17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6153 í B-deild Alþingistíðinda. (5525)

Um þingsköp

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Sú vinnuskipulagning, sem hér hefur átt sér stað undanfarin kvöld, hefur komið mér dálítið spánskt fyrir sjónir, þ. e. a. s. að hér hafi verið þingfundir á hverju kvöldi alla þessa viku. Þegar ég kom hér til þings þá mun það hafa verið með þeim fyrri fundum sem ég var á að um þetta var rætt í þingflokki hjá okkur. Lagt var til að haldnir yrðu tveir kvöldfundir í viku. Þm., sem hafði setið mörg þing, lýsti því þar yfir að það væri algerlega nýtt í þingsögunni að þannig væri unnið.

Ég geri ráð fyrir því að flestir þm. hafi vel möguleika til þess að sinna störfum hér á hverju kvöldi vegna þess að mikill hluti þeirra vinnu hefur þegar farið fram í n. En með því að halda hér uppi fundi kvöld eftir kvöld er verið að leggja algerlega óeðlilegt vinnuálag á starfsfólk þingsins, og án þess að gera neina tilraun til þess, að því er virðist, að bæta þar við starfskröftum. Hér er sama starfsfólkið að vinna frá morgni til kvölds við mjög erfiðar vinnuaðstæður og mér finnst það ganga allt of langt og ábyggilega verið að ganga yfir lög í sambandi við þá hluti.

Ég vil nú bæði spyrja hæstv. forseta hvort enn sé áfram hugsað að vinna þannig á morgun og hvort það hafi verið af einhverri nauðsyn að þau mál, sem hér eru til umr. í kvöld, hafi verið tekin til afgreiðslu. Mér sýnist að flest af þessum málum hefðu getað beðið morgunfundar.

Einnig hef ég áhuga á því að heyra frá formönnum þingflokka, m. a. míns eigin þingflokks, hvort þetta sé gert með ráðum þeirra. Þessi mál hafa a. m. k. ekki verið rædd í mínum þingflokki að það væri ákveðið að haldinn yrði hér kvöldfundur alla vikuna eða kvöld eftir kvöld.