17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6155 í B-deild Alþingistíðinda. (5528)

Um þingsköp

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim þm., sem hér hafa rætt um vinnubrögð og annir á Alþingi, að vissulega hefur verið annasamt núna seinustu dagana og það vafalaust úr hófi fram. Ég vil líka alveg sérstaklega taka undir það sem sagt var áðan af þingflokksformanni Alþfl., hv. þm. Eiði Guðnasyni, að það ber brýna nauðsyn til þess að skipuleggja vinnubrögð á Alþingi betur en gert hefur verið. Þetta höfum við rætt, þingflokksformenn, á mörgum fundum í vetur og einnig rætt við forseta þingsins. Það mál er ekki útkljáð og var ekki útrætt en þó má nefna dæmi þess að eitthvað örlítið hafi hreyfst til betri vegar á vissum sviðum án þess að ég ætli að fara að tíunda það hér.

Eitt af því, sem rætt var um snemma í vetur, var einmitt það, sem hv. þm. Skúli Alexandersson nefndi hérna áðan, að kvöldfundir yrðu yfirleitt aldrei oftar en tvisvar í hverri viku. Þetta held ég að hafi staðist í vetur. Hins vegar gerðu sér vafalaust allir grein fyrir því þegar um þetta var rætt að í seinustu vikunni áður en þing færi heim mundi þessi regla ekki standast frekar en fyrri daginn.

Ég hygg að það hafi verið svo um mjög langt skeið að margir kvöldfundir, stundum næturfundir hafi verið í seinustu vikunni áður en þingið fer heim. Ég er nú kannske ekki eins bjartsýnn og sumir aðrir á það að á þessu verði snögg breyting. Það er margt sem stuðlar að þessum ósið okkar alþm. og virðist ekkert vera auðvelt að brjótast út úr þeim ógöngum sem við lendum alltaf í að vorinu.

Varðandi kvöldfund á þessum degi vil ég taka fulla ábyrgð á mig að hafa samþykkt hann. Við Alþb.-menn höfum lagt á það áherslu, eins og raunar aðrir flokkar, að landið yrði ekki kosningalagalaust í sumar, enda slíkt óheyrt og getur ekki staðist. Þingið getur ekki farið heim án þess að afgreiða kosningalögin. Nd. hefur legið á þessu máli vikum og mánuðum saman og er ekki að skila því af sér fyrr en í dag. Það var alveg ljóst að hvort sem menn ætluðu sér að ljúka þinginu á laugardegi eða mánudegi, eins og talað hefur verið um, yrði að taka kosningalögin til umr. í Nd. í kvöld. Undan því varð ekki vikist. Ég tel ekki að nein sérstök nauðsyn hafi verið á því að halda fund í Ed. í kvöld. En úr því að hér stóð fundur í Sþ. fram á kvöldið þótti mér eðlilegt að nýta tímann eitthvað til viðbótar til umræðna þótt ekki verði sagt að það sé nein alger nauðsyn. Ef þannig stæði á fyrir einstökum þm. að þeir vildu mótmæla fundi hér í deildinni í kvöld umfram einhvern ákveðinn tíma, þá hygg ég að forustumenn flokka og forseti mundu taka fullt tillit til þess.

Sem sagt, ég tek á mig alveg fulla ábyrgð á fundum hér í deildum í kvöld. Það hefur ekki verið minnst á það í mínum flokki að reyna að forðast það. Þvert á móti höfum við lagt á það áherslu að kosningalagamálið verði afgreitt frá Nd. hið fyrsta því það sæmir að sjálfsögðu ekki að við fáum hér í Ed. kannske örfáa klukkutíma til þess að ræða slíkt stórmál. Við verðum að geta fengið hæfilegan tíma til þess að taka það mál hér til athugunar, og það verður bersýnilega ekki nema málið komi til okkar á morgun. Af þessari ástæðu sjá allir að það varð ekkert undan því vikist að hafa fundi í Nd. í kvöld og þess vegna er hér nú líka fundur í Ed. Ég held eins og ég sagði áðan, að ef fram kæmu óskir um að fundurinn yrði ekkert allt of langur, þá mundu margir verða til að styðja þá ósk og ég mundi hiklaust vera í þeim hópi. En ég var því sammála að við notuðum þennan tíma núna til að afgreiða mál og tek fulla ábyrgð á því.