17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6149 í B-deild Alþingistíðinda. (5521)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að taka aðeins þátt í þessum umr. og lýsa yfir ánægju minni með það að þrátt fyrir samdrátt og erfiðleika hefur tekist að halda í horfinu í sambandi við vegáætlunina. Næstum allir hljóta að viðurkenna að eitt mikilvægasta mál fyrir okkur sem þjóð í stóru og erfiðu landi er að þessi málaflokkur hafi ákveðinn forgang og að þessum þætti í samgöngumálum okkar sé myndarlega unnið. Það er alveg ljóst og það hefur komið fram hversu gífurlega þýðingarmikið það var á sínum tíma þegar náðist algjört samkomulag hér á Alþingi um að gera langtímaáætlun í vegagerð og fara eftir henni. Þrátt fyrir það að deila megi og harma að ekki næst alveg full prósenta eins og að var stefnt þá heldur þessi langtímaáætlun sem ákveðin var samt gildi sínu og hún gerir það að verkum að þm. eru sammála um að fara ekki út af þeirri braut að vinna eftir henni. Þessu ber vissulega að fagna og það var nú eiginlega erindi mitt hingað í ræðustól að undirstrika sérstaklega þetta atriði.

En af því að ég er hingað kominn vil ég aðeins segja það að ég get að sjálfsögðu fagnað sérstaklega því átaki sem var gert undir liðnum Ó-vegirnir. Það var mjög gæfurík ákvörðun á sínum tíma að taka þessa hættulegu vegi út úr og vinna að þeim eftir ákveðnu skipulagi og í þeirri forgangsröð sem ákveðin var. Ég get sagt það hér að framkvæmdin við veginn fyrir Ólafsvíkurenni er glöggt dæmi um það hvernig hægt er að sameina útboð og þá tækni sem ýmsir aðilar í okkar þjóðfélagi búa nú yfir í sambandi við vegagerð og ná þar glæsilegum árangri, ekki aðeins við verkið sjálft og flýta því fram heldur einnig að spara stórkostlega peninga. Þetta hefur sannað það rækilega að Íslendingar eru færir um að glíma við erfiðustu verkefni, ekki síst á þessu sviði, þ. e. brúar- og vegagerð við erfiðar aðstæður. Þessu ber að fagna og þetta eykur vissulega bjartsýni okkar um að okkur takist að sigrast á ýmsum erfiðum verkefnum í vegagerð og raunar mörgum fleiri sviðum í okkar þjóðfélagi. Þess vegna tel ég að við eigum að halda ótrauðir áfram á þeirri braut að auka útboð í verklegum framkvæmdum og ekki síst í sambandi við vegagerð, hafnagerð og margt fleira.

Ég vil, herra forseti, ekki lengja þessar umr. Ég vildi aðeins nota tækifærið og undirstrika þessi atriði og um leið vil ég sérstaklega flytja Vegagerðinni þakkir fyrir ágætt starf og fyrir farsæla forustu um vegagerð hér á landi. Það er stofnun sem hefur þróast í verkefninu og sannarlega nýtt sér þá tækni og þær framfarir sem.hægt er að nota. Ég treysti Vegagerðinni til áframhaldandi góðra verka á þessu sviði.