17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6156 í B-deild Alþingistíðinda. (5529)

Um þingsköp

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði um það í lok ræðu sinnar að ekki hafi verið undan því vikist að halda fundi í kvöld í Nd. sérstaklega til þess að hægt væri að koma kosningalögunum áfram, en sú skoðun miðast náttúrlega við það að þingi verði slitið á laugardag, mánudag eða þriðjudag. Ég sé ekki ástæðu til að slíta þingi núna á þessari helgi. Ég sé enga ástæðu til annars en að við getum haldið áfram að vinna hér eins lengi og við þurfum til þess að geta afgreitt mál sómasamlega héðan af Alþingi Íslendinga.

Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið um álag á starfsfólk og álag á þm. Ég held að fólk, sem vinnur undir slíku álagi eins og þm. gera núna, geti í raun og veru ekki gengið úr skugga um það þannig að þeir geti átt það við sína samvisku að það, sem hér fer í gegn, sé eins og þeir hefðu helst kosið og að þeir hafi unnið það eins og þeir vilja.

En mig langar til að gera hérna eitt atriði að umtalsefni, sem ekki hefur verið minnst á, og það eru nefndarstörfin. Ég vakti máls á því í hv. félmn. í morgun að mér fyndist það ekki sæmandi að félmn. Ed. fái einn sólarhring til þess að fjalla um húsnæðismálafrv. sem er stór og mikill lagabálkur eins og allir vita og er búið að vera til umræðu í lengri tíma í Nd. Þau svör fengust þá á fundinum af hálfu stjórnarþm. að þetta væri nú vaninn og að þingflokkar væru búnir að fjalla um frv. áður. En þá spyr ég: Til hvers er verið að hafa hér tvær þingdeildir ef þetta á að vera vinnulagið?

Bandormurinn fer hér líka í gegn á methraða með nánast engum nefndarstörfum og svo eru það kosningalögin. Og mér er spurn: Hvað skyldum við fá langan tíma til að fjalla um þau? Eru það klukkutímar eða mínútur? Og ég vil eingöngu að lokum taka undir þau orð sem hér hafa fallið. á undan um það að þetta er ekki vinnutag í lagi, því fer fjarri. Ég geri ráð fyrir að menn séu komnir hingað til að vinna og við þessar aðstæður er ekki hægt að vinna.