17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6148 í B-deild Alþingistíðinda. (5520)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að setja á langhund hér um vegáætlun enda viðurkenni ég hreinskilnislega að ég hef ekki sett mig sérlega vel inn í þetta mál. Það er nú svo, sérstaklega þessa dagana, að menn komast ekki hjá því að velja og hafna hvaða mál þeir vilja skoða betur en önnur. Ég vil auðvitað góða vegi sem víðast og þekki mætavel hvílíkur munur er á ástandi vega hérlendis. Jafnvel Reykjaneskjördæmi, sem er þó sæmilega sett miðað við ýmis önnur, hefur innan sinna marka vegi sem tæpast geta kallast því nafni og eru vart notandi öðrum en torfæruröllurum. Þó eru aðrir málaflokkar sem ég tel hafa forgang fram yfir vegamál og hef látið þá skoðun í ljós héðan úr ræðustól og í greinaskrifum.

Sem þm. Reykjaneskjördæmis fæ ég ýmis heimabyggðablöð sem fróðlegt er að lesa. Nýlega barst mér eitt slíkt blað og þar var m. a. spurning dagsins hvað menn vildu hafa efst á framkvæmdaskrá bæjaryfirvalda. Óskir þeirra sem svöruðu skiptust algerlega á milli kynja, karlmennirnir vildu varanlegt slitlag á göturnar en kvenfólkið nefndi leikvelli, íþróttahús, skóla og aðstoð við aldraða. Þannig var það nú, og ekki meira um það. En kannske er þarna m. a. að finna skýringuna á því að þessi málaflokkur, þ. e. vegamálin, virðist njóta nokkurs forgangs hjá þeim sem ráða.

En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs núna er þó fyrst og fremst sú að skv. 1. gr. frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem kennd hefur verið við bandorm, ber samgrn. að spara við sig 25 millj. kr. og fékk vegamálastjóri fyrirmæli um að lækka útgjöld til vegamála um 20 millj. Þegar leitað er eftir hvernig sá niðurskurður verði í framkvæmd fullyrða menn að þetta sé aðeins samdráttur í tölum en ekki framkvæmdum, og má það vera rétt og er út af fyrir sig gott ef sú verður raunin. En óhjákvæmilega veltir maður fyrir sér hvernig það má vera að 20 millj. kr. lækkun til vegaframkvæmda komi ekki fram í samdrætti á framkvæmdum. Ég minni á að hér er um sömu upphæð að ræða, 20 millj. kr., og fulltrúar minni hl. fjvn. fluttu till. um við 2. umr. um fjárlögin til hækkunar á þeim lið sem ætlaður er til byggingar dagvistarheimila. Til þeirra eru aðeins ætlaðar rúmar 30 millj . kr. á þessu ári, sem þýðir það að ekki er unnt að byrja á neinum nýjum framkvæmdum í þeim málaflokki. 20 millj. kr. hækkun til byggingar dagvistarheimila þótti ekki við hæfi að mati stjórnarflokkanna sem greiddu atkvæði gegn þessari brtt. minni hl. Það hvarflar óneitanlega að mér nú hvort rammi vegáætlunar sé yfirleitt svona rúmur að það muni bara ekkert um 20 millj. hér og 20 þar. Og þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning hvort ekki væri hægt að spara slíkar upphæðir víðar í kerfinu. En það er líklega sama gamla sagan um mjúku og hörðu gildin. Mér finnst ekki hafa komið fram neinar viðhlítandi skýringar á því hvernig unnt er að draga svona saman á pappírnum án þess að það komi fram í minnkandi framkvæmdum og þætti gott ef hv. formaður fjvn. gæti skýrt hvernig slíkt má vera því hér er óneitanlega um mikið fé að ræða.