta snarminnkað. 301 millj. kr. voru teknar að láni til vegagerðar í fyrra og nam það hlutfall 51.5% af fjárveitingum til nýbygginga vega og brúa og í ár verða lántökur einungis 35.7% af fjárveitingum til nýbygginga vega og brúa eða 223 millj. kr. Skv. þessu hafa þrátt fyrir háa skatta á umferðina verið tekin lán til vegagerðar sem sum árin námu allt að 70% af fjárveitingum til nýframkvæmda vega og brúa, en nú er þetta hlutfall komið niður í 35.7% eins og ég gat um áðan.

Bensíngjaldið, sem gengur til vegagerðar sem markaður tekjustofn, hefur nánast haldist hið sama að raungildi síðan 1978 þótt bensínskattar í heild hafi hækkað um nærri 50%. Hlutfall bensínskatta, sem gengið hafa til vegagerðar, hefur verið sem hér segir frá 1978: 1978 50.4%, 1979 39.7%, 1980 37.1%, 1981 35.9%, 1982 36%, 1983 35.6% og 1984 um 50%.

Heildarframlög Vegasjóðs og ríkissjóðs til vegagerðar felast í mörkuðum tekjum, beinum framlögum úr ríkissjóði og greiðslum ríkissjóðs vegna afborgana og vaxta af lánum sem tekin hafa verið til vegagerðar. Skv. þessari till. til þál., sem hér er til umr., verða heildarframlög til vegagerðar hæst á yfirstandandi ári frá árinu 1978 eða 1500 millj. kr. í samanburði við 1177 millj. kr. þegar þau voru lægst á þessu tímabili, árið 1979. Athyglisverðast er þó að bein framlög úr ríkissjóði af samtíma skatttekjum að lántökum undanskildum hafa verið sem hér segir frá 1978 í millj. kr. á verðlagi ársins í ár: 1978 931 millj. kr., 1979 852, 1980 636, 1981 883, 1982 711, 1983 1085 og í ár skv. þessari þáltill. 1247 millj. kr. Af þessu sést að á s. l. ári og í ár rennur mun meira af skatttekjum til vegamála en undanfarin ár og nærri tvöföld fjárhæð miðað við árið 1980. Að sjálfsögðu er þetta ein skýringin á þeim vanda sem við er að glíma í ríkisfjármálum og skýrir að hluta mikla lánsfjárþörf ríkissjóðs á öðrum sviðum.

Þegar hæstv. samgrh. mælti fyrir till. að vegáætlun, sem hér er til umr., ræddi hann um álagningu þungaskatts og vankanta á framkvæmd álagningar og innheimtu þess skatts. Ég vil mjög taka undir orð hæstv. ráðh. um þetta atriði. Þungaskattur á dísilbíla var tekinn upp við breytingu vegalaga 1963 samtímis upptöku bensíngjalds sem lagðist á eigendur bensínbíla. Þetta gjald var í upphafi fast árgjald, en var síðan breytt á árinu 1970 hvað varðar þyngri bíla í gjald á ekinn km. Reynslan af kílómetragjaldinu hefur leitt í ljós ýmsa vankanta á því innheimtukerfi. Kerfið er ákaflega þungt í framkvæmd. Setja þarf sérstaka mæla í flesta bíla til að skrá notkunina. Innheimta gjaldsins fer fram þrisvar á ári og þurfa eigendur bílanna að koma með þá jafnoft til aflestrar mætis. Útreikningur greiðsluskyldu er tímafrekur og er enn handunninn, nema í Reykjavík þar sem úrvinnsla fer fram í skýrsluvélum. Til eftirlits með innheimtu og virkni mæla eru nú tveir starfsmenn í fullu starfi, auk þess sem bifreiðaeftirlitsmenn og vegalögregla sinna eftirliti eftir því sem aðstæður leyfa. Þetta eftirlit er hins vegar erfitt í framkvæmd og því er nokkur óvissa um skilvirkni kerfisins. Heildarkostnaður við eftirlit og álagningu kílómetragjalds, svo og kostnaður bifreiðaeigenda við mæla, er lauslega áætlaður a. m. k. 5 millj. kr. á ári. Er þá sleppt þeim aukakostnaði sem lendir á bifreiðaeigendum sjálfum við að koma með bifreiðar sínar til álestrar þrisvar á ári. Þá má loks nefna að aukinn fjöldi minni dísilbíla til einkanota krefst þess að eigendum þeirra sé ekki mismunað með gerólíku skattkerfi eins og er í dag. Nú er á hinn bóginn leitað leiða til að innheimta skatt af dísilbílum með öðrum hætti, t. d. litun olíu, en brýna nauðsyn ber til þess að hraða þessari athugun og afnema þetta þunglamalega skattkerfi.

Herra forseti. Ég skal ekki fara fleiri orðum hér um till. til þál. um vegáætlun að sinni, enda miklar annir hér á hinu háa Alþingi. Eins og áður segir leggur fjvn. til að þáltill. um vegáætlun verði samþykkt með þeim breytingum, sem n. flytur á þskj. 904. Einstakir nm. hafa þó fyrirvara svo sem kemur fram í nál., m. a. um að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.